Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fæðuöryggi: Hvaða breytinga er þörf?
Lesendarýni 6. apríl 2020

Fæðuöryggi: Hvaða breytinga er þörf?

Höfundur: Sveinn Margeirsson - sjálfstæður ráðgjafi

Umræða um fæðuöryggi Íslend­inga hefur vaknað í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Viðbrögð við þeirri umræðu hafa eðlilega snúist um skammtímasjónarmið, en mikilvægt er að horfa til lengri tíma í þeim efnum. Eftirfarandi eru tíu breytingar sem eru að mínu mati nauðsynlegar fyrir íslenska fæðuframleiðslu í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er.

Aukið frjálsræði bænda til úrvinnslu eigin afurða og beinnar sölu til neytenda

Möguleika bænda til slátrunar eigin gripa þarf að auka. Í samtölum mínum við veitingamenn, bændur og aðra frumkvöðla víða um land er komið inn á ástæður á borð við viðhald verkþekkingar, minni flutninga, bætta dýravelferð og aukna eftirspurn meðal neytenda, svo ekki sé minnst á gæði kjötsins. Tilraunaverkefni ráðherra um heimaslátrun sauðfjár, haustið 2020, er jákvætt skref.

Aukin áhersla á innlenda fóðuröflun í stað innflutnings á fóðri

Íslendingar framleiða um 150 þúsund tonn af mjólk og 30 þúsund tonn af kjöti á ári. Til að framleiða þessi 180 þúsund tonn af matvælum flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn af soja, maís og öðrum fóðurhráefnum. Framleiðsluaukning mjólkurframleiðslu síðustu ára hefur haldist í hendur við aukinn innflutning á fóðurhráefnum. Það er mögulegt að nýta íslensk hráefni, íslenskt land og íslenska orku til að vinna fóðurhráefni og áburð og full ástæða til að setja aukinn kraft í slíka þróun.

Stuðningur við matvælaframleiðslu miði að auknum viðnámsþrótti matvælaframleiðslu og byggðarlaga

Stuðningur við landbúnaðarframleiðslu („landbúnaðarkerfið“) er að verulegu leyti miðaður við framleiðslu í tveimur greinum landbúnaðar; sauðfé og mjólkurframleiðslu. Það er full ástæða til að styðja við íslenskan landbúnað, en út frá fæðuöryggissjónarmiðum væri nær að skilgreina nauðsynlega lágmarksstöðu í helstu greinum framleiðslu landbúnaðarafurða og miða stuðning við það. Annar stuðningur við landbúnað ætti að miðast við sjálfbæra nýtingu lands og kolefnisbindingu, auk stuðnings við nýsköpun, t.a.m. úrvinnslu og vöruþróun og innleiðingu og þróun tæknilausna.

Stöðvum jarðasöfnun sem tekur landbúnaðarland úr umferð og ýtir undir neikvæða byggðaþróun

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp í þessum efnum, sem er jákvætt. Það kann vel að vera að það frumvarp þurfi lagfæringa við, en það er í öllu falli jákvætt að málið sé komið á dagskrá. Það er flókið að setja fram hina einu „réttu“ uppskrift í þessum efnum, en hægt að benda á reynslu nágrannaþjóða okkar og umræðu sem á sér stað þar.

Eftirlitskostnaður við matvælaframleiðslu miðist við raunverulega áhættu

Eftirlitskostnaður hamlar umtalsvert starfsemi minni matvælaframleiðenda. Nýlegt dæmi um hundruð þúsunda eftirlitskostnað við minniháttar bleikjueldi sýnir ágætlega hversu miklar hindranir geta verið í veginum fyrir frumkvöðla sem vilja byrja smátt og prófa hlutina. Það þarf að taka rækilega til í þessum efnum og beita nýjum lausnum. Væri ekki t.d. tilvalið að læra af fjarfundum sem við höfum þurft að halda vegna Covid-19 og beita rafrænum lausnum við eftirlit í auknum mæli?

Efling iðnnáms og virðing fyrir starfsfólki í framleiðslu

Stór hluti af starfsfólki í framleiðslu matvæla er af erlendu bergi brotinn. Í sumum tilvikum er um að ræða farandverkamenn sem koma til landsins á álagstímum (um 500–600 manns koma í sláturtíð). Hvernig ætlum við að haga málum ef ekki verður mögulegt að flytja inn ódýrt vinnuafl? Við þurfum að bera meiri virðingu fyrir handverki, hvetja ungt fólk til að læra iðngreinar tengdar framleiðslu og matreiðslu og greiða samkeppnishæf laun fyrir slík störf.

Borgum meira fyrir matvöru

Matvælaverð hefur farið hratt niður síðustu áratugi. Á sama tíma er upp undir þriðjungi af matvælum sóað, sem skapar umhverfisáskorun og sóar verðmætum auðlindum. Við neytendur þurfum að sýna í verki að við séum tilbúin að greiða meira fyrir matvöru og versla beint við bændur og matvælaframleiðendur sem sýna að þeim sé annt um langtíma fæðuöryggi. 

Veljum íslenskt og framleitt í nágrenninu

Besta vörnin gegn röskun á fæðuframboði er staðbundin framleiðsla. Við getum öll aukið okkar matvælaframleiðslu, hvort sem það er úti í garði eða úti á svölum auk þess að styðja matvælaframleiðendur í okkar nágrenni, til sjávar og sveita. Gott fyrir fæðuöryggi, gott fyrir þróun okkar eigin nærsamfélags og gott fyrir umhverfið.

Leyfum eðlilega þróun varðandi hráefnaval

Matvælaframleiðsla á Íslandi hefur á margan hátt verið íhaldssöm, þó vissulega hafi komið fram öflugir frumkvöðlar sem hafa látið reyna á ný hráefni og nýjar aðferðir til ræktunar. Það er full ástæða til þess að fjarlægja hindranir sem eru í vegi nýsköpunar. Nýlegt dæmi um slíka hindrun er kæra á hendur frumkvöðlum vegna ræktunar og nýtingar iðnaðarhamps.

Jöfnum aðstöðu matvælaframleiðenda og stóriðju varðandi orkuverð

Það er hægt að framleiða mun meira af matvælum á Íslandi, til hagsbóta fyrir fæðuöryggi, lýðheilsu og um leið lágmarka áhættu í utanríkisverslun. Stórt skref í þá átt er að lækka orkukostnað garðyrkjunnar. Samfara lækkun á orkukostnaði væri tilvalið að ráðast í átak varðandi frekari úrvinnslu á hráefnum úr garðyrkju og vöruþróun á íslenskum áburði og öðrum nauðsynlegum hráefnum til ræktunar.

Sveinn Margeirsson,
sjálfstæður ráðgjafi.

* Hér undir má hlýða á hlaðvarpsþáttinn Víða ratað þar sem Sveinn Margeirsson fer yfir efni greinarinnar.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...