Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa heild. Bændur hafa nýtt landið, gætt landsins, þekkt landið og síðast en ekki síst átt landið að töluverðu leyti.
Nýtingin hefur valdið vanda sem er jarðvegs- og gróðureyðing og samkvæmt hefðinni ekki óeðlilegt að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu snúi að beitarmálum og ræktun. En nú eru aðrir þættir að verða miklu stærri í landnýtingu og eftirspurn eftir landi fyrir margt annað en hefðbundinn búskap. En þeim sem setja lög og reglur er oft tamara að horfa í baksýnisspegilinn en fram á veginn.
Bændur eða baðlón
Nú þarf meira til en að einblína á bændur og beit. Bylting hefur orðið í landnýtingu á síðustu árum og sannarlega er hún ekki öll sjálfbær. Á mörgum stöðum er ferðamannaofbeitin slík að landeigendur hafa ekki undan að rúlla út pallaefninu og setja upp baðlón, gjaldmæla og bílastæði. Fáum hefur þó dottið í hug að setja skorður við ósjálfbærri landnotkun ferðamanna. Þeir koma með hagvöxt og skal tekið fagnandi og hvatt til frekari fjölgunar, jafnvel þótt innviði skorti á viðkvæmum svæðum sem þola áganginn illa.
Vindorkuspjöll
Á fimmta tug vindorkuvera, með vindmyllumöstrum upp í 200 metra hæð, eru á alls konar teikniborðum og ef bara brot af þeim ósköpum yrði að veruleika yrðu skemmdir miklar. Milli mastranna, sem hvíla á stórum steypuklumpum, liggja vegir sem þola þungaflutninga og mjög mikið land fer forgörðum. Mikið af því gróið heiðaland. Er það sjálfbær landnýting? Bændur og annað heimafólk vara við en ekki er að sjá að það hafi sérstök áhrif á glaðbeitta fjárfesta, né sveitarstjórnarfulltrúa sem sjá tekjur og vöxt í hillingum.
Náttúrutap í Noregi
Í Noregi var á dögunum gerð sláandi úttekt um land sem tapast á degi hverjum vegna framkvæmda. Niðurstaðan var ógnvænleg. Á hverri klukkustund tapast náttúra, sem nemur 60 áttatíu fermetra íbúðum. Hraðast er tapið vegna sumarhúsabygginga fólks sem vill njóta náttúrunnar með því að nýta hana í eigin þágu. Frístundahúsin fara stækkandi með bílastæðum og jafnvel þyrlupöllum. Verið er að skipuleggja ný slík svæði sem eru fjórum sinnum stærri en Mjösa, stærsta vatn Noregs. Reynsla sýnir svo að nýju sumarhúsin standa lengst af tóm og eru nýtt í örfáa daga á ári. Vegagerð hefur tekið stóran toll af norsku landi á síðustu árum, meðan almenningssamgöngur og lestir leggjast af. Norðmenn hafa áhyggjur, en ekki yfirsýn.
Náttúrutap á Íslandi
Við þekkjum þetta hér líka. Og svo er það skógræktin, kolefnisjöfnunarræktunin, landeldið, gagnageymslurnar, jöfnunarvirkjanir, baðlónin, vegagerðin, hótelin, jarðvegsnámurnar, frístundabúskapur og heilu byggðirnar fyrir fólk sem í raun býr annars staðar. Og ótalmargt fleira. Sjálfbær landnýting árið 2024 þarf að fjalla um fjölmarga aðra þætti en hefðbundinn landbúnað.
Í umsögn um drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu gagnrýndi Landvernd ósamræmi í kröfum vegna mismunandi nýtingar. Kröfur vegna beitarnýtingar eru ítarlegar á meðan kröfur til annarrar nýtingar eru lítið útfærðar, sérstaklega hvað varðar framkvæmdir. Leiðbeiningar og viðmið um umferð fólks og ökutækja og um hönnun og uppbyggingu innviða eru oft vinsamleg tilmæli frekar en ákveðnar kröfur.
Framkvæmdir og sjálfbær landnýting
Í byrjun á drögum að reglugerð segir að markmiðið sé að tryggja sjálfbæra landnýtingu í samræmi við markmið laga um landgræðslu. Í lögum um landgræðslu 2018 nr. 155 kemur m.a. fram í 2. gr. um markmið um vernd og sjálfbæra nýtingu lands c. Komast hjá spjöllum á gróðri og jarðvegi og d. Hver sá sem veldur spjöllum á gróðri og jarðvegi bæti fyrir það tjón. Í 13. gr. í 4. kafla um sjálfbæra landnýtingu stendur: „Framkvæmdir sem hafa áhrif á gróður og jarðveg. Við hvers kyns leyfisskyldar framkvæmdir sem geta haft áhrif á gróður og jarðveg skal sýna sérstaka aðgát til að lágmarka rask og leitast við að endurheimta vistkerfi sem verða fyrir raski.“ Það segir sig sjálft að reglugerð sem á að tryggja sjálfbæra landnýtingu í samræmi við landgræðslulögin verður að innihalda viðmið um alla landnýtingu og þar með talið framkvæmdir. Þótt vísað sé í umhverfismat skipulagsáætlana og/eða framkvæmda til að fjalla um áhrif framkvæmda á sjálfbæra landnýtingu skortir nánari útfærslu um það.
Stórframkvæmdir og nýtt landnám
Um beit búfjár er horft til þess að aðlaga núverandi nýtingu til að bæta hnignun á ástandi lands vegna ofnýtingar áður fyrr. Um aðra landnýtingu sem nú blasir við gildir að til að fyrirbyggja þarf að framkvæmdir valdi hnignun á landi sem er í góðu lagi í dag. Það dugir ekki að horfa í baksýnisspegilinn og bæta það sem aflaga fór í fortíðinni. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og fyrirbyggja að náttúra glatist vegna rányrkju af stórframkvæmdum sem fjárfestar hafa komið á Íslandskortið hvarvetna sem þeir sjá ónotað land og náttúru. Áformunum má líkja við nýtt landnám. Vissulega komu víkingar frá Noregi á söguöld og námu hér land, en þurfum við virkilega aðra umferð af norskum víkingum árið 2024?