Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lesendarýni 30. júlí 2015
Höfundur: Anna Guðrún Þórhallsdóttir
Við höfum öll alist upp við þá ríkjandi hugsun að landið okkar sé illa farið, skógunum hafi verið eytt og landgæði tapast. Þar hefur beitinni – sauðfjárbeitinni – fyrst og fremst verið kennt um og nauðsynlegt verið talið að friða sem mest fyrir sauðfjárbeit og hefja skógrækt á sem flestum stöðum til að bæta fyrir skógarmissinn.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir.
Þannig hefur friðun fyrir beit samfara ræktun skóga verið talin af mörgum eitt aðal náttúruverndarverkefnið hérlendis í áratugi. Þó að ofbeit geti vissulega skemmt land eins og önnur ofnýting er hins vegar vert að rýna aðeins nánar í þessa hugmyndafræði. Í ljósi aukinnar þekkingar á vistfræði og náttúrufarssögu þá er þessi hugmyndafræði kannski ekki eins borðleggjandi eins og við höfum talið.
Opinn úthagi að hverfa
Í nágrannalöndum okkar í Norður-Evrópu er skógur víðast ríkjandi í dag, meðan Ísland hefur innan við 4% skógarþekju. Sé hins vegar litið til sögunnar var stærð og útbreiðsla skóga þar mun minni en nú er, langt fram á 20. öldina.
Opinn úthagi, þar sem húsdýrum var haldið á beit var þá algeng sjón í landslaginu víðast hvar, ekki ósvipað og hérlendis. Þetta sést mjög greinilega á gömlum málverkum frá t.d. Norðurlöndum, Bretlandi og Þýskalandi og víða eru til gömul kort sem sýna það sama. Í doktorsverkefni sínu frá sænska Landbúnaðarháskólanum frá 2006 rýndi Anna Dahlström í kort frá Mið- og Suður-Svíþjóð frá því snemma á 17. öld til dagsins í dag og skráði breytingar á útbreiðslu skóga og úthaga.
Niðurstöður hennar sýndu að í dag er einungis um 1–2% eftir af þeim opna úthaga sem áður var á þessum svæðum og hefur skógurinn tekið yfir það land sem áður var notað til beitar og sláttar. Fremur litlar breytingar áttu sér stað fram til 1850, en á seinni hluta 19. aldar urðu stórtækar breytingar á landnýtingunni samfara breyttum búskaparháttum. Sú mynd sem verkefni Önnu Dahlström dregur upp er mjög dæmigerð fyrir öll Norðurlönd og norðanverða Evrópu. Frá seinni hluta 19. aldar og sérstaklega á fyrri hluta 20. aldar jókst skógrækt og akuryrkja til muna. Í stað þess að slá eða halda skepnum til beitar á úthaga var í auknum mæli skepnum beitt á ræktað land og kjarnfóðurgjöf aukin. Á sumum stöðum var úthaga breytt í tún en víðast hvar hefur skógurinn tekið yfir.
Úthagi til beitar hefur nær alveg horfið á Norðurlöndunum
Eftir seinna stríð jókst síðan skógrækt til mikilla muna og í dag er stærsti hluti skógarins í þessum löndum ræktaður og höggvinn reglulega til nytja. Gamall, náttúrulegur skógur og úthagi til beitar hefur þannig nær alveg horfið á Norðurlöndunum. Afleiðingin er að fjölmargar plöntu- og dýrategundir sem finnast einungis í þessum vistgerðum hafa misst heimkynni sín og eru því komin í útrýmingarhættu. – Sumar þessara tegunda eru reyndar alveg horfnar. Þetta gildir ekki einungis um háplöntur, heldur einnig um fjölmargar lágplöntur, hryggleysingja, froskdýr, skriðdýr og fugla.
Fjöldi dýra í útrýmingarhættu vegna aukinnar skógamyndunar
Í Svíþjóð tengist tæpur helmingur allra tegunda í útrýmingarhættu gömlum skógi, þar með töldum beittum skógi og hinn helmingurinn hinum horfna úthaga (http://www.artdatabanken.se). Nýr listi yfir tegundir í útrýmingarhættu kom út í vor og breytingin á þeim lista frá 2010 er sú að nær allar tegundir sem hafa bæst við eru úthagategundir. Í Noregi hefur úthagabeit haldist víðar, þar finnast t.d. enn sel í notkun á nokkrum svæðum. Þrátt fyrir það er um fjórðungur tegunda í útrýmingarhættu í Noregi bundinn úthaga; bæði plöntur og dýr (http://www.artsportalen.artsdatabanken.no). Það sem vekur athygli er að margar af þeim tegundum sem taldar er upp í útrýmingarhættu í Noregi eru tegundir sem eru algengar á Íslandi; t.d. kornsúra, mýrarsóley, beitilyng, engjavöndur, maríuvöndur, lokasjóður og smjörgras. Annars staðar í Norður-Evrópu er staðan mjög áþekk.
