Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Jón Viðar Jónmundsson
Jón Viðar Jónmundsson
Lesendarýni 10. maí 2023

Er ástæða til að velja litaarfgerðir sæðingastöðvahrúta?

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamaður.

Ég bar meginábyrgð á framkvæmd ræktunarstarfsins í sauðfjárrækt hér á landi í um tveggja áratuga skeið og hafði áður meira og minna séð um skýrsluhald sauðfjárræktarinnar rúma tvo áratugi áður. Þannig tel ég mig hafa öðlast sæmilega yfirsýn um framkvæmd ræktunarstarfsins hér á landi síðustu hálfa öld.

Þegar horft er til þessa tíma þá er í mínum huga alveg ljóst hvar starfið gekk verst en það var í sambandi við ull og gæðaeiginleika hennar. Þessu var miklu minna sinnt en hægt hefði verið.

Magn og gæði

Tekjur bænda af ull sem þeir framleiða ráðast bæði af magni og gæðum. Á báðum þessum sviðum er mögulegt með ræktunarstarfi að ná miklum árangri. Bændur lögðu okkur ekki mikið lið í sambandi við ullarmagnið því að ef eitthvað var sem alveg fór úrskeiðis þá var það að fá bændur til skráninga á ullarmagni einstakra gripa. Þrátt fyrir verulega hvatningu til bænda um að taka upp skráningu á ullarmagni ánna. Svörun bænda um skráningu þessa eiginleika var nánast engin og óralangt undir þeim mörkum sem hefði þurft að ná til að geta unnið með ullarmagnið í ræktunarstarfinu.

Ullargæði eru fjölmargir eiginleikar en sennilega er það ullarlitur, sauðalitir og gul hár í ull, sem mestu ráða um verð á ull til bænda fyrir gæði. Hér er vandamál til viðbótar að ullarmarkaður er tvískiptur, ullariðnaðurinn og hlutfallslega vaxandi markaður fólk sem sinnir ullarvinnslu sem handverki. Virðist sem viðhorf þessara aðila til gæðaþátta ullar sé á stundum ólík. Slíkt er óheppilegt vegna þess að stefnu í ræktun þarf að marka til lengri tíma, ekki farsælt að tjalda til einnar nætur.

Hinn hagnýti áttaviti

Litaerfðareglur þær sem Stefán Aðalsteinsson fullmótaði á sjöunda áratug síðustu aldar hafa verið og munu verða hinn hagnýti áttaviti í þessum efnum og ætla ég aðeins að velta fyrir mér hvort við mögulega gætum nýtt okkur þær enn betur því að þar eru skráningar nægar sem er litaskráning í skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar.

Það eru breytingar í hrútastofninum sem mestu skipta um ræktunarárangur, fyrst og fremst vegna miklu meiri úrvalsstyrks og styttra ættliðabils hjá hrútunum en ánum. Meira en helmingur ásettra hrútlamba á hverju ári munu synir stöðvahrúta.

Vegna þessa þá eru það þeir sem meiru ráða um ræktunarárangur en nokkur annar einn þáttur. Þess vegna tók ég mig til og fór gegnum allar hrútaskrár stöðvanna frá 2000-2001 til 2022-2023 og smalaði saman upplýsingum um litaarfgerðir stöðvahrúta frá þessu tímabili. Langar mig að kynna ykkur afraksturinn og aðeins velta fyrir mér hvort nýta megi þessar upplýsingar betur.

Upplýsingar skráði ég fyrir alla hrútana nema tvo hópa sem sleppt var. Annar sá hópur voru feldfjárhrútar og forystufjárhrútar sem augljóslega hefðu skekkt allar niðurstöður vegna sáralítillar notkunar þeirra í samanburði við aðra stöðvahrúta en hefðu auk þess allir lent í sama flokki eins og ég vann þetta. Hins vegar var að sjálfsögðu líka sleppt nokkrum lambhrútum sem finnast í skránum vegna þess að þeir voru skiljanlega ekki með upplýsingar fyrir þá flokkun sem ég gerði. Eflaust segja einhverjir að galli sé að ég telji sama hrútinn sem einstakling ár eftir ár ef hann er notaður í fleiri ár í röð. Mögulega hefði líka verið best að vega tölur með afkvæmafjölda hrútanna á hverju ári en þær tölur voru mér ekki aðgengilegar fyrir allt tímabilið. Þá gerði ég talninguna aðskilda fyrir hyrnda og kollótta hrúta enda rækta flestir bændur stofnana aðskilda.

Flokkun hrútana

Ég flokkaði hrútana einfaldlega í arfhreina hvíta hrúta (lína merkt hvít á myndunum) og hins vegar alla aðra hrúta, arfblendna hvíta og af öðrum lit en hvítum (lína merkt blendin á myndunum). Einnig voru taldir sérstaklega hrútar sem ekki voru hvítir (lína merkt dökk á myndunum). Tölurnar eru sýndar sem hlutfallstölur allra hrúta sem flokkaðir voru úr hrútaskrá hvers árs.

Niðurstöðurnar má sjá í tveim töflum, annarri fyrir hyrndu hrútana en hinni fyrir þá kollóttu.

Mynd 1 sýnir þróun litaerfða hjá hyrndum hrútum á sæðingastöðvunum samkvæmt hrútaskrám 2000-2001 til 2022-2023. Sjá nánari lýsingu á flokkun hrútanna í texta greinarinnar. Lárétti ásinn sýnir tvo síðustu tölustafi úr seinna ártalinu í hrútaskrárheitunum. Línurnar sýna hlutfallslega þróun arfgerðarflokka hrútanna.
Mynd 2 sýnir sömu þróun fyrir kollóttu stöðvahrútana.

Ekki er þörf á að fjalla mikið um niðurstöðurnar. Menn skoða þær sjálfir og draga sínar ályktanir. Þróunin er mjög skýr hjá hyrndu hrútunum þar sem arfhreinum hvítum hrútum fækkar jafnt og þétt hlutfallslega. Einnig fer hrútum af öðrum lit en hvítum hlutfallslega fjölgandi. Þróunin hjá kollóttu hrútunum er ekki jafn skýr vegna þess að þar eru tölurnar talsvert breytilegri vegna þess að þær eru ónákvæmari vegna talsvert minni fjölda kollóttu hrútanna en hinna hyrndu. Síðustu árin er þróunin samt greinilega sú sama og hjá hyrndu hrútunum.

Æskileg þróun?

Eðlilegt er að velta fyrir sér hvort þetta sé æskileg þróun. Það liggur í hlutarins eðli að miklu auðveldara er að stýra þróun á litum í hjörðinni með arfhreinum en arfblendnum hrútum. Frá þeim sjónarhóli er þróunin síðustu ára öfugþróun. Hvert hlutfall hrúta sem ekki eru hvítir á að vera vil ég ekki hafa neina skoðun á. Verður eftirspurnin eftir þeim hrútum ekki að stýra því? Hins vegar held ég að æskilegast sé að viðhalda dökku og flekkóttu fé fremur með hrútum af þessum litum en arfblendnum hvítum hrútum. Alveg eins og hvíta fénu verður best viðhaldið og fjölgað með arfhreinum hvítum hrútum.

Væri einnig æskilegt að gráu stöðvarhrútarnir væru arfhreinir gráir? Það ætti að vera fullkomlega raunhæft markmið.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...