Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Meðan rekstrarvirði og upplausnarvirði kúabúa eru nánast hvort í sínu sólkerfinu er greininni mikill vandi á höndum,“ ritar Baldur Helgi Benjamínsson meðal annars.
Meðan rekstrarvirði og upplausnarvirði kúabúa eru nánast hvort í sínu sólkerfinu er greininni mikill vandi á höndum,“ ritar Baldur Helgi Benjamínsson meðal annars.
Mynd / ghp
Lesendarýni 11. janúar 2024

Að misnota markað?

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði.

Niðurstöður tilboðsmarkaðar með greiðslumark mjólkur (kvótamarkaður) sem haldinn var 1. nóvember 2023 hafa vakið athygli.

Baldur Helgi Benjamínsson.

Þegar sambærilegur markaður var haldinn 1. nóvember 2022 var eftirspurnin rúmlega 3 milljónir lítra. Ári síðar var eftirspurn eftir greiðslumarki í mjólk komin niður í 1,6 milljón lítra. Samdráttur í eftirspurn er tæp 47%. Aðra sögu er að segja af framboðinu; 1.11. 2022 var það 1,9 milljón lítrar en 2023 er það 3,3 milljónir lítra, aukning í framboði á þessu eina ári er 73%.

Öll vötn til Norðvesturlands

Í forsíðufrétt Bændablaðsins þann 23. nóvember sl. sagði frá því að heildarviðskipti á markaðnum 1. nóvember 2023 hefðu numið 1.048.500 lítrum. Jafnvægisverð var 300 kr/ltr og umfang viðskiptanna því 314 milljónir kr.

Af framantöldu magni fóru 710.000 lítrar til búa í sveitarfélaginu Skagafirði og 260.000 lítrar á bú í Húnaþingi; alls fóru því rúmlega 90% af því greiðslumarki sem skipti um eigendur á bú á Norðvesturlandi. Afgangurinn, 7,5%, skiptist á milli Vestur- og Suðurlands sem halda á um 52% af mjólkurframleiðslunni í dag.

Þungt fyrir fæti

Ekki þarf að fjölyrða um versnandi rekstrarskilyrði mjólkurframleiðslunnar á umliðnum misserum. Í kjölfar fyrirlitlegrar innrásar Rússa í Úkraínu fyrir tæpum tveimur árum hækkaði kornverð mikið, og kjarnfóður þar með. Áburður sem bændur notuðu á nýliðnu ári var tvöfalt dýrari en árið á undan. Þá hafa launahækkanir hér á landi verið gríðarlegar, sem hefur mikil áhrif á verð vöru og þjónustu sem bændur kaupa.

Í viðleitni sinni við að hafa hemil á sögulega hárri verðbólgu eru stýrivextir Seðlabanka Íslands nú 9,25%; hækkuðu þeir um 60% á milli framangreindra kvótamarkaða. Samanlagt hefur þetta leitt til verri rekstrarskilyrða mjólkurframleiðslunnar en þau hafa verið í mjög langan tíma. Í frétt Ríkisútvarpsins í september sl. var haft eftir framkvæmdastjóra Bændasamtakanna að þau sjái fram á fjöldagjaldþrot í greininni. Í viðtali við einn sveitunga minn í október sl. sagðist hann ekki óska neinum að fara út í landbúnað eins og staðan væri.

Þá ber að geta þess að í frétt á vef Auðhumlu svf. þann 8. júní sl. um hækkun á umframmjólkurverði úr 75 í 85 kr/ltr var sérstaklega áréttað að söluþróun væri jákvæð, beingreiðslur á innvegna mjólk, óháð greiðslumarki, væru 20 kr/ ltr og að þeir sem hefðu framleitt 16% umfram greiðslumark árið áður hefðu fengið allt það magn greitt fullu verði. Þetta voru í grófum dráttum forsendurnar í greininni þegar opnað var fyrir tilboð á kvótamarkaði haustið 2023.

Arðbær fjárfesting?

Á heilbrigðum markaði myndu svo dramatískar sveiflur í framboði og eftirspurn, lánskjörum og rekstrarskilyrðum eins og að framan er lýst, leiða af sér mikla verðlækkun, eða að engin viðskipti yrðu þar sem bilið á milli kaupenda og seljenda væri of mikið. Sú varð hins vegar ekki raunin á síðasta tilboðsmarkaði með greiðslumark.
Það skal viðurkennt að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er, að 300 kr/ ltr jafnvægisverð kom mér á óvart. Ef slíkt kaupverð er fjármagnað með óverðtryggðu skuldabréfi til 10 ára í 1. kjörvaxtaflokki, þar sem vextir eru um 13%, þá eru gjöldin (vextir og afborganir) á fyrsta ári tæplega 70 kr/ltr. Það er talsvert umfram þær tekjur, um 56 kr. að hámarki, sem fjárfesting í greiðslumarki gefur af sér. Á fyrsta ári þarf því að borga með fjárfestingunni. Ég hefði haldið að nóg væri af slíku um þessar mundir hjá mjólkurframleiðendum.