Grænar eyðimerkur
Er pistlahöfundur gerði sér ferð um drjúgan hluta Austur-Þýskalands fyrr í sumar var hvergi úthaga að sjá. Beitardýr, utan hrossa í þröngum hólfum, voru sjaldgæf sjón. Í landslaginu skiptust á einsleitir akrar og ræktaður skógur með einni eða mjög fáum trjátegundum. Á alþjóðlegum mælikvarða líffræðilegs fjölbreytileika eru slík svæði nefnd grænar eyðimerkur (sjá mynd 1).
Oft þrautinni þyngri að halda skóginum í skefjum
Í N-Evrópu og á Norðurlöndum hafa menn vaknað upp við vondan draum og hafið verndarstarf þar sem enn er úthagi eftir og reynt að viðhalda honum með skipulögðum slætti og/eða beit húsdýra. Oft er slík vinna á höndum náttúruverndarsamtaka, auk opinberra aðila, sem hafa það að markmiði að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og vernda tegundir í útrýmingarhættu. Hins vegar reynist það oft þrautinni þyngri að viðhalda úthaganum þar sem það er bæði dýrt og oft erfitt að nálgast beitardýr. Verndarsvæðin verða því oft mjög lítil og afmörkuð og mynda eyjar í annars skógi vöxnu landinu. Í vor var pistlahöfundur á ferð í S-Svíþjóð á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar að skoða slík verndarsvæði. Fimm svæði voru skoðuð, frá 0.1–10 ha að stærð, þar sem beit var notuð til að viðhalda opnu landslagi með tilheyrandi tegundasamsetningu. Íslensk hross voru notuð á einu svæðanna en nautgripir og sauðfé á öðrum (sjá mynd 2). Kostnaðurinn við slíka beit er mikill en fórnarkostnaður við að tapa fjölmörgum tegundum er metinn enn meiri.
Í dag er beit eitt aðalverkfærið í náttúruvernd í N-Evrópu og Norðurlöndunum til að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika og góðri heilsu vistkerfa; votlendis, þurrlendis og strandsvæða (sjá t.d. conservation grazing). Af fenginni reynslu hafa menn þar áttað sig á því að beit er nauðsynlegur þáttur í að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og heilsu vistkerfa. Þannig hafa breyttir framleiðsluhættir sem lagt hafa af úthagabeit leitt til fábreyttara lífríkis.
Fjölbreytni búsvæða mikilvæg
Á Íslandi telja enn margir að öll beit sé skemmd á landi og besta náttúruverndin sé að alfriða land fyrir beit. Íslensk vistkerfi fylgja sömu grundvallarreglum og önnur vistkerfi og því ættum við að læra af reynslu annarra þjóða hvaða afleiðingar það hefur að hætta að beita land. Mikilvægast í allri náttúruvernd og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni er fjölbreytni búsvæða. Landslag á Íslandi hefur sérstöðu, ekki einungis vegna einstæðrar jarðfræði heldur einnig vegna þess að við höfum enn það opna landslag sem aðrar þjóðir hafa tapað á síðustu 100 árum. Viggó Mortensen, leikari og ljósmyndari, var eitt sinn spurður af hverju hann kysi að taka myndir á Íslandi. „The history lies in the landscape“ var svarið sem hann gaf.
Sauðfjárbeitin viðheldur okkar sérstaka landslagi
Landslag á Íslandi vitnar um menningu og sögu, samspil manns og lands og í því eru mikil verðmæti fólgin. Sauðfjárbeitin er stór hluti af menningunni, sögunni og landslaginu og hún viðheldur líffræðilegum fjölbreytileika íslenskra vistkerfa. Ísland hefur þá sérstöðu í Evrópu að framleiða enn matvæli af úthagabeit. Það viðheldur okkar sérstaka landslagi, sem erlendir ferðamenn kunna að meta, og það framleiðir líka einstaka landbúnaðarvöru sem ekki á sinn líka í Evrópu. Við skulum læra að meta það sem við höfum og gæta þess að viðhalda því.
Anna Guðrún Þórhallsdóttir
Cand. Agric., M.Sc., PhD
Prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
3 myndir:
Lesendarýni 18. október 2024
Íslandsmót í rúningi
Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...
Lesendarýni 15. október 2024
Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...
Lesendarýni 9. október 2024
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...
Lesendarýni 4. október 2024
MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...
Lesendarýni 3. október 2024
Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...
Lesendarýni 2. október 2024
Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...
Lesendarýni 26. september 2024
Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...
Lesendarýni 23. september 2024
Þá og nú
Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...
29. október 2024
Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
29. október 2024
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
29. október 2024
Fjölmenningarhátíð í Aratungu
29. október 2024