Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Lesendarýni 13. júní 2022

Aðgerða er þörf til að treysta fæðuöryggi

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Síðustu mánuði hefur verið sívaxandi umræða um áhrif stríðsreksturs Rússa í Úkraínu á fæðuöryggi í heiminum. Staðan er grafalvarleg, tugmilljónir tonna af kornvöru frá síðasta uppskeruári sitja í korngeymslum í Úkraínu.

Ógjörningur er að flytja þær sjóleiðina þar sem Rússar hafa tekið þá ákvörðun að ætla að beita hungrinu sem vopni gegn heiminum öllum. Þó að aðgerðir séu í gangi á landamærum Úkraínu sem snúa að Evrópu til að greiða fyrir flutningum á landi er ljóst að viðvarandi rask verður næstu misseri á matvælamörkuðum.

Margir bera ábyrgð á virðiskeðju matar

Sú nöturlega staðreynd blasir við að samkvæmt mati Alþjóðabankans þýðir hvert prósentustig hækkunar matvæla það að tíu milljónir manna víðs vegar um heim sogast niður í sárafátækt þar sem þau eiga vart til hnífs og skeiðar. Þannig hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir að þótt á þessu ári við munum aðallega glíma við afleiðingar hás matvælaverðs kunni svo að fara að á næsta ári verði áskorunin að það verði til nógur matur. Það þýðir að allir bera ábyrgð sem geta framleitt mat.

Það bera margir ábyrgð í þeirri virðiskeðju sem er frá haga til maga.

Stjórnvöld, afurðastöðvar, bændur og verslun taka öll ákvarðanir sem skipta máli, um það rekstrarumhverfi sem er í landbúnaði. Hér á landi höfum við að langmestu leyti verið sjálfum okkur nóg um kjöt.

Vegna viðskiptasamninga sem gerðir voru við Evrópusambandið hefur þó verið vaxandi innflutningur á tilteknum tegundum í takti við aukna eftirspurn hérlendis, bæði vegna fólksfjölgunar og þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað hafa komið á síðustu árum, ef frá eru talin Covid-árin. En nú eru blikur á lofti. Vegna þeirra miklu aðfangaverðshækkana sem orðið hafa vegna stríðsins í Úkraínu sjáum við þess merki að framleiðsla komi til með að dragast saman. Þetta kemur fram í samtölum við fjölda bænda, við sjáum tölur um fjölda nautgripa og heyrum áform um fækkun í sauðfjárrækt.

Enda er ekki hægt að ætlast til þess að bændur framleiði vörur með tapi án þess að það sé ljós við enda ganganna.

Unnið er að aðgerðum

Af þeim sökum var tilkynnt um það á föstudaginn var, að vinna í svokölluðum spretthópi hæfist í þessari viku. Hópnum er gert að vinna hratt og skila tillögum þann 16. júní næstkomandi. Hlutverk hópsins er að fara yfir þau gögn sem ráðuneyti mitt hefur safnað undanfarna mánuði og fara yfir þá valkosti sem eru til staðar til að bregðast við stöðunni. Þær aðgerðir koma ekki til framkvæmda tafarlaust, enda þurfa þær að fara sína leið í gegnum stjórnsýsluna og fyrir þeim þurfa að vera heimildir í fjárlögum.

Þó að það séu tímabundnar áskoranir sem leiða af því fordæmalausa ástandi að stríð geisar í Evrópu þá er framtíð landbúnaðar á Íslandi björt. Hér er landnæðið, orkan, vatnið, mannauðurinn og þekkingin til þess að framleiða stærri hluta þeirra matvæla sem við þörfnumst. Ástandið þessi misserin kennir okkur það að við getum ekki reitt okkur á hnökralausa afhendingu þess sem við þurfum af heimsmarkaði. Við þurfum og eigum að auka fæðuöryggi til lengri tíma með því að efla innlenda akuryrkju samhliða því að við grípum til tímabundinna aðgerða til að viðhalda framleiðsluvilja í kjötframleiðslu. Ef við sameinumst um það að leysa mál en togast ekki á um stórt og smátt þá munum við geta haldið áfram veginn í þágu fæðuöryggis.

En ef við gerum ekkert þá er á því hætta að okkur reki af leið fæðuöryggis og árangurs inn á leið stöðnunar sem endar með afturför. Landbúnaðurinn er of mikilvægur til þess að vera í vörn. Hann getur verið í sókn og á að vera það!

Skylt efni: fæðuöryggi

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...