„300 kall er sanngjarnt verð“

Afskipti afurðastöðva og blandaðra samvinnufélaga af viðskiptum með greiðslumark eru ekki ný af nálinni. Þau hafa viðgengist í rúma þrjá áratugi og er Kaupfélag Skagfirðinga að mínu viti eitt það reyndasta í faginu. Þar sem nær öll kauptilboðin komu af Norðvesturlandi sneri ég mér til bænda á svæðinu og stjórnarmanna í KS til að kynna mér hverju sætti; með hvaða hætti aðkoma Kaupfélags Skagfirðinga væri að þessum viðskiptum.

Í stuttu máli voru þau þannig að þeirra sögn, að félagið hvatti bændur sem vantar greiðslumark til að senda inn kauptilboð upp á 350 kr/ltr, KS myndi lána fyrir viðskiptunum og væru lánin vaxtalaus, óverðtryggð og afborgunarlaus í 4 ár.

Nú er „lán“ ekki að öllu leyti rétta hugtakið yfir þá fyrirgreiðslu sem hér er lýst, þar sem skuldabréf án vaxta og verðtryggingar, í 7,7% verðbólgu, væri ekki bara lán heldur gjöf að verulegu leyti; 10 milljón króna höfuðstóll rýrnar um 770.000 kr. á fyrsta ári. Vonandi næst árangur í baráttunni við verðbólguna en eins og útlitið er núna er ekki ólíklegt að á þessum fjórum árum sem ekki þarf að greiða af slíkum „lánum“ rýrni þau um 15-20% og enn meira á lánstímanum í heild. Það væri góður „díll“ fyrir lántakandann en allmikið síðri fyrir lánveitandann.

Raunar hygg ég að eftirlitsskyldum fyrirtækjum á fjármálamarkaði sé bannað með lögum að veita svona fyrirgreiðslu, enda er hún fráleit með öllu. Þegar ég hef gengið á stjórnarmenn í KS og innt þá svara um þessa niðurstöðu, fást svör á borð við þau að bændur í öðrum sóknum eigi nú ekki að vera öfundsjúkir og að 300 kr. á lítra sé „sanngjarnt verð“.

Þegar rýnt er í ársreikninga skagfirskra góðbúa fyrir árið 2022, má sjá undir liðnum langtímaskuldir skuldabréf frá KS sem eru tilgreind óverðtryggð og vaxtalaus. Að upphæð eru þau ámóta og kaup viðkomandi búa á greiðslumarki í mjólk það ár.

Að mínu viti er það því hafið yfir vafa að þarna er fyrirgreiðsla Kaupfélags Skagfirðinga sem hefur veruleg áhrif á verðmyndun og umfang viðskipta með greiðslumark í mjólk á tilboðsmarkaði. Að það þurfi vaxtalaus og óverðtryggð „lán“ til að viðhalda verðinu er bein viðurkenning á því að þetta verð, 300 kr/ltr er tómt rugl.

Sundraðir föllum vér

Ekki hefur verið úr því skorið svo ég viti til hvort greiðslumark í mjólk sé fjármálagerningur. Líkindin eru þó talsverð, að öðrum hluta til mætti líta á það skuldabréf sem gefið er út af íslenska ríkinu (verðtryggðar beingreiðslur á greiðslumark mjólkur) og að hinum hluta mætti það skoðast sem afleiða, byggð upp á fjárhagslegum viðmiðum sem gera má upp með reiðufé (hærra verð fyrir mjólk sem markaðsfærð er á innanlandsmarkaði).

Greiðslumark hefur markaðsverð og með það er höndlað á skipulegum tilboðsmarkaði, sem haldinn er af matvælaráðuneyti Stjórnarráðs Íslands 1. apríl, 1. september og 1. nóvember ár hvert. Það er áþekkt fyrirkomulag og tíðkast í almennum viðskiptum með hlutabréf og skuldabréf í kauphöll.

Almennt er markaðsmisnotkun óheimil en í henni felst m.a. að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga misvísandi eða ranglega til kynna, eða tryggja óeðlilegt verð. Að mínu áliti ættu slíkar reglur að gilda um viðskipti með greiðslumark, meðan þau verða stunduð, til að tryggja jafnræði aðila á markaði.

