Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Álver Norðuráls og horft út Hvalfjörð og í átt að Akrafjalli. Ríkjandi vindátt er út fjörðinn. Myndin er fengin úr skýrslu Norðuráls.
Álver Norðuráls og horft út Hvalfjörð og í átt að Akrafjalli. Ríkjandi vindátt er út fjörðinn. Myndin er fengin úr skýrslu Norðuráls.
Lesendarýni 5. október 2016

Flúor frá Norðuráli í grasi á Kúludalsá

Höfundur: Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur
Fyrir stuttu var viðtal í Frétta­tímanum  við Ragnheiði Þorgríms­dóttur, bónda á Kúludalsá í Hvalfirði, um möguleg tengsl flúormengunar frá Norðuráli við veikindi í hrossum sem hún heldur á jörð sinni.  Í kjölfarið lét ég hafa eftir mér gagnrýni á því hvernig staðið er að þessum mælingum  og þær túlkaðar. Við frekari eftirgrennslan hjá Umhverfisstofnun kom síðan í ljós að ekki hafi verið tekið eitt einasta grassýni á Kúludalsá til mælinga á flúor. 
 
Sýnatökustaðir gróðurs. Búið er að færa inn staðsetningu Kúludalsár inn á kortið. Úr skýrslu EFLU, Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga fyrir 2015.
 
Sjálfur þekki ég lítið til forsögu þessa máls og ekki kynnt mér áhrif flúors á líðan grasbíta. Það er annarra að meta þau. En ég hnaut hins vegar um þá fullyrðingu Norðuráls sem kemur líka fram í  skýrslu EFLU um umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga  fyrir 2015, að styrkur flúors í gróðri hafi ævinlega mælst undir þolmörkum og mörkum þess sem getið er í reglugerðum. Ekki ætla ég að rengja þær mælingar en það vekur óneitanlega mikla furðu miðað við þau álitamál sem uppi eru að ekki hafi verið tekin mælisýni  á Kúludalsá, á þeim eina stað þar sem hross bera sýnileg einkenni flúoreitrunar.  Í nýútgefnu starfsleyfi Umhverfisstofnunar sem finna má á heimasíðu UST má lesa þessi orð í greinargerð: „Einnig er möguleiki að beina sérstakri athygli að Kúludalsá, bæði ánni og býlinu og skoða flúor í umhverfinu þar betur.“ Ég spyr á móti, af hverju er ekki fyrir löngu búið að mæla þar sem hrossin eru á beit og komast að raun um hið sanna? Af hverju þarf að gera einfalda hluti svona flókna?
 
Flúor í Reyðarfirði
 
Árin 2011 og 2012 mældist flúor í grasi inni í Reyðarfjarðarbotni og rakið var til álversins þar. Magnið var þó nokkurt  og um það fjallað á sínum tíma í fjölmiðlum. Þessar mælingar  komu nokkuð á óvart þar sem gildi voru há miðað við það sem mælist næst verksmiðjunni á svokölluðu þynningarsvæði.
 
Niðurstöðurnar voru teknar alvarlega og fór sá sem þetta ritar í athugun með Alcoa-Fjarðaáli m.a. að greina þá veðurþætti sem hugsanlega gæti valdið því að flúor virtist falla úr lofti á nokkuð afmörkuðu svæði inni í Reyðarfjarðarbotni þar sem aflað er heyja fyrir sauðfé. Sérstaklega var skoðað veðrið í júní 2012 þegar mælingar á gildi flúors í grasi hækkuðu að því er virtist skyndilega.  
 
Niðurstaða þeirrar skoðunar þá var sú að veðurfyrirbæri sem kallast „strandsvæling“ hafi verið völd að því að flúor barst í gróður á þessum slóðum en síður annars staðar.  Í Reyðarfirði er loft oftast það sem er kallað stöðugt að sumarlagi, sjórinn kaldur undir og útblástursefni mynda slæður í lofti í 100–200 m hæð í hægum sumarvindinum. Þegar köld hafgolan berst inn yfir sólvermdan fjarðarbotninn á sér stað lóðrétt blöndun við efri loftlög og flúorefnin berast í gróður á láglendi.  Ferlið getur endurtekið sig dag eftir dag á meðan loftið hagar sér eins og pendúll inn og út fjörðinn með sólfarsvindum. Alcoa-Fjarðaál tók þessar niðurstöður alvarlega og bætti vöktun og sýnatöku í kjölfarið. 
 
