Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kýr á Gleadthorpe búinu.
Kýr á Gleadthorpe búinu.
Lesendarýni 7. febrúar 2023

Bændaheimsóknir í Englandi nóvember 2022 – seinni hluti

Höfundur: Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðanautur hjá RML.

Í nóvember síðastliðnum sóttu sex ráðunautar RML sauðfjárræktarráðstefnu í Bretlandi. Ráðstefnan nefnist Sheep breeders round table, eða hringborð sauðfjárræktenda, og koma þar saman ráðunautar, dýralæknar, vísindafólk og sauðfjárbændur og fara yfir þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni.

Í tengslum við þá ráðstefnu, sem sagt verður frá síðar, gafst tækifæri til að heimsækja bændur um miðbik Bretlands, nálægt Skírisskógi, sem
er Íslendingum kunnur sem heimkynni Hróa hattar og einnig höfuðstöðvar British wool í Bradford. Í síðasta tölublaði var sagt frá þremur heimsóknanna, til British wool og tveggja sauðfjárbænda, en hér verður sagt frá heimsóknum til bænda með nautgripi.

Kúabúið Gleadthorpe

Við heimsóttum stórt kúabú með um 750 Holstein kýr í nágrenni Mansfield, um 100 km sunnan við Bradford. Búið er rekið af fjölskyldu, daglegur rekstur er fyrst og fremst hjá bræðrunum David og Will og systur þeirra Mörthu, en auk þeirra koma faðir þeirra og föðurbróðir að fjármögnun, uppbyggingu og daglegum verkum. Auk þess eru á búinu tveir til fjórir starfsmenn sem mest eru í mjöltum og þrifum. Búið og öll aðstaða hefur verið byggð upp ný frá árinu 2008 þegar eldri bræðurnir keyptu jörðina en þar var áður tilraunabú fyrir breskan landbúnað. Kýrnar á búinu eru fóðraðar á heilfóðri í fjórum um 190 kúa hópum þar sem skipt er í hópa eftir stöðu á mjaltaskeiði og nyt. Hver hópur er fóðraður á viðeigandi heilfóðurblöndu og fá kýrnar kjarnfóður til viðbótar í mjöltum. Mjaltir fara fram í mjaltahringekju með 36 plássum og er mjólkað þrisvar á dag. Tveir starfsmenn sjá um mjaltirnar í hvert sinn en hringekjan býður þó upp á þann möguleika að aðeins einn sé við mjaltir. Búið er með beinan samning um mjólkursölu við stóra verslunarkeðju, Sainsbury‘s, og samkvæmt þeim samningi er borgað fyrir magn en ekki sérstaklega fyrir efnainnihald öfugt við það sem t.d. Arla gerir, en það er stærsta afurðastöð fyrir mjólk í Bretlandi.

Mjaltir í hringekju fyrir 36 kýr.

Á búinu er mikil áhersla lögð á einsleitni fóðurs, samloðun og fóðurgæði til hámarksafurða. Heilfóðrið var að mestu samsett úr heimaræktuðu fóðri, maísheilsæði, súrheyi og lítils háttar refasmára fyrir ódýrt viðbótarprótein. Kúnum er ekki beitt vegna jarðvegsgerðar og veðurfars á svæðinu en búið er staðsett á svæði þar sem jarðvegur er sandkenndur og lítil rigning. Helstu áskoranir á búinu eru tengdar frjósemi og heilbrigði, s.s. júgurbólgu og helti, og hafa bændur leitað leiða til að takast á við þessar áskoranir. Allar kýr eru með tvenns konar hreyfiskynjara, annan á ökkla og hinn í eyra, til að meta aukna hreyfingu sem bendir til beiðsla eða minnkaða hreyfingu sem bendir til veikinda eða helti. Hreyfiskynjarar í eyra meta auk þess jórturtíma með því að skynja mismunandi mynstur í hreyfingum á eyrunum. Auk þessa eru kýrnar með svokallaðan skafmiða á mölum sem byrja gráir en ef aðrar kýr riðlast á kúnni nuddast gráa húðin ofan af og appelsínugult merki merkir þær kýr sem standa undir. Þessar lausnir þekkja bændur hér á landi. Einnig höfðu þau gripið til margra lausna til að berjast við júgurbólgu, m.a. að halda kúm sér í litlum stíum í lok geldstöðu í stað þess að hafa þær í hópi svo og nákvæmar sótthreinsiaðferðir og við upphaf og lok mjaltaskeiðs.

Ungkálfaaðstaða, Martha skammtar hverjum kálfi mjólk.

Þessar aðferðir hafa skilað árangri en eitthvað er þó enn um fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf á geldstöðu fyrir þær kýr sem eru í vandamálum á mjaltaskeiði. Húsakostur er nokkuð ólíkur því sem við eigum að venjast hér heima þar sem um var að ræða steypt plön undir einföldu þaki en bara smákálfarnir fengu fjóra veggi í kringum sig. Skýli sem þetta var fyrir hvern fóðrunarhóp, legubásaraðir í miðju skýli en fóður gefið úr heilfóðurblandara á fóðurganga utan með hverjum hóp. Mykja er hreinsuð undan kúnum á meðan þær eru í mjöltum. Þurrefnið úr mykjunni er skilið frá í nokkurs konar skilvindu og er það að stærstum hluta selt til gasgerðar en hinu er dælt í lón og notað til áburðar.

