Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Jón Sigurðsson vísar í greininni til reglna um heimildir til kaupa á fasteignum og jörðum í Danmörku, Finnlandi og á Möltu.
Jón Sigurðsson vísar í greininni til reglna um heimildir til kaupa á fasteignum og jörðum í Danmörku, Finnlandi og á Möltu.
Lesendarýni 14. apríl 2020

Eru íslenskar reglur of linar og slappar?

Höfundur: Jón Sigurðsson

Margir hafa áhyggjur af eigna­söfnun auðmanna, einkum útlenskra gróðamanna sem ætla sér mikinn hlut í íslenskum jarðeignum, auðlindum og víðernum landsins. Og þá spyrja menn líka: - Eru íslenskar reglur miklu „opnari“, veikari, linari, loðnari og slappari heldur en reglur nágrannaþjóðanna um þessi sömu efni?
Nú hefur ríkisstjórnin boðað nýja löggjöf um þessi mál. - Vonandi stenst hún samanburðinn.

Í Bændablaðinu 19. mars sl. er sagt frá drögum að lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, en frumvarpið hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda (samradsgatt.is).

Danmörk

Í Danmörku gilda athyglisverðar reglur um þessi mál (Regler om køb af ejendom i Danmark - Begrænsninger ved udlændingers køb af fast ejendom i Danmark - erhvervelsesloven - planloven - sommerhusloven). Þessar reglur njóta fullrar viðurkenningar Evrópusambandsins enda byggðar á sérstakri bókun (protokoll) frá inngöngu Dana í sambandið.

Þessar reglur Dana gilda m.a. um þegna annarra aðildarríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Og reyndar gilda reglurnar að hluta einnig um Dani sjálfa. Helstu drættir eru sem hér segir:

  • Þeir útlendingar sem eru búsettir, starfa og taka laun eða aðrar tekjur í Danmörku mega  kaupa fasteign í landinu en aðeins til eigin afnota.
  • Strangar kröfur gilda um búsetu og eiginnýtingu.
  • Sérstakar kröfur gilda um kaup á fyrirtækjum.
  • Sumarhús eða tómstundahús mega þeir einir útlendingar eiga sem búið hafa í Danmörku í  fimm ár og búa í landinu í varanlegri fastri búsetu.
  • Sérstök skilyrði gilda um kaup bújarða:

– kaupandi sé a.m.k. 18 ára og hafi landbúnaðarmenntun,

– kaupandi setjist varanlega að sjálfur á býlinu og annist búreksturinn sjálfur,

– ef eignin er minni en 30 hektarar, verður kaupandi a.m.k. að sjá um fulla nýtingu í 8 ár og útvega þá leigjanda á eignina ef hann býr þar ekki sjálfur, og er eigandanum þá óheimilt að dvelja þar sjálfum.

  • Í sérstökum aðstæðum geta menn sótt um undanþágu til dómsmálaráðherra.

Finnland

Á Álandseyjum í Finnlandi gilda merkilegar reglur um „heimarétt“ (Åländsk hembygdsrätt, sem styðst við „Álandsbókunina“ - Ålandsprotokollet, sem er 2. bókun/protokoll með aðildarsamningi Finna við Evrópusambandið).

Heimaréttur Álendinga takmarkar aðgengi allra annarra, þ. á m. þegna annarra aðildarríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.
Heimaréttur Álendinga er í aðalatriðum þessi:

  • Aðeins þeir sem búa varanlega á Álandseyjum, hafa þar uppruna, búsetu, atvinnu og lögheimili, þ.e. Álendingar sjálfir og einir, mega eiga fasteignir, fyrirtæki, lóðir og jarðeignir á Álandseyjum.
  • Álendingar geta gengið að arfi frá foreldri, við 18 ára aldur, og nægir eitt foreldri sem hefur,  eða ef látið er, hafði heimarétt á eyjunum.
  • Alger skilyrði eru föst varanleg búseta á Álandseyjum og finnskur þegnréttur.
  • Til greina kemur að samþykkja umsókn um heimarétt, ef um er að ræða fasta búsetu á eyjunum í fimm ár, finnskan þegn sem kann sænsku; og sérreglur eru til viðbótar.
  • Heimaréttur glatast ef finnskur þegnréttur er ekki lengur fyrir hendi eða maðurinn dvelst fjarri frá eyjunum í fimm ár.
  • Til greina kemur að veita heimarétt með sérstakri heimild í lögum eða að ákvörðun  héraðsstjórnar vegna sérstakra ástæðna.

Malta

Í aðildarsamningi Maltverja við Evrópusambandið eru merkileg ákvæði (XI viðbótarákvæði –AA2003/ACT/Annex XI).

Eins og ljóslega birtist eru takmarkanir Maltverja ekki síst miðaðar við að halda þegnum og fyrirtækjum annarra aðildarríkja Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins frá Möltu.Nokkur atriði eru sem hér segir:

  • Stjórnvöld á Möltu skulu senda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins upplýsingar ef röskun verður á jafnvægi á vinnumarkaði á Möltu, hvort sem er í byggðarlagi eða einstaka atvinnugrein, t.d. vegna samkeppni fyrirtækja eða þegna annarra  Evrópusambandsríkja sem hnekkir samkeppnisstöðu heima­manna, o.fl.
  • Framkvæmdastjórninni er þá skylt að taka þegar í stað til viðeigandi mótaðgerða.
  • Ef Möltustjórn telur málið mjög brýnt er henni heimilt að grípa til einhliða aðgerða.
  • Viðurkenndar eru sérreglur um ríkisaðstoð við atvinnurekstur á Möltu, m.a. um lægri skatta  fyrir smáfyrirtæki og meðalstór.
  • Sérstakar takmarkanir gilda um kaup útlendinga, líka frá öðrum Evrópusambandsríkjum, á  fasteignum til tómstundadvalar eða til að nota sem auka-bústaði.

Íslenskt lögfræðiálit

Sérstakt lögfræðiálit var gert fyrir íslenska innanríkisráðuneytið, nú dómsmálaráðuneytið, í skýrslu dagsettri 30. maí 2014. Álitið snertir þessi mál beint, og er ekki úr vegi að nefna nokkur aðalatriði úr ályktunum þar.

Álitið fjallar um kaup og eignarhald fasteigna, lóða, bújarða, bygginga og fyrirtækja hérlendis. Rætt er um þætti eignarréttarins, s.s. kaup, sölu, umráð, nýtingu, og ákvæði sem varða tengda aðila. Fjallað er um heimildir og möguleika andspænis öðrum lögum, stjórnarskrá og fjölþjóðlegum samningum og skuldbindingum Íslendinga.

Í lögfræðiálitinu er sérstaklega miðað við fyllsta gegnsæi og jafnræði allra aðila, íslenskra sem erlendra.
Í lögfræðiálitinu kemur fram að takmarka má eignarréttinn:

  • vegna skipulagsreglna og öryggis­­mála,
  • setja má ákvæði um stærðarmörk lands (nefnt hámark 10 hektarar),
  • vegna landnýtingar, landbúnaðarnytja, og til að tryggja rekstrargrunn bújarða,
  • til að tryggja virka búsetu í byggðarlagi eða héraði,
  • vegna umhverfisverndar, þjóðgarða, og verndar menningarstaða eða -svæða,
  • til að hindra uppsöfnun eigna og bújarða í hendur sama aðila,
  • setja má fjöldatakmörk bújarða til að hindra uppsöfnun sama aðila,
  • vegna áhrifa á verðlag og til að hindra fjárhagslegt ofurvald og þjóðhagsleg áhrif,
  • framfylgja ber tilkynningaskyldu til stjórnvalda, og leyfisskyldu þegar við á.

Vonandi stenst ný löggjöf ríkisstjórnarinnar samanburðinn við þau dæmi sem hér eru rakin. Sérstaða Íslandsbyggðar og öll aðstaða þjóðarinnar krefst þess að ekki sé skemmra farið hér í löggjöf en þessi fordæmi Dana, Finna og Maltverja sýna.

Ef vandaður lestur nýja lagafrumvarpsins leiðir í ljós að ríkisstjórnin er með einhverja feimni eða lausatök, verður að ráða bót á því í meðferð málsins á Alþingi.

Jón Sigurðsson
Höfundur er fv. skólastjóri

Skylt efni: jarðalög | Jarðakaup

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...