 
 
Strandsvæling á Kúludalsá
 
Í Hvalfirði má vel ímynda sér áþekka strandsvælingu að sumarlagi þó með aðeins öðrum hætti.  Ríkjandi vindátt á öllum árstímum á Grundartangasvæðinu er aust-norðaustan. Með öðrum orðum, vindur stendur út fjörðinn eins og algengast er hérlendis í fjörðum eða dölum umkringd háum fjöllum. Það er rétt að útblástur frá verksmiðjunum á Grundartanga berst því æði oft yfir undirlendið sunnan undir austanverðu Akrafjalli, en þar er sýnatökustaðurinn Gröf II. Kúludalsá er hins vegar litlu utar eða í  7–8 km fjarlægð frá álverinu. Þó svo að lítið flúor hafi mælst á Gröf II í gegnum tíðina útilokar það alls ekki að meira magn gæti verið í grasi á Kúludalsá þó svo að sú jörð sé lengra í burtu á sama hátt og kom í ljós á Reyðarfirði.  
 
Vindafar 31. júlí 2016 kl. 06. ANA-átt út Hvalfjörðinn 2–4 m/s. Greiningarkort fengið af Brunni Veðurstofunnar.  Líkan: Harmonie með 2,5 x 2,5 km möskva.
 
Hafgolan í Hvalfirði að sumri er hins vegar heldur flóknari viðfangs en á Reyðarfirði.  Beygja er á firðinum og svæði undirlendi víðar en bara inni í botni. Að næturlagi og fram á sólríka morgna leggur í kyrrlátu veðri hæga ANA-átt út fjörðinn.  Loft sem inniheldur flúor frá álveri Norðuráls berst þannig yfir bæina, bæði Gröf II og Kúludalsá.  Uppstreymi vegna upphitunar neðan frá kemur í veg fyrir að flúorgas eða -ryk berist til jarðar. Seint um morguninn fer hins vegar að bera á hafgolunni sem er vestanstæður vindur.  Við loftblöndun, m.a. vegna svokallaðs samstreymis, sogast loftið úr efri lögum og nær niður til yfirborðs við ströndina. Aðstæðurnar geta verið staðbundnar og standa e.t.v. aðeins rétt á meðan hafgolan er að ná yfir. Sunnudagurinn 31. júlí sl. var einn þessara daga og telst nokkuð dæmigerður. Mátti þá sjá á  veðurspám sem reiknaðar eru í fínu neti hvernig hafgoluskilin skella á ströndinni undir Akrafjalli um kl. 11 eftir að andvari hafði staðið út fjörðinn og yfir Grundartanga allt  frá því snemma morguns. Þetta er sýnt á meðfylgjandi skýringarmyndum. 
 
Sama, en kl. 11. Vegna hafgolunnar hefur vindur snúist í utanverðum Hvalfirði.  Spákort Harmonie úr sömu keyrslu frá kl. 06 um morguninn.
 
Mæla og mæla
 
Þetta er vissulega tilgáta sem hér er sett fram, byggð á reynslunni fyrir austan. Strandsvæling mengunarefna er vel þekkt erlendis frá, m.a. í Ástralíu þar sem kolaorkuver eru starfrækt við sjóinn. Hér er hún sumarfyrirbæri og lögmálin um þynningarsvæðið, aukna fjarlægð og allt það á  e.t.v. frekar við á öðrum árstímum. Auðvelt er að komast að hinu sanna með einföldum mælingum og kannski er best að byrja á því að afla sýna úr grasi þar sem hrossin á Kúludalsá eru á beit eða heyjað ofan í þau. Hér stendur upp á Umhverfisstofnun og Norðurál að sýna fram á að gras á Kúludalsá sé laust við flúor, en álverið losar um 100 tonn á ári við framleiðslu sína.  Mest af því þynnist með vindum og fellur með úrkomu fjarri Hvalfirði, en við getum ekkert staðfest í þeim efnum nema að mæla og taka sýni með viðurkenndum aðferðum.
 
Einar Sveinbjörnsson,
veðurfræðingur
 
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...