Ungkálfar á Gleadthorpe voru yfirleitt 2-3 saman í stíum úr plastplötum sem er smellt saman á hornunum. Hálmur er undir þeim og einnig ofan á grindum yfir stíunum hjá minnstu kálfunum. Í hverri stíu er mjólkurfata sem skammtað er í fjórum sinnum á dag og að auki vatn og frjálst aðgengi að kjarnfóðri. Ungkálfarnir voru gæfir, glansandi og fallegir og mjög þrifalegt í kringum þá. Sérstaklega er gætt að sóttvörnum inn í ungkálfafjósið, t.d. með því að sótthreinsa skó í hvert sinn sem farið er þangað inn.

Kýrnar á Gleadthorpe eru nytháar og unnið að fagmennsku að því með fóðrun, sem og að því að bæta frjósemi og þá heilbrigðisþætti sem hafa verið áskorun. Að tryggja velferð kúa á búi af þessari stærð í þessu framleiðslukerfi er svo önnur áskorun.

Holdanautaeldi

Síðast en alls ekki síst heimsóttum við Tim Phipps sem býr með holdanaut af Stabiliser kyni. Stabiliser kynið er samsett kyn, upphaflega frá Bandaríkjunum, sem búið var til með því að rækta saman bestu gripina af nokkrum mismunandi holdakynjum. Bestu gripir hvers kyns eru valdir út frá kynbótamati og svo er kynjum blandað þar til kemur fram Stabiliser kynið, sjálfstætt samsett kyn þar sem bestu eiginleikar upphaflegu kynjanna eru orðnir stöðugir í framræktun. Helstu eiginleikar kynsins eru góð skapgerð, skjótur þroski, hraður vöxtur, mikil kjötgæði, góð fóðurnýting og góðir mæðraeiginleikar svo eitthvað sé nefnt. Góðri fóðurnýtingu hefur meðal annars verið náð fram með að rækta frekar smáar kýr án þess að það komi niður á vaxtarhraða afkvæmanna. Tim hafði minnkað kýrnar úr 700 kg fullorðinsþunga niður í 600 kg og haldið flokkun, fallþunga og aldri nautkálfa við fullan þroska óbreyttum.

Stabiliser beef kýr í inniaðstöðunni.

Hjörðin telur um 200 holdakýr. Búrekstrarkerfið er blanda af eldi á heilfóðri undir þaki og beit á fjölærum túnum, túnin eru um 120 ha. Gripirnir eru úti á beit eins og landstærð og veðurfar leyfir en þurrkatímar og rigningartímar henta ekki til útibeitar á þessu svæði vegna jarðvegsgerðarinnar. Eldi kálfanna fer fram inni eða í óyfirbyggðum hálmstíum eftir að þeir eru teknir undan. Gefið er í fóðurtrog með útvegg í lokaeldinu. Þegar búið er að gefa er hálmi blásið í stíurnar aftan við gripina af miðgangi. Hann er líka notaður þegar þarf að vinna með gripina svo og flokkunargangur með meðhöndlunarbás sem settur var upp við byggingu aðalhússins. Fyrsti hluti eldisins fer fram í eldri byggingu og þar er fóðrað á hefðbundinn miðgang og hálmi blásið inn yfir gripina. Byggingar eru óeinangraðar og útveggir stundum ekki til staðar svo byggingarkostnaður er ólíkur því sem hér gerist. Gefið er úr heilfóðurblandara og lögð áhersla á einsleitt kraftmikið fóður. Tim elur sína nautkálfa í sláturstærð á um 12 mánuðum með 350 kg fallþunga í E-U-R flokka. Kjötið er selt beinum samningi í Morrison-verslunarkeðjuna. Í samstarfinu við Morrison felast hvatar til kolefnishlutleysis og náttúruverndar. Allar kvígur eru aldar á búinu til 14 mánaða aldurs og þá heldur hann þeim bestu eftir en selur hinar til framræktunar. Það var mjög áberandi hvað gripirnir á búinu voru gæfir og greinilega gagnkvæm virðing í umgengni gripa og bændanna. Gripir á útibeit svöruðu kalli bóndans og gripir á öllum eldisstigum nálguðust okkur óhræddir.

Ungir holdakálfar á eldistímanum.

Bændur taka þátt í mörgum umhverfisverkefnum sem styrkt eru með grænum greiðslum s.s. viðhald gamals þjóðgarðs sem að hluta er á jörðinni, skógrækt, vernd og endurheimt villiblómaengja og fuglaverndarverkefnum. Til að ná árangri þarf að taka áhættur og prófa nýja hluti, sagði Tim sem hefur keypt þessa jörð í samstarfi við föður sinn, flutt sig til af annarri bújörð og skipt um búfjárkyn og er nú að hella sér í umhverfisvænan landbúnað. Er það ekki bara tilvalið?

Tim Phipps fer yfir búreksturinn á býli sínu. Ungar kvígur með kálfa í bakgrunni.

Ekki hefði verið hægt að ná jafn góðum, lærdómsríkum og skemmtilegum heimsóknum án þess að hafa góða leiðsögn og þar nutum við kynna Eyjólfs Ingva við Bob Blanden, landbúnaðarverktaka og stjórnarmann í British wool. Hann hefur starfað í þjónustu við landbúnaðinn alla starfsævina, lengst í fósturtalningum en líka rúningi og ómmælingum og hans staðkunnátta, tengslanet og innsýn hjálpaði okkur mjög, auk þess sem hann var skemmtilegur ferðafélagi og vel að sér um málefni landbúnaðarins.

Ef bændur hafa áhuga á að fræðast frekar um þær heimsóknir sem hér hefur verið fjallað um er velkomið að vera í sambandi við eitthvert okkar og finna tíma til þess.

Aðrir ferðafélagar voru Ívar Ragnarsson, Kristján Óttar Eymundsson, María Svanþrúður Jónsdóttir, Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Sigríður Ólafsdóttir.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...