Í öllu falli er ljóst, að með því að afhenda fáeinum útvöldum bændum á tilteknu landsvæði gefins fjármuni eða niðurgreitt lánsfé til að kaupa greiðslumark í mjólk, er verið að búa til yfirgengilegan og óþolandi aðstöðumun innan greinarinnar, sem stuðlar að úlfúð og sundrungu. Greinin þarf ekki á því að halda.

Minnt er á að allir mjólkurframleiðendur búa við greiðslumarkskerfið, ekki bara sumir og rekstur mjólkuriðnaðarins, fjöreggs og lífæðar mjólkurframleiðenda, er sameiginlegt verkefni, jafnt félagsmanna í Auðhumlu svf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf.

Hvað er til ráða?

Miðað við gildandi markaðsverð, 300 kr/ltr, er verðmæti greiðslumarksins á meðalbúi um 100 milljónir kr. Að mínu áliti stendur afkoma og launagreiðslugeta rekstrarins alls ekki undir því verði.

Í takmörkuðum umræðum um nýjan verðlagsgrundvöll kúabús hafa ekki komið fram neinar hugmyndir um meðferð greiðslumarksins í efnahag kúabúa svo ég viti.

Þetta háa verð, og sú staðreynd að óheimilt hefur verið að gjaldfæra þennan risastóra útgjaldalið í tæplega einn og hálfan áratug, hefur án vafa mikil áhrif á kynslóðaskipti í mjólkurframleiðslu. Meðan rekstrarvirði og upplausnarvirði kúabúa eru nánast hvort í sínu sólkerfinu er greininni mikill vandi á höndum. Enda sést þess staður í afkomunni. Sú ákvörðun í endurskoðun nautgripasamningsins 2019, þar sem skilaboð komu að ofan (að norðan?) á síðustu stundu fyrir undirritun, um að hámarksverð á greiðslumarki skyldi vera þrefalt lágmarksverð mjólkur eins og verðlagsnefnd búvara ákveður það á hverjum tíma, en ekki tvöfalt eins og aðalfundur LK 2019 samþykkti samhljóða, er í mínum huga ein sú fáránlegasta í landbúnaðarsögunni.

Þessi ákvörðun er hluti af rekstrarvandræðum dagsins í dag, enda eru fjárfestingar í greiðslumarki umtalsverður hluti af heildarfjárfestingum mjólkurframleiðenda síðustu ár. Þegar litið er yfir efnahagsreikninga félaga í mjólkurframleiðslu er hlutfall greiðslumarks af fastafjármunum víða sorglega hátt.

Ef greinin á að geta endurnýjað sig, greitt skikkanleg laun og mætt áskorunum framtíðar á síkvikum markaði, þarf að stokka þetta fyrirkomulag upp í heild sinni. Tillögur um það hafa verið lagðar fram, t.d. í 5. tbl. Bændablaðsins 2019, og þær standa fyllilega fyrir sínu enn í dag.

Viðskipti með stuðningsgreiðslur hætti

Í áður tilvitnuðu viðtali við sveitunga minn í október sl. lét hann þau orð falla að „það er eins og öllum sé drullusama um íslenskan landbúnað“.

Síðan þá hefur fjárveitingavaldið brugðist við með myndarlegu framlagi upp á 2,1 milljarð kr. til nautgriparæktarinnar. En hversu lengi dugir það? Áburðurinn er að lækka, vonandi lækkar fóðrið líka, sem og vextirnir. Bilið frá því sem nú er og þess sem samtök bænda telja nauðsynlegt til að greinin geti staðið við skuldbindingar sínar er hins vegar miklu stærra.

Fjárfestingaþörf mjólkurframleiðslunnar er mjög mikil. Fyrir réttum fimm árum var eftirfarandi látið falla í þessu blaði:

„Er líklegt að stjórnvöld verði tilbúin að styðja greinina áfram ef stór hluti stuðningsins gengur kaupum og sölum, verði jafnvel að miklu leyti orðinn fastur í veðandlagi einstakra banka og kaupfélaga, eða tengdra aðila?“

Við þessi orð mín og félaga minna stend ég jafnfast við nú og þá. Bændur og ríkisvaldið þurfa í sameiningu að varða leiðina út úr núverandi öngstræti í átt að farsælla fyrirkomulagi mjólkurframleiðslunnar. Nýr landbúnaðarsáttmáli sem taka á við í upphafi árs 2027 er einstakt tækifæri til þess og honum vil ég leggja lið.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...