Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason í bústörfum.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason í bústörfum.
Mynd / Daníel Þór Ágústsson
Lesendarýni 17. ágúst 2020

Hugleiðingar um stjórnsýslu landbúnaðarmála

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Í lok síðasta árs tók undirritaður þátt í innlausnarmarkaði með greiðslumark sauðfjár. Niðurstaða markaðarins var kynnt snemma í janúar en ég tel að framkvæmd hans hafi ekki verið í samræmi við reglugerð nr. 1009/2019 sem kvað á um verklag markaðarins. Í þessari grein ætla ég að rekja samskipti mín við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Umboðsmann Alþingis í framhaldi af markaðnum.
 
Samkvæmt reglugerðinni átti ákveðinn hluti umsækjenda forgang á 60% greiðslumarks sem var í boði en hin 40% áttu að skiptast milli allra umsækjenda. Ekki var tekið fram hversu mikið hver umsækjandi gat sótt um en ákvæði um hámarksúthlutun sem nam 600 ærgildum. 
 
Við framkvæmd markaðarins á vefsvæðinu afurd.is var sett hámark á fjölda ærgilda (600 ærgildi) sem hver umsækjandi gat sótt um í umsóknarformi en slíkt ákvæði er ekki í reglugerð nr. 1009/2019. Sú framkvæmd stenst ekki reglugerðina því í henni var ekkert sem bannaði að sækja um 200.000 ærgildi enda úthlutun háð hlutfallsútreikningum og þannig hefði umsækjandi aðeins verið að tryggja sér stöðu við úthlutun enda var 600 ærgilda hámark í úthlutun. Markaðinn hefði því með réttu átt að endurtaka þar sem þessi framkvæmd var hvergi kynnt.
 
Stjórnsýslukæra er ekki möguleg vegna landbúnaðarmála
 
Í framhaldi af þessu vakti ég athygli Umboðsmanns Alþingis á þessu. Í stuttu máli sagt kynnti hann sér málið ekki betur en svo að hann taldi að reglugerð 1253/2019 ætti að gilda sem mun gilda um innlausnarmarkað á árinu 2020. Jafnframt benti Umboðsmaður á að rökrétt fyrsta skref hefði verið að leita beint til ráðherra.
 
Í framhaldinu sendi ég stjórn­sýslukæru til landbúnaðar­ráðherra vegna framkvæmdar markaðarins með vísan í 1. mgr. 3. gr. búvörulaga nr. 99/1993, 31. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1262/2018 og VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svari sem mér barst 10. mars sl. var stjórnsýslukærunni vísað frá þar sem innlausnarmarkaðurinn var framkvæmdur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og niðurstaðan því ekki kæranleg til ráðuneytis – þó framangreindar laga- og reglugerðargreinar kveði skýrt á um það.
 
En ráðuneytið bregst við gagnrýni á framkvæmdina með þessum hætti:
Hver framleiðandi getur ekki fengið hærri úthlutun en sem nemur 600 ærgildum. Í reglugerðinni er þannig kveðið á um að hámarks úthlutun séu 600 ærgildi og ekki er tekið fram að kaupandi geti óskað eftir fleiri ærgildum en sem því nemur. Því er talið rétt og eðlilegt við framkvæmd innlausnarmarkaðar að hámarksbeiðni sé jöfn því hámarki sem hverjum einstökum umsækjanda er heimilt að kaupa. 
 
Breyta frétt án þess að skoða forsendur 
 
Fyrir mér er svarið ekkert annað en yfirklór af hálfum ráðuneytisins til að réttlæta þeirra framkvæmd. En þar með er ekki öll sagan sögð. Því undirritaður sótti sjálfur um 200 ærgildi og fékk 12,5 ærgildum úthlutað. Það gera 6,2% af kaupósk. Sú niðurstaða passaði ekki miðað við frétt um framkvæmd markaðarins sem sagði að almennur hópur hefði fengið 5,7% af kaupósk úthlutað. Ráðuneytið brást við þeirri ábendingu á þann hátt að breyta fréttinni sem er svona í dag á vef Stjórnarráðsins.
 
„Óskir um innlausn á greiðslu­marki voru 97 talsins og er innleysir ríkið greiðslumark samtals sem nemur 6.625 ærgildum. Óskir um kaup á greiðslumarki voru 182 talsins og var óskað alls eftir 46.493 ærgildum. Í heildina er hlutfall til úthlutunar 14,2% af óskum um kaup. Óskir um kaup í forgangshópi nema 39.500 ærgildum og er 3.975 ærgildum ráðstafað til forgangshóps (60%). Þá var 2.650 ærgildum úthlutað til alls hópsins sem er þá 6,2% af ósk um kaup. Hver framleiðandi í forgangshópi fær því alls 15,7% af kaupósk sinni úthlutað en framleiðandi í almennum hópi fær úthlutað 6,2% af kaupósk sinni.“
 
Síðast þegar ég vissi var 3.975 deilt með 39.500 jafnt og 0,100 eða 10%. Að sama skapi eru 2.650 deilt með 46.493 jafnt og 0,0569 eða 5,7%. Út frá þessu er vel skiljanlegt að forgangshópur fái úthlutað 15,7% af kaupósk (10% + 5,7% = 15,7%) en óskiljanlegt að almennur hópur fái 6,2% kaupóskar úthlutað þar sem 6,2% er 0,5% hærra en niðurstaða útreiknings fyrir almennan hóp. 
 
Með öðrum orðum þá fékk ég hærri úthlutun en mér bar og ráðuneytið sér ekkert athugavert. Það er mitt mat að framkvæmdin sé skólabókardæmi um lélega stjórnsýslu og það að breyta frétt og ekki skoða forsendur útreikninga eru ámælisverð vinnubrögð.
 
Ég leitaði því aftur til Umboðs­manns Alþingis þar sem ég vakti athygli á þessu misræmi og óskaði jafnframt leiðbeininga um hvernig fara ætti með stjórnsýslukærur tengdum stjórnvaldsákvörðunum landbúnaðar. Umboðsmaður sá ekkert athugavert við úthlutun greiðslumarks þó bent hafi verið á misræmið. Varðandi stjórnsýslukærurnar þá taldi Umboðsmaður að ekki sé þörf á leiðbeiningum þar sem ég hafi sett mig í samband við ráðuneytið og fengið fullnægjandi svör.
 
Ráðherra kastar steinum úr glerhúsi
 
Að þessu sögðu þá finnst mér sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kasta steinum úr glerhúsi þegar hann ávarpar Búnaðarþing með þessum orðum í mars sl.
 
Eitt af því furðulegra sem hendir þann sem hér stendur er að funda oft í viku með öflugu starfsfólki á landbúnaðarskrifstofu ráðuneytisins, en lesa svo á sama tíma fullyrðingar frá ýmsum velgjörðarmönnum íslensks landbúnaðar um að þetta sama starfsfólk sé ekki til. Þannig er ýmist fullyrt að landbúnaður sé í skúffu í ráðuneytinu eða að skrif­stofan hafi verið lögð niður. Menn virðast halda að ef þeir fullyrði þessa þvælu nógu oft að þá verði til nýr sannleikur.
 
Það er réttmæt gagnrýni á land­búnaðar­skrifstofu ráðuneytisins að hún sé varla til þegar vinnulagið er ekki betra en þetta og menn sjá ekki að sér að viðurkenna mistök sín. Nú er spurning hvort sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ráði við reikningsdæmið hér að ofan og sjái muninn á réttu og röngu en í ræðu á Alþingi fyrr á þessu ári sagði hann að fimm mínus tveir væru þrír. 
 
Jafnframt benti ég ráðuneytinu á að gefa út reikning (fullgilt bókhaldsgagn) fyrir viðskipti með greiðslumark á innlausnarmarkaði en greiðslumark skal eignfæra í eignaskrá sbr. 48. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Svar hefur ekki borist við þessari ábendingu og svo virðist sem þeir telji að umsóknarformið sé fullgilt. Ég bar það skjal undir löggiltan endurskoðenda sem telur svo ekki vera því umsóknarformið gefur ekki til kynna hvort af viðskiptum hafi orðið eða á hvaða bókhaldsári viðskipti eigi sér stað. Þarna hefðu nú verið hæg heimatökin fyrir ráðuneytið að vita hvað er rétt og hvað rangt því það ber ábyrgð á viðurkenningu bókara skv. 43. gr. laga um bókhald nr. 145/1994.
 
Nýverið auglýsti ráðuneytið svo störf þriggja skrifstofustjóra undir fyrirsögninni: „Við leitum að forystufé“. Ég vona innilega að ráðuneytinu farnist að ráða einstakling í starf skrifstofustjóra land­búnaðarmála sem hefur þekkingu á málaflokknum. Sem sauðfjárbóndi veit ég að forystufé er misjafnt að gæðum og fer oft og tíðum eigin leiðir og allt annað en eigandi vill að það fari. Vonandi verður skrifstofustjóri landbúnaðarmála ekki þannig „forystufé“ í því krefjandi verkefni að byggja upp traust á stjórnsýslu landbúnaðarmála meðal bænda og annarra velgjörðarmanna íslensks landbúnaðar.
 
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
sauðfjárbóndi, 
Ásgarði í Hvammssveit
Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...