Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Leifur 02-900 frá Leifsstöðum í Axafirði. Litur er rakinn til forystufjár Þórðar Benjamínssonar kenndum við Víkingavatn. Í hrútaskrá er Leifur sagður svartbaugóttur. Fyrir norðan þekkist að þessi litur sé kallaður íglótt. Getum er leitt að því að mögulega sé hér um tvílit að ræða sem bundin sé við forystufé.
Leifur 02-900 frá Leifsstöðum í Axafirði. Litur er rakinn til forystufjár Þórðar Benjamínssonar kenndum við Víkingavatn. Í hrútaskrá er Leifur sagður svartbaugóttur. Fyrir norðan þekkist að þessi litur sé kallaður íglótt. Getum er leitt að því að mögulega sé hér um tvílit að ræða sem bundin sé við forystufé.
Lesendarýni 3. apríl 2023

Litaerfðir tengdar A1 samsætunni

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamaður.

Enn skal haldið áfram rabbi um erfðafræði útlitseinkenna hjá sauðfé. Þetta byrjaði ég með tilvísun til ákaflega athyglisverðrar yfirlitsgreinar, „Genetics of the phenotypic evolution in sheep: a molecular look at diversity-driving genes“, í hinu þekkta búfjárkynbótariti Genetics Selection Evoluton. Í þessari og næstu greinum vík ég hins vegar alveg frá yfirlitsgreininni góðu.

Höfundar greinarinnar virðast ekkert þekkja til rannsókna á litaerfðum hjá íslensku sauðfé, sem augljóslega hljóta að eiga að vera snar þáttur í umfjöllun um þetta efni á íslensku. Þar ber að sjálfsögðu hæst rannsóknir Stefáns Aðalsteinssonar, doktorsritgerðar hans auk aragrúa yfirlits- og vísindagreina um efnið. Ég bý þar betur en aðrir að hafa aðgang að einstakri samantekt hans um efnið sem ég nefni í síðustu grein. Einnig nefni ég aftur hina frábæru yfirlitsgrein Emmu Eyþórsdóttur og samstarfsmanna sem ég vísa líka til í síðustu grein.

Hvernig áfram skyldi haldið vafðist aðeins fyrir mér. Niðurstaða mín varð að fjalla áfram um efnið út frá því sem tengja mætti hverjum og einum erfðavísi í þeim þrem sætum sem Stefán skilgreindi fyrstur í ritgerð sinni. Áður en ég byrja þannig eru samt tvo atriði sem ég vil aðeins ræða.

Litir hjá forystufé

Það fyrra er að á Íslandi eru tvö fjárkyn. Annað er íslenska féð sem er nánast ráðandi að fjölda. Hins vegar er forystuféð sem er einstakt í heiminum og að mínu viti merkilegasta erfðaauðlind sem við eigum hjá íslensku búfé.

Forystuféð er mjög frábrugðið íslenska sauðfjárkyninu að litum. Meginhluti forystufjár er með öðrum litum en hvítum. Áruð 2015 birti ég ásamt nokkrum samstarfsmönnum grein um rannsóknir á þessum sérstaka fjárstofni í Náttúrufræðingnum. Þar var unnið með upplýsingar um nánast allt forystufé sem til var í landinu sem reyndist þá (2009) vera tæplega 1500 vetrarfóðraðir gripir. Þar geta lesendur kynnt sér fjölbreyttar upplýsingar um forystufjárstofninn og byggir það sem hér á eftir verður sagt á þeim niðurstöðum.
Alla grunnliti er að finna hjá þessu fé, hvítt mjög sjaldgæft og mögulega aðeins dæmi um innblöndun frá íslenska fénu, grátt frekar sjaldséð en mórautt mun algengara en hjá íslenska fénu og það er að stórum hluta tvílitt. Tilraun til að meta tíðni einstakra litaerfðavísa má lesa í greininni.

Ekki hafa verið gerðar aðrar rannsóknir hérlendis á þessu efni en þessar. Vegna þess hve stofninn er lítill er mögulegt að umtalsverðar breytingar geti orðið á ýmsum útlitseinkennum á skömmum tíma.

Ekki verða færðar neinar sönnur á að hjá forystufé megi finna aðra litaerfðavísa en hjá íslenska fénu en í greininni er sagt frá tvílitaafbrigði sem finnst aðallega á aðalræktunarsvæði forystufjár í Norður-Þingeyjarsýslu og gengur liturinn þar undir heitinu íglótt (greinilega dregið af eyglótt) og má lýsa sem nær hvítu fé með örlítinn dökkan lit um augnkróka. Besta dæmi um þennan lit var forystuhrúturinn Leifur 02-900 sem notaður var fyrir tæpum tveim áratugum. Hann átti enn afkvæmi á lífi þegar rannsóknin fór fram og eigendur flokkuðu sem hvít en kom í ljós við frekari skoðun að báru þennan sjaldgæfa lit og voru því tvílit en ekki hvít. Ég minnist þess aldrei að hafa séð nema forystufé með þetta litaafbrigði hér á landi, sem auðvita sannar ekkert. Aðeins eitt fjölmargra dæmi um litaafbrigði hjá fé hér á landi em forvitnilegt væri að rannsakað væri nánar. Margt fleira mætt segja um liti hjá forystufé en þeim sem vilja skoða þau mál frekar er vísað á áðurnefnda grein. Mér vitanlega hafa ekki birst neinar frekari rannsóknir á þessum málum þó að í skýrsluhaldinu hafi verið tekin upp aðgreining á forystufé sem ætti að auðvelda birtingu á margháttaðri tölfræði um það, m.a. um þróun lita.

Vinna þarf betri tölfræði um þróun lita sauðfjár á Íslandi

Þetta beinir sjónum að hinu almenna atriðinu sem ástæða er til að ræða aðeins áður en farið er að fjalla um einstök litagen. Það er alger vannýting á þeim gríðarmiklu upplýsingum um litarerfðir og möguleg áhrif þeirra á aðra eiginleika sem geymd eru í skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna. Þarna eru litaskráningar á meginhluta bæði lamba og fullorðins fjár sem þar eru skráð. Þetta hefur sýnt sig að vera gullnáma til slíkra rannsókna í þeim fáu tilvikum sem við þeim hefur verið hreyft til slíkra hluta enda er þetta skráningakerfi byggt á þeim grunni sem Stefán Aðalsteinsson byggði upp á sínum tíma en grunnurinn þar er skráning á lit unglamba. Hann byggði sínar margnefndu rannsóknir á slíkum skráningum og í doktorsritgerðinni aðeins fyrir innan við 20 þúsund einstaklinga. Með margs konar síum gagnanna er ég sannