Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kýrin Bára I númer 1 á Goðdölum í Skagafirði árið 1956. Bára er tígulega hyrnt, ákaflega vel byggð og að auki grá að lit, sem er víst að verða sjaldséður litur í kúastofninum. Bára var af húnversku bergi brotin fædd að Hnjúki í Vatnsdal. Í greininni segir að gripið hafi verið til róttækra aðgerða til útrýmingar hornum um miðja síðustu öld. Framkvæmdin var samt ekki strangari en það að á sömu sýningu og myndin mun tekin fékk sonur hennar, Goði 54-057, einstaklingsviðurkenningu,
þó að sjálfur væri hann hyrndur og í ofanálag skyldleikaræktaður afkomandi Báru I.
Kýrin Bára I númer 1 á Goðdölum í Skagafirði árið 1956. Bára er tígulega hyrnt, ákaflega vel byggð og að auki grá að lit, sem er víst að verða sjaldséður litur í kúastofninum. Bára var af húnversku bergi brotin fædd að Hnjúki í Vatnsdal. Í greininni segir að gripið hafi verið til róttækra aðgerða til útrýmingar hornum um miðja síðustu öld. Framkvæmdin var samt ekki strangari en það að á sömu sýningu og myndin mun tekin fékk sonur hennar, Goði 54-057, einstaklingsviðurkenningu, þó að sjálfur væri hann hyrndur og í ofanálag skyldleikaræktaður afkomandi Báru I.
Mynd / Tímarit.is
Lesendarýni 8. maí 2023

Kollóttar kýr

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamað

Það hefur verið yfirlýst stefna í nautgriparækt hér á landi frá því um miðja síðustu öld að rækta skyldi íslensku kúna sem kollóttan kúastofn. Í ræktunarstarfinu voru athafnir til að ná þessu marki ekki mjög markvissar, aðeins sú regla að ekki væru tekin hyrnd naut til notkunar á sæðingastöð og því að nautin mættu heldur ekki eiga hyrnda móður.

Árangurinn var meðan ég starfaði að þessum málum ekki björgulegri en að yfirleitt virtist hlutfall hyrndra gripa vera á bilinu 2-3% og virtist sveiflast tilviljunarkennt en ekki þróast í neina ákveðna átt, enda þarf róttækari ræktunaraðgerðir en þetta eigi að útrýma hornum úr stofninum.

Ég kem nánar að því síðar í greininni en út frá þeim fátæklegu upplýsingum sem ég hafði tiltækar þá bendir ekkert til þess að þróunin geti verið í rétta átt þessi árin hérlendis.

Hornin voru vörumerki

Við þekkjum það úr sögunni að viðhorfin til horna hjá kúm hafa breyst mikið. Í árdaga byggðar á Íslandi voru hornin vörumerki í verslun með nautgripi, af þeim lásu menn aldur gripa sem gengu kaupum og sölu. Fornar lögbækur munu innihalda ákvæði þar um þó að ég kunni ekki þá lögfræði.

Það sem varð til þess að ég hamra þessar hugleiðingar á lyklaborðið er að nýverið nánast samtímis hlýddi ég á mjög sérstaka hljóðupptöku í umræðu frá fundi um erfðamengjaúrval þar sem spurt var um horn hjá íslenskum kúm og möguleikum á að takast á við þau með þessum nýju verkfærum sem verið var að kynna, en þá á sama tíma var ég nýbúinn að lesa nýlega grein í því ágæta fagriti norskra kúabænda, Buskap. Þar er fjallað um hvernig Norðmenn taka á þessum málum hjá sér. Ljóst er að stóraukin áhersla og umræða um velferð búfjár í matvælaframleiðslunni hefur kallað á aukinn áhuga fyrir kollóttum gripum í framleiðslunni. Litið er á afhornun gripa, sem víða á sér stað, sem dýraníð og hættulegt mál fyrir ímynd framleiðslunnar.

Á allra síðustu árum hefur útflutningur erfðaefnis, fyrst og fremst sem sæði, stóraukist og hjá sér rekja Norðmenn það ekki hvað síst til þess að litið er orðið á norsku kýrnar sem einn besta valkost á kollóttum mjólkurkúm í heiminum.

Þess vegna er eiginleikinn horn/ kollótt orðinn skilgreindur eiginleiki með talsvert vægi í ræktunarmarkmiði fyrir norsku kýrnar. Þetta er því mál sem íslenskir kúabændur ættu að gefa gaum.

Hyrnt eða kollótt

Eiginleikinn hyrnt/kollótt er vel þekktur hjá nautgripum að stjórnist í meginatriðum af einu geni sem er ríkjandi gen fyrir kollóttu. Þannig geta hornin ætíð verið falin og skyndilega og oft óvænt birst sem hyrndur kálfur undan tveim kollóttum foreldrum. Árangur ræktunarstarfsins ræðst af því hvaða upplýsingar eru skráðar og um leið hvernig þær eru notaðar.

Í byrjun greinar skýri ég frá okkar fátæklegu reglum. Það hefur að vísu lengi þekkst að skrá upplýsingar um horn nautgripa bændum til upplýsinga eins og í skýrsluhaldinu hjá kúnum og við skoðun gripa og í nautaskrá. Hvað bændur hafa notað þetta veit enginn. Ég held takmarkað, og fyrst og fremst hafi þetta verið skráningar skráninganna vegna. Þannig er ekki von um neinn ræktunarárangur. Meðan ég starfaði að nautgripakynbótum með bændum hér á landi komu þess mál margoft til umræðu á fundum með þeim. Ég svaraði alltaf að þessi eiginleiki væri ekki í ræktunarmarkmiðinu og við sættum okkur við óbreytta stöðu. Lærir sá er lifir, nú sé ég að margt hefði mátt betur gera, m.a. af því sem ég les um vinnubrögð Norðmanna.

Skráning hjá norskum bændum

Snúum okkur þá að norskum bændum. Þeir skrá eiginleikann mun víðar en við. Byrjunarskráning er hjá gripnum þegar hann fæðist og hún nær til allra fæddra kálfa og síðan eru þessar upplýsingar leiðréttar með auknum þroska og aldri gripsins komi í ljós að eiginleikinn var rangskráður í upphafi. Þá bætast við alveg óþekktar skráningar hér á landi sem er afhornun gripa, sem er veruleg hjá kyni þar sem hornóttir gripir eru jafn margir og þar. Skoðanir á gripum eru miklu fátíðari en hjá okkur en skipta engu máli í samanburði þar og hér vegna þess að við skráðum eiginleikann en notum aldrei skráningarnar.

Norðmenn hafa gert rannsóknir á hversu nákvæmar skráningar hliðstæðar okkar skráningum séu. Fundu þeir að skráningar væru aðeins með um 80% nákvæmni. Þetta mundi koma aðeins hagstæðara út yrði það einhverju sinni í framtíðinni rannsakað hér en það væri ekki sökum meiri nákvæmni íslenskra kúabænda en stéttarbræðra þeirra í Noregi við skráningar, heldur tölfræðilegum blekkingum vegna þess að eiginleikinn er nær alltaf kollótt hjá íslensku kúnum. Norska talan um 80% er því alveg raunhæf fyrir okkur líka.

Norðmenn sættu sig illa við þessa nákvæmni og gerðu sér litlar vonir um ræktunarárangur á þennan hátt. Þess vegna fóru þeir að þróa gervigreind til að auka nákvæmnina. Þeir létu gervigreindina smala saman öllum upplýsingum sem telja mátti fljótt í milljónum margs konar skráninga. Þar skipti hvað mestu skráning eiginleikans hjá öllum fæddum kálfum sem þýddi það að hefði kýrin borið oftar en einu sinni þá notaði gervigreindin þessar upplýsingar fyrir alla fædda kálfa hennar, hver svo sem örlög þeirra urðu í framhaldinu. Með allri þessari gagnasmölun fundu þeir að nákvæmnin hafði aukist í 93%.

Þetta er gott og vel en þeir sáu að meira þurfti að gera til að ná árangri. Þegar byrjað var að sinna eiginleikanum í ræktunarstarfinu hjá þeim gerðu þeir það með að velja ákveðna nautsfeður sem þeir keyptu aðeins kollótta nautkálfa undan, þetta skilaði sáralitlu, líkt og tilburðir okkar. Vakin er athygli á að þá voru flestar norskar kýr orðnar hyrndar. Eftir aldamótin koma erfðagreiningar til sögunnar hjá þeim og öll naut eru erfðagreind en aðeins hluti kúnna öfugt við það sem áætlað er að gera hér á landi. Þess vegna nýtist áfram öll vinna með gervigreindina við fyrsta val nautsmæðranna.

En þeir hafa gert enn þá meira, þeir hafa tekið eiginleikann í ræktunarmarkmið sitt þar sem hann hefur meira en 5% vægi. Þeir segja því að kollóttum kúm muni stórfjölga hlutfallslega í Noregi á allra næstu árum.

Víkingur á Möðruvöllum í Hörgárdal frá gripasýningu 1907. Víkingur var hyrndur og heimildir munu til um að hann rekti ættir sínar til nautgripa innfluttra frá Danmörku. Líklega mætti staðfesta slíkt út frá gögnum sem enn munu til. Mynd / Tímarit.is

Hornagenið hjá kúm er löngu þekkt

Auðvelt er líka að láta hyrndu kýrnar hverfa alveg á Íslandi á allra næstu árum gangi áform um erfðagreiningu á öllum kúm og nautum eftir og að eiginleikinn fái viðunandi vægi í ræktunarmarkmiði íslensku kýrinnar.

Það er vegna þess að ég veit ekki betur en að í snippasafninu sem erfðagreint er sé að finna flest þekkt gen hjá mjólkurkúm. Þar hlýtur því að vera að finna hornagenið hjá kúm sem er löngu þekkt. Þess vegna hefðu ráðunautarnir á umræddum umræðufundi átt að geta svarað faglegar en þeir gerðu, þegar spurt var um þessi mál þar.

Nautaskráin helsta heimildarit um nautgripakynbætur

Í lokin smá hugleiðing um stöðu mála hér á landi í dag. Sveinbörn Eyjólfsson er ávallt svo vinalegur að senda mér eintak af Nautaskránni þegar hún kemur út á hverju ári en hún er orðin helsta heimildarit um nautgripakynbætur hér á landi.

Þar tel ég mig geta lesið arfgerð reyndu nautanna sem eru að fá sinn fyrsta afkvæmadóm og því tekin í notkun sem nautsfeður sem ég held að sé ögn alvarlegur misskilningur. Held meðan ég kom að þessari útgáfu hafi það verið mögulegt fyrir öll reyndu nautin sem voru í notkun hverju sinni að lesa þessar upplýsingar í nautaskránni.

Ég lét mér nægja að skoða arfgerðir þessara nauta í síðustu nautaskrá og skrá útgefinni fyrir þrem eða fjórum árum. Þannig gat ég smalað saman arfgerðaupplýsingum fyrir 14 naut. Þetta eiga að vera naut sem einkenna stofninn í dag og á morgun. Mér reiknaðist samkvæmt þessum upplýsingum til að tíðni erfðavísisins fyrir hornum væri nú 0,25.

Mér reiknast til út frá þessu að hlutfall hyrndra gripa ætti að vera 6,25% samkvæmt þeirri hóperfðafræði en ég lærði fyrir meira en 50 árum og stendur enn óhögguð. Þó að ég hafi lengi ekki séð neinar tölur um þróun eiginleikans neita ég að trúa því að breytingar til fjölgunar á hyrndum kúm hafi skyndilega orðið svona miklar á tveim áratugum á meðan tíðnin hafði verið óbreytt áður um þriggja áratuga skeið. Mögulega hefur tíðnin um langt skeið verið áætluð og lág vegna þess að bændur hafi ekki sett á hyrnda kálfa nema út úr neyð. Sá úrvalsstyrkur er samt ómögulega það mikill að áðurnefndar tölur boði ekki hlutfallslega fjölgun hyrndra gripa á allra næstu árum. Hefðu verið til tölur um eiginleikann hjá öllum fæddum kálfum eins og hjá Norðmönnum hefði verið fyrir hendi skemmtilegt verkefni fyrir háskólanema við Landbúnaðarháskólann til að rannsaka áhrif úrvals í litlum erfðahópi.

Nú er það ykkar kúabænda að hugleiða þessi mál og ákveða hvort aðeins verði kollóttar kýr á Íslandi á komandi árum.

Skylt efni: nautgriparækt

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...