Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gamli kirkjustaðurinn á Hvoli með hvolnum Kastala. Bergið fyrir ofan er ýmist nefnt Hvolsberg eða Mávaberg. Strýtan Kerling til vinstri.
Gamli kirkjustaðurinn á Hvoli með hvolnum Kastala. Bergið fyrir ofan er ýmist nefnt Hvolsberg eða Mávaberg. Strýtan Kerling til vinstri.
Mynd / Daníel Bergmann
Lesendarýni 1. júní 2016

Kröfur um þjóðlendur í Dölum −2. hluti

Höfundur: Einar G. Pétursson
Flekkudalur var í eigu jarðar þar sem kirkja var. Miklar heimildir eru hérlendis um kirkjur og eignir þeirra, en eignir kirkna hafa ekki verið mikið rannsakaðar. Kirkjuhúsið, prestur og allt sem kirkjunni fylgdi, kostaði peninga og til þess að hægt væri að standa undir þeim kostnaði urðu kirkjur að vera á góðum jörðum. Einnig áttu kirkjur og kirkjustaðir oft fjalllendi, jarðir, eyjar og ítök í lönd annarra jarða. 
 
Ástæðan fyrir því að kirkjur áttu fjalldali hlýtur að vera, að þeir hafa verið mikil og verðmæt eign. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að fjalllendi hafi stundum verið undir annars konar eignarrétti en aðrar eignir kirkna eins og t.d. jarðir og eyjar. 
 
  Nú verður farið yfir kröfusvæði um þjóðlendur í Dölum og gerðar athugasemdir við hvert svæði fyrir sig, en fyrst farið yfir kirknaeignir. 
 
Snóksdalur (s. 81)
 
Botn við Svínbjúg var land í eigu kirkjunnar í Snóksdal. Í inngangi í Kröfum um Hörðudal stendur: 
Líklegt er að einhver hluti þess svæðis… hafi verið innan landnáms. Hins vegar eru landnámslýsingar óljósar um afmörkun þess svæðis sem numið var. Þá er á því byggt að hafi svæðin verið numin hafi það ekki verið með þeim hætti að beinn eignarréttur hafi stofnast, heldur aðeins takmörkuð eignarréttindi, svo sem afréttarnot, eða þá að beinn eignarréttur hafi síðar fallið niður, hafi svæðin á annað borð verið numin til eignar, og svæðið tekið til takmarkaðra nota annarra. 
 
Svipaður texti er við aðrar kröfulýsingar. Hér er sagt að sumt af landi í Hörðudalshreppi og sumt af landi Snóksdals hafi verið undir beinum eignarrétti en annað ekki. Landnámslýsingar eru augljósar; Auður nam alla Suðurdali eins og segir hér í upphafi greinar. Túlkun í Kröfum á landnámslýsingum er að dalur merki að aðeins hafi verið numinn dalbotninn. 
 
Nýyrðasmíð og ný merking orða og hafa mjög einkennt þjóðlendumálin og hér er komin ný merking í orðið „dalur“, sú túlkun er gagnstæð heilbrigðri skynsemi. 
 
Orðið dalur sem landfræðilegt hlýtur að merkja allt vatnasvæði dalsins. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals er skýring á orðinu dalur: „alldjúp, aflöng lægð milli fjalla.“ 
 
Elsta heimild um að Snóksdalur hafi átt Botn hjá Svínbjúgi er talin frá 1340 (Íslenzkt fornbréfasafn. II. s. 736). 
 
Um Snóksdal segir í Jarðabók Árna og Páls (VI. 24), að hagar séu „þrönglendir“. Selstaða heyrir þar til, sem kirkjan á, á Botni við Svínbjúg; …er þó að stóru gagni, en mjög langt til.“ 
 
Þetta er eitt af mörgum dæmum um að kirkjum tilheyri land nokkuð langt í burtu, en sú eign hefur þó hlotið að vera eftirsóknarverð og arðbær. Torvelt er að skilja Kröfur s. 82, að Botn „sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda.“ 
 
Átti kirkjan ekki Botn og er hann þá ekki eignarland hennar, þótt svæðið sé ekki samliggjandi öðru landi Snóksdals? 
 
Á s. 83 stendur í Kröfum að kirkjan í Snóksdal „hafi átt þar takmörkuð réttindi í formi selstöðu.“ Er hér átt við að eignarrétturinn hafi verið takmarkaður við selstöðu, en hvernig getur selstaða takmarkað eignarréttindi? 
 
Á sömu síðu er sagt að Botn sé „landfræðilega aðskilið heimalandi kirkjunnar í Snóksdal af öðrum jörðum.“
 
Rangt er að Snóksdalur hafi verið heimaland kirkjunnar, því að í Snóksdal var eins og á Staðarfelli bændakirkja, ekki staður. Einnig má nefna, að Jón Jónsson í Hlíð sagði í sóknalýsingu Miðdalaþinga (s. 36):
 
... engin jörð á selför í annars land nema Hamraendar eiga selför í Hlíðartúnsland.“ Ekki taldi Jón að sel frá Snóksdal væri í landi annarrar jarðar. Hvaða skynsamleg rök eru þá fyrir því að fjalllendi kirkna hafi verið undir annars konar eignarrétti en aðrar fasteignir þeirra? 
 
Sauðafell (s. 93) 
 
Sauðafellsselland. Þar stendur (s. 94): 
 
„Ljóst þykir af heimildum um svæðið og landfræðilegum aðstæðum að það hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.“ 
 
Þetta er rangt. Í Íslenzku fornbréfasafni (IX. s. 240) segir: 
 
„… um ágreining … um land það, er liggr fram frá Hlíðartúni og kallað er Teigr, hvort það skylldi helldr heyra til Hamraendum eða Hlíðartúni.“ Dómsorðið er svohljóðandi: „æfenlega vera og vered hafa Hlijdartüns eign tijttnefndann Teig.“ 
 
Þarna er Teigur dæmdur eign Hlíðartúns. Jörðin Hlíðartún var eign kirkjunnar á Sauðafelli, sbr. Jarðabók Árna og Páls. VI. 33. Svæðið hefur verið undir beinum eignarrétti samkvæmt skilningi þess orðs í Kröfum. 
 
Kvennabrekka (s. 95)
 
Geldingadalur er eitt þeirra svæða úr eigu kirkna sem krafa er gerð um að verði talið þjóðlenda. Í máldaga Kvennabrekku frá 1375 stendur: 
 
„... kirkjan á selför í Geldingadal og hann allan.“ 
Í seinni landamerkjabók Dalasýslu númer 29 segir Jóhannes L. L. Jóhannsson:
„... sel og afsala sjálfseignarbóndanum Benedikt Þórðarsyni á Háafelli í Miðdalahreppi landspildu þá, sunnanvert á Geldingadal og sem tilheyrt hefur ljensjörðinni á Kvennabrekku,“
 
Ekki er skiljanlegt hvers vegna í Kröfum stendur: 
„... liggur utan landamerkjabréfa og annarra landamerkjalýsinga aðliggjandi svæða.“ 
 
Þó eru tilgreind landamerki Geldingadals í landamerkjabréfi Kvennabrekku. Hvers vegna kemur upp sá nýi skilningur að land verði að þjóðlendu ef það er aðskilið öðru landi jarðarinnar? 
Vatnshorn (s. 100)
 
Stóra-Vatnshornsmúli er nefndur í Gíslamáldögum (Íslenzkt fornbréfasafn. XV. s. 599) og þar eru landamerki tilgreind, en hann er fráskilinn öðru landi Vatnshorns. Með dagsetningunni 5. apríl 1749 er í núgildandi lagasafni „Konungsbréf (til biskups), er löggildir máldagabók Gísla biskups Jónssonar.“ Þar stendur að Gíslamáldagar skulu löggildir sem „kirkjuregistur eða máldagabók“. 
 
Undarlegt er að ekki sést vitnað til þessa ákvæðis í þjóðlendumálum. Þetta ákvæði á einnig víðar við t. d. um Geldingadal. Svæðið er skilið frá öðru landi jarðarinnar og því er sagt er að þetta „sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda.“ 
 
Stóri-Skógur (Þykkviskógur - s. 104)
 
Vatns-Þverdalur eða Þverdalur er fyrst nefndur sem eign Þykkvaskógs í bréfi frá 1427 (Íslenzkt fornbréfasafn. IV. s. 346). Jörðin er metin á 60 hundruð og byggðist hið háa mat m. a. á því að jörðin átti Þverdal. Um Vatns-Þverdal er (s. 62 og 63) vitnað í Árbók Ferðafélagsins 1997 (s. 204). Ekki er þó þaðan tekin frásögn Sturlungu af því er Vatnsfirðingar fóru 1229 − „ofan eftir hálsinum með Þverdal og ofan að auðnatúni því er að Einarsteigi heitir við Þvergil upp frá Kaldakinn.“ 
 
Orðið auðnatún bendir til þess að þegar á 13. öld hafi þarna verið eyðibýli og því snemma hafist byggð í Einarsteigi.
 
 Hér er eitt af fjölmörgum dæmum um að land hafi mjög snemma byggst til fjalla. Einnig styrkir eignarhald Stóra-Skógs í Miðdölum á Þverdal að Þverdalur tilheyrði Miðdalahreppi, en landfræðilega er hann allur innan Haukadalshrepps. Síðan kemur formúlan að Þverdalur „sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda.“
 
Hvoll (s. 108)
 
Svínadalur/Hölknárdalsheiði/Hvolssel. Kirkjustaðurinn Hvoll átti Svínadal. Hér eru vanalegar formúlur á rökstuðnings: 
 
„svæði utan eignarlanda“, „aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti“ og loks „svæðið hafi aðeins verið undirorpið takmörkuðum réttindi [svo] og aðskilið heimalandi jarðarinnar.“ 
 
Á s. 75 í Kröfum er vitnað í Þorstein Þorsteinsson í Árbók Ferðafélags Íslands 1947 um Hvolssel en í framhaldi af tilvitnun stendur:
 
„Þar á slóðum tel ég vafalaust, að bærinn Hafratindar hafi staðið ... Snorrastaðir var bær á þeim slóðum á 13. öld.“ 
 
Hér er ljóslega sama hlutdrægni og nefnd var við Flekkudal og Þverdal. Ljóst er að land Hvols á Svínadal hefur verið numið og hefur á fyrri öldum verið undir beinum eignarrétti samkvæmt „hugmyndum“ í Kröfum. 
 
Hér var farið yfir kröfur um þjóðlendur á fjalllendi í eigu alkirkna, en nú verða athugaðar kröfur um þjóðlendur í lönd bænhúsa og hálfkirkna.
 
Hrafnabjörg (s. 83) 
 
Fjalllendi Hrafnabjarga. Hrafnabjörg voru stór jörð 60 hundruð og þar var bænhús, en jörðinni var skipt í tvennt og að auki var Seljaland byggt úr landi hennar á 17. öld. Á s. 85:
 
„Engar heimildir eru um landamerki eða aðra afmörkun jarðarinnar Lauga en telja verður að líta megi svo á að Laugar séu ekki innan þess landsvæðis sem hér er gerð krafa í, sbr. fyrrgreint kaupbréf frá 1393.“ 
Hvar hefur þá bærinn Laugar verið? Ekki er hægt að finna honum stað annars staðar. Síðar stendur:
„…virðist mega ráða að í framangreindri landamerkja­lýsingu jarðarinnar Hrafnabjarga í tilvísuðu kaupbréfi hafi falist lýsing á svæði sem annars vegar er undirorpið beinum eignarrétti, og hins vegar óbeinum eignarrétti þ.e. á hinu svokallaða fjalllendi Hrafnabjarga. Landsvæðið hafi þannig vissulega verið talið tilheyra jörðinni Hrafnabjörgum, en í þeirri tilheyrslu hafi hins vegar, að mati íslenska ríkisins, einungis falist takmörkuð réttindi, þ.e. upprekstrarréttur og selstaða.“ 
 
Sel frá Hrafnabjörgum var um 1700 talið vera þar sem bærinn Laugar var. (Jón Samsonar­son. „Hörðudalshreppur.“ Breiðfirðingur. 61–62 (2003–2004). 115–116.) 
 
Af þessu er ljóst, að hluti lands Hrafnabjarga hefur samkvæmt Kröfum átt að vera undir beinum eignarrétti en annar hluti ekki. Hvernig getur svona lagað staðist? Er hér um nokkuð annað að ræða en hreina geðþóttaákvörðun?
 
Dr. Einar G. Pétursson

7 myndir:

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...