Jákvæð loftslagsáhrif blóðnytja af hrossum
Hér á landi hefur menning fyrir velferð dýra fest rætur, af því megum við sem byggjum þetta land vera stolt og leitumst jafnframt við að gera sífellt betur.
Þar eru þeir sem stunda blóðnytjar af hrossum engin undantekning. Í umræðum um atvinnugreinina hefur athyglin eðlilega beinst mest að áhrifunum á velferð hryssnanna sem í hlut eiga og folalda þeirra. Í þeim efnum hefur margt verið ofsagt og því verið svarað en um sumt hafa gagnrýnendur komið fram í hlutverkinu; „sá er vinur sem til vamms segir“ og hlutirnir verið færðir til betri vegar.
Á málinu eru þó fleiri hliðar sem vert er að gefa gaum. Ein hliðin er sú að ef þær úrtöluraddir sem voru sem háværastar hefðu náð sínu fram myndu áhrifin hafa orðið hvoru tveggja víðfeðm og alvarleg. Fall atvinnugreinarinnar, þ.e. að ef blóðnytjar af hrossum hyrfu, myndi leiða til þess að umtalsverðar gjaldeyristekjur þjóðarbúsins töpuðust, fólk missti atvinnu sína og tekjumissir bænda yrði mikill, ekki síst í dreifbýlustu sveitunum en þar er svigrúm til stóðhalds sem þessa eðlilega mest. Framleiðslan hefði jafnframt flust úr landi og þá til landa þar sem kröfur til dýravelferðar eru mikið minni en okkar. Hver hefði grætt á því? Svarið er einfalt; enginn hefði grætt, hvorki menn né málleysingjar. Allir hefðu hins vegar tapað! Höldum því til haga í þessu sambandi, að þó Ísland sé eyja umflotin sjó er landið ekki eyland nema einungis í þessari landfræðilegu merkingu, því Ísland er hluti af hag- og vistkerfi heimsins. Og blóðnytjar af hrossum, allur iðnaðurinn sem þeim fylgja og lokaafurðin hvað helst, hefur hvoru tveggja grunnt vistspor og gríðarmikinn vistvænan ábata.
Það sem hér er verið að vitna til er sú staðreynd að starfsemi Ísteka felst í að vinna með líftækni eCG homónið úr blóðvökva hryssna.
Hagnýting hormónsins hefur afar mikinn umhverfislegan ávinning á heimsvísu, auk þess að bæta bókstaflega velferð dýra og viðgang þeirra þar sem það er notað. Þannig má sýna fram á að hagnýting þess sem Ísteka framleiðir árlega af hormóninu og flytur út leiðir eitt og sér, með samstillingu gangmála og aukinnar frjósemi, til fóðursparnaðar á korni í svínaeldinu sem nemur rúmlega milljón tonnum árlega, sjá álitsgerð fyrirtækisins sem lögð var fram í vinnuferlinu við samningu reglugerðar nr. 900/2022, um blóðtöku úr fylfullum hryssum. Gögnin eru öllum aðgengileg í samráðsgátt. Þessi mikli fóðursparnaður skiptir stórmáli en keðja fóðurframleiðslunnar er löng og dýr en afurðirnar eru vissulega afar verðmætar. Veigamestu hlekkirnir í fóðurframleiðslukeðjunni eru eldneytis- og áburðarþörf við framleiðsluna, þungaflutningar á vegum úti og á sjó, unnar vinnustundir o.fl.
Fleira skiptir vitaskuld máli í framleiðsluferlinum en fóður- kostnaðurinn einn, þó sparnaður þar vegi eðlilega þungt. Við minnkaða frjósemi myndi húsnæðis-, orku- og hvers konar aðstöðukostnaður aukast með tilheyrandi útgjöldum og dýpra vistspori. Samstilling gyltna með eCG leiðir einnig til minni aldursdreifingar í grísahópunum sem eru í uppeldi hverju sinni.
Það út af fyrir sig hefur mjög jákvæð áhrif á umhirðu grísanna og samskipti þeirra á milli vegna minni átaka þar eð goggunarröðin er jafnari sem aftur dregur úr halabiti og fleiri neikvæðum þáttum, s.s. notkun sýklalyfja og það svo aftur færir betri og heilnæmari matvæli á borð neytenda.
Það sem hér var rakið snertir einvörðungu notkun eCG í svínarækt en hormónið er notað víðar, þar á meðal í sauðfjár-, geita- og nautgriparækt. Þetta dæmi sýnir þó skýrt að jákvæð áhrif notkunar eCG á vistsporið í landbúnaði eru í öllu tilliti risavaxin, það má því svo sannarlega kalla eCG, hormónið sem Ísteka framleiðir „grænu sameindina“. Það er upprunnið í grænum landbúnaði Íslands og grænkar enn landbúnað víðsfjarri Íslandsströndum, með að leggja m.a. lóð á vogarskál baráttunnar gegn loftslagsvánni.
Vistspor framleiðslunnar er jafnframt lágt, hvort sem litið er til grunnframleiðslunnar eða úrvinnslunnar. Grunnframleiðsla bænda hefur við tilkomu blóðnytjanna sem Ísteka stendur að og fer að verða hálfrar aldar gömul atvinnugrein í landinu, breyst á þann veg að hrossastóð sem áður fyrr voru nær einvörðungu nýtt til kjötframleiðslu eru nú til viðbótar í blóðnytjum en vistsporið því samfara bara aukist óverulega. Ávinningurinn er því stór.
Jákvæð áhrif á vistspor hafa og náðst í úrvinnslunni í verksmiðju Ísteka í Reykjavík. Þar hefur tekist, nú á umliðnum árum, að auka nýtingu hráefna verulega og þar með grynna vistsporið.
Í lokin er svo vert að minna á þá staðreynd að græna sameindin eCG hefur verið notuð með árangursríkum hætti til að auka frjósemi villtra dýra í viðkvæmri stöðu gagngert til að draga úr hættu á útdauða tegundanna.