Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kári Gautason.
Kári Gautason.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 14. október 2020

Ekki meira hringl með landbúnaðarstefnu

Höfundur: Kári Gautason

Um nokkra hríð hefur umræða um að móta beri stefnu í landbúnaði aukist hér á landi. Bændur greinir þó á í þessum efnum eins og öðrum. Við höfum til dæmis horft upp á kúvendingar meðal bænda um hvert skuli stefna með stjórn á framleiðslumagni mjólkur. Á örfáum árum fór stefnan úr því að leggja niður kvótakerfi í það að festa kerfið  í sessi.  Stærri hluti þeirra fjármuna sem hið opinbera setur í stuðning við mjólkurframleiðslu er nú fest við kvótann. 

Síðustu tíu ár hafa sex ráðherrar setið í landbúnaðarráðuneytinu. Allir hafa þeir haft góðan hug til landbúnaðar og ýmsum framfaramálum verið þokað áfram. Á þessum tíma hafa þó einnig verið gerðir misgóðir tollasamningar. Ásetningarhlutfall í sauðfjárbúskap hefur einnig aukist og bændur verið hvattir til að fjölga fé til útflutnings. Blaðinu var svo snúið við þegar sú tilraun sigldi í strand. Tilraun var gerð með búvörusamninga til lengri tíma en var svo breytt talsvert til að mæta nýjum  aðstæðum og viðhorfsbreytingu bænda. Af þessu súpa  bændur nú seyðið. Treglega gengur að ná upp afurðaverði á lambakjöti og lítil hreyfing er á greiðslumarki í mjólk sem þó er augljóslega þörf á  ef slíkt kerfi á að ganga upp til lengri tíma. Svona hringl, hvort sem það er vegna sviptinga meðal bænda eða stjórnmálamanna , er landbúnaðinum ekki til framdráttar. 

Stefnufestu er þörf

Nú á að móta landbúnaðarstefnu á næstu mánuðum.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað verkefnastjórn sem á að móta stefnuna með víðtæku samráði. Það er ágætt vegna þess að eigi slík stefna að standast tímans tönn og gera gagn þarf hún að þola gagnrýni frá  frá öllum köntum og að kjarninn sé skilinn frá hisminu. Forvinna hefur átt sér stað í formi „sviðsmyndagreininga“.  Þar held ég að mikilvægt sé að þeir sem stefnuna móta myndi sér sjálfstæða skoðun á forsendum þeirrar greiningar en taki ekki við sviðsmyndunum sem steintöflum af Sínaífjalli.  

Til að stefnan sé fest í sessi má líta til hvernig hefur gengið á öðrum vígstöðvum að móta sátt um meginmarkmið. Fyrir rúmu ári var samþykkt þingsályktun um heilbrigðisstefnu á Alþingi með engu mótatkvæði. Þeirri stefnu fylgir aðgerðaráætlun sem uppfærð er reglulega. Þannig er skýrt fyrir alla þá sem vinna innan kerfisins hvert stefnt er og  fjármunum  forgagnsraðað til að ná markmiðum.

Þessi nálgun er nokkuð sem ég tel að geti verið gagnlegt að horfa til. Talsvert gagn væri af því að landbúnaðarstefna væri lögð fyrir Alþingi til að dýpka umræðuna um landbúnaðarmál þar – en á því er ekki vanþörf. Ég hef trú á því að umræða á grundvelli staðreynda og þekkingar myndi skapa sátt um þá stefnu sem mótuð er og lyfta henni uppúr þeim skotgröfum sem við þekkjum mætavel. Það er komið gott af því að stefnumótun í landbúnaði sé eins og lauf í vindi og feykist fram og aftur í hvert skipti sem að nýr ráðherra kemur í ráðuneytið. Sé stefnan ekki staðfest í formi þingsályktunar er hætta á því að hún sé eins og sölnað haustlauf næst þegar lyklaskipti verða í ráðuneytinu.

Ný sýn byggð á þekkingu

Þó það skipti máli hvernig stefnan er gerð og hvað er gert við hana þá er það auðvitað innihaldið sem skiptir meginmáli. Þekkingarsköpun á sviði landbúnaðar hefur verið gríðarleg síðustu tíu ár. Árið 2010 hefði engum dottið til hugar að hina nýtilkomnu erfðamarkarækt væri hægt að nýta í hinum smáa íslenska kúastofni. Eða að raunhæft gæti verið að framleiða áburð í heimahúsum, flytja út wasabi og svona mætti lengi telja. Nú hefur verið sýnt fram á að erfðamarkarækt sé vel framkvæmanleg hér á landi. Hún er örugg og það er jafn ljóst eins og grasið grænkar á vorin að hún skilar árangri. Það eina sem þarf er að byrja og það fyrr en seinna. Vegna þess hraða sem hefur verið í tækniþróun er mikilvægt að fólkið sem mótar þessa vinnu sé ekki of fast í hugmyndum liðinnar aldar. Tuttugasta öldin var öld áburðar, útflutningsbóta, framleiðslustyrkja og olíu. Ný  öld hefur fært okkur ótal tækninýjungar og mikla þekkingu. Viðfangsefni nýrrar landbúnaðarstefnu ætti að vera hvernig við getum aftengt íslenskan landbúnað erlendum aðföngum eins og kostur er. Með því er hægt að  auka fæðuöryggi og og gera okkur klár í að takast á við stærsta verkefni okkar tíma, loftslagsbreytingar. Við höfum verið kyrfilega minnt á að það er ekki hræðsluáróður að landið geti lokast. Samhliða þessu þarf að breikka grundvöll búsetu í sveitum þar sem tækniframfarir munu áfram leiða til aukinnar hagræðingar og því þurfa nýjir sprotar að fá að skjóta rótum. 

Kári Gautason

Skylt efni: landbúnaðarstefna

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...