Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Landið og miðin
Lesendarýni 26. maí 2016

Landið og miðin

Höfundur: Jóhannes Geir Gíslason
Ég hefi spurt að þveranir fjarða til styttingar ferðaleiða sé fleinn í holdi norskra umhverfisverndarsinna og verið spurður um afstöðu mína til þeirra mála þar sem ég þekki til. Skal nú reynt að lýsa því að fengnum dæmum, sem komin eru.
 
Stefna sem nefnd hefur verið: „yfir firði, gegnum fjöll“, er mér að skapi, en það er hreint ekki sama hvernig farið er að, eða leiðir valdar.
 
Mannskepnan er nú einu sinni ein af tegundunum á jörðinni. Hún hefur skipulagsgáfu fram yfir flestar dýrategundir í sambúðinni og fer misvel með. Ekki skal lítið gert úr ráðdeild og hyggindum náttúrunnar.
Þveraðir hafa verið fjórir af innfjörðum Breiðafjarðar og í hyggju er að þeir verði fleiri.
 
Sumir þessara fjarða eru með berghöftum um þvert, þar er gott og traust vegarstæði. Innanvið þessi höft eru sumstaðar djúpir álar og pyttir. Hefur jafnvel verið skoðað að leggja veg þar um og er með ólíkindum.
Með ströndum þessara fjarða eru víða vogskornar fjörur lífríkar. Það sýnir fuglalíf og sýna gjöfulir staðir fyrir silunganet. Í fjarðabotnum vaðlar misstórir.
 
Þar sem vegir eru lagðir með ströndum eru víða skerðingar svona voga. Sýnist mér að stundum væri lífríkisskerðing minni með vegi þvert um vaðla. Dæmi um þetta er í Kollafirði.
 
Efni til svona þverana væri lýtaminnst að taka með gangnagerð gegn um fjöll. Fjöll eru misefnisgóð til gangnagerðar, veldur mýkt eða harka bergs, þetta held ég að nútíma tækni og þekking ráði við.
 
Göng eru dýr og því eru vegir lagðir og bættir yfir fjöll gegnum vetrarvítin sem göng mundu liggja framhjá. Þetta kostar stöðuga vinnu og kostnað við að forða slysum. Vegagerðarmenn leggja góða vegi. Kunna til verka. Göng á þessum stöðum mundu losa umferð við veðravítin (Klettsháls).
 
Vegir eru lagðir um náttúruvætti og spillt bæði þeim og sögulegum minjum um verkhyggni genginna kynslóða við að laga í lappirnar á sér miðað við aðstæður. Dæmi: Skálaneshraun.
 
Nú er harðast umdeilt og hefur lengi verið vegur um Teigskóg. Teigskógur er þó aðeins lítill hluti þess svæðis sem um er að ræða. Svæðið er alllöng hlíð, hvar með ströndinni eru vogskornar fjörur. Sögð er hún verða snjóþung ef svo háttar veðrum, en þá leysi hratt því hún snýr vel við sólinni, enda er þarna fallega gróið land séð frá sjó.
 
Um hana er auðvelt vegarstæði en mér þykir fagurt land ekki njóta sinna kosta best ef um það er komin hraðbraut.
 
Skemmdalitlir vegarslóðar bjóða betur upp á skoðun og vist. Þarna gæti orðið ágætt útivistarsvæði.
Stofnvegurinn til Vestfjarða þarf að vera hraðbraut. Til að hraðbraut standi undir nafni þarf hún að vera sem krókaminnst og ekki um hlöð eða tún þar sem mannlíf er helst blómlegt og von á búfé. Alkunn staðreynd. Þessa sjáum við dæmin á Norðurlöndum.
 
Norðmenn leggja óspart göng og ekki aðeins til að stytta leiðir heldur og til að komast framhjá snjóþyngslum.
 
Þetta var tilgangurinn með þverun Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar í Barðastrandarsýslu. Þannig var komist framhjá þekktum snjóþyngslum og lágmark skerðingar á vogskornum ströndum. Hinsvegar var óhjákvæmilegt að sprengja til efnis og valda þar landbreytingum. 
 
Gilsfjörður er gott dæmi um hvað vinnst eða tapast. Hann er nú lón hvar lítt gætir flóðs og fjöru innan stíflunnar og má af læra.
 
Stórar leirur hurfu undir lónið og var mest um talað tjón fyrir rauðbrysting á vorin. Fróðlegt er að fylgjast með þróun. Við það að Gilsfjöður var stíflaður kemur rennslið úr honum í mjórri á undan brúnni. Hætti að flæmast um þveran fjörð. Stórar fjöru mynduðust sem eru smám saman að safna á sig leir. Mestur virðist hann á flákanum við Stórholt þar sem voru einhverjar þekktustu sölvafjörur landsins áður. Leir hefur safnast á þær og rýrnar sölvafjaran. Það varð reyndar mikið af því að afrennsli Saurbæjar var þrengt og flæmist ekki lengur um sölvaflákann. Enn vantar samt mikið á að leirurnar í Gilsfirði séu endurheimtar. En sölvafjaran er óneitanlega spillt.
 
Kolgrafafjörður var þveraður með fullum vatnaskiptum. Hann hefur orðið frægur síðan fyrir síldardauða.
Hinkra má hér við. Ég hefi séð í Grundarfirði háhyrningahóp með verkfræðilegri tækni og fjársmalaverksviti smala síldinni að hafnargarðinum og standa þar að hjörðinni og éta eins og fé á jötu í þráðbeinni línu. Getur verið að háhyrningar reki síldina í Kolgrafafjörð og þaðan komist hún ekki aftur út fyrir háhyrningunum? Væri kannski skynsamlegast að slátra slatta af háhyrningum í matinn? Eru þeir komnir í óþurftarfjölgun og trufla jafnvægi náttúrunnar í skjóli af fyrirgreiðslu manna? Mennirnir eru alltaf að trufla jafnvægi náttúrunnar og standa ekki sína plikt í jafnvægisgæslunni.
 
Þá eru ónefndir Gufufjörður og Djúpifjörður sem stendur til að þvera báða um mynnið og verður væntanlega gert með fullum vatnaskiptum og e.t.v. Þorskafjörð líka við Kinnarstaði, en á þessum þremur stöðum eru grynningar og harður botn hentugt vegarstæði.
 
Þessa firði gengur ekki síld í. Svo langt gengur hún ekki í Breiðafjörð.
 
Efnið í þessa garða yrði best tekið úr göngum gegnum Hjallaháls og Skálanesfjall eða Gufudalsháls.
Þetta ráð yrði mikil stytting á hraðbraut til Vestfjarða. Göng í gegnum fjöll eru dýr og því eru þau ekki gerð ef annars er kostur. Því er lagt á fjöllin. Þeim vegum hefur líka sýnt sig að vera dýrt að halda opnum (Klettsháls).
 
Verði þetta gert held ég að fljótlega kæmi krafan um göng í gegnum Klettsháls og leiðin yfir hann og hans veðravíti verða talin sóun sem ráðist var í, í bráðræði.
 
Hraðbraut að sunnan til Vestfjarða kalla ég nú komna að Kinnarstöðum eftir því sem föng eru skárst og að vestan að Skálmarnesseiði. Reyndar er margt ógert á þeirri síðarnefndu leið. Verði leiðin sem hér hefur verið rakin farin er komin besta leiðin. Hún er dýr, en hefðu ráðamenn haft djörfung til að ákveða hana áður en ráðist var í umbætur á Klettshálsi gæti hún verið komin nokkuð áleiðis fyrir það fé sem farið er í hann á seinni árum. Að fara yfir firðina s.s. nefnt er kalla ég minni náttúruspjöll en að fara alltaf með ströndinni.
 
Þetta tekur að vonum tíma, en að vera alltaf að gera eitthvað til bráðabirgða er mjög til tafa á því besta. Bráðabirgðavegurinn yfir Ódrjúgsháls hefur nú verið farinn í 60 ár. Svo lengi sem þjóð byggir þetta land verða lagðir og bætti vegir. Vegagerðarmenn kunna til verka og hljóta að vera til ráðuneytis, en ákvörðunin pólitísk.
 
Í umræðunni um hvar vegur ætti að liggja var ein tillagan svonefnd A-leið. Hún er um Reykjanes og þveran Þorskafjörð í mynni hans. Þar er gott vegarstæði og tengist áðurnefndum vegi um Skálaneshraun. Fylgjendum þessa ráðs þótti vitlaust það fálæti sem það fékk.
 
Ég er fálætismegin og sé ókosti.
 
Að fara út fyrir Reykjanes með hraðbrautina lengir hana.
 
Fari brautin ekkert um Hallsteinsnes og Djúpafjörð dæmir byggð í Djúpadal af.
Hraðbraut spillir friði sé hún of nærri: þ.e. Reykhólar og byggðin öll á Reykjanesi.
 
Sé hún of fjarri spillir það búsetu og nýtingu lands af þveröfugum ástæðum: Djúpidalur, Þorskafjörður.
Leiðin sem ég fyrr lýsti Kinnarstaðir – Skálmarnesseiði hefur alla kosti besta nefndra möguleika aðra en stofnkostnaðinn.
 
Hvers virði er það?
 
Ég svara: Það verður ekki metið til fjár. Það er best til lengri tíma litið. Það tekur tíma, en hver ósköp af tíma eru ekki komin í rifrildið um Teigskóg?
 
Hvað kostar að kaupa upp land sem þar þarf að fara um? Dómur féll í því máli, sem ekki er vegarstæði í vil.
 
Byggðareyðing á umræddu landi við norðanverðan Breiðafjörð er þekkt.
 
Byggðareyðing = vannýting. Vannýting = vanhirða. Þetta er félagslegur vandi. Um þetta mætti hafa margfalt fleiri orð. Að mörgu er að hyggja þegar umhirðu lands ber á góma. Forvinnu þarf mikla við vegalagningu. Ef hana vantar verða slys eins og samgönguháðungarnar Vaðlaheiðargöng og Landeyjahöfn.
 
Um hvað er að fást þegar skattaundanskot eru sem svarar 1stk. Landspítali á ári.
 
Mér virðist skyldleiki með umræðu um Landspítala, samgöngu­bætur, umhirðu lands og lífríkis. Afskiptaleysi er vond stjórnarstefna sem alltof mikið er beitt.
 
Það kallast vondur bóndi sem stærri bústofn hefur en hann getur fóðrað sómasamlega, það er ekki látið afskiptalaust. Ég kalla það vonda sjávarútvegsstefnu að láta hvali fjölga sér óhindrað. (Háhyrningar, hnúfubakar.) Nær væri að slátra af þeim stofnum og nýta til manneldis. Maðurinn er að fljúgast á við þá um ætið í fæðukeðjunni, hvort sem hún er lengri eða skemmri. Nær væri að halda þeim stofnum við sleitur fremur en að láta þá fjölga sér úr hófi. Hvalaskoðun er atvinna og stjórnendur á verði.
 
Væri það fráleitt að fræða hnýsna og fróðleiksfúsa gesti um gagnsemi þeirra fremur en að líta bara á þá sem leikföng? Mat sinn vilja bæði menn og hvalir án refja. Sama er um graslendið. Mikið er fárast um ofbeit og það réttilega. Minna er talað um vanbeit og nýtingu graslendis þar sem byggðir hafa eyðst.
Þar er víða komin óaðgengileg gróðurþvæla, sem betur færi á að væri nýtt. Góðir vegir mundu auðvelda það.
 
Tófur fjölga sér óáreittar, það svarar ekki kostnaði að halda aftur af henni með fækkun. Fávís kaupstaðabúinn virðist halda að hún éti ekki annað en sauðkindur og stendur á sama þó: „Raddir vorsins þagni“.
 
Þeir sem vit hafa á og þekkja, hafa spurt: „Hvers virði er fuglasöngurinn, miðað við það sem var?“ Það er margt sem ekki verður verðlagt. Þeir sem þekkja áorðna breytingu finna það.
 
Þar sem fuglalíf dalar vegna ætisskorts telja menn best að setja meira á í stað þess að slátra svolítið. Léleg búmennska það. Það skyldi nú vera að hvalurinn eigi þátt í þeim ætisskorti. 
 
Staðreynd er að breiðfiski landselsstofninn er hruninn. Sá húnvetnski er á niðurleið.
 
Upphaf hrunsins varð þegar náttúrufirrtir náttúruunnendur gerðu með málflutningshernaði árás á selveiðar á norðurslóðum. Trúlega voru þeir studdir af samkeppnisiðnaði.
 
Til samanburðar: Hvernig færi fyrir landinu og sauðfénu ef við hættum að smala?
 
Söluvaran af selnum (skinnin) verðféll og hefðbundnar veiðar lögðust af. Stórtækari veiðar tóku við að drepa hann og nytjar og umhirða lögðust af.
 
Hlýnun sjávar og breytt lífríki þess vegna á vafalaust þátt í þessu og margur dómur um orsakir þess hefur fallið og er ekki mannskepnunni í vil.
 
Mannskepnan er nú einu sinni ein af tegundunum á jörðinni. Hún hefur skipulagsgáfu fram yfir flestar dýrategundir í sambúðinni og fer misvel með. Ekki skal lítið gert úr ráðdeild og hyggindum náttúrunnar.
 
Jóhannes Geir Gíslason, 
fyrrv. bóndi í Skáleyjum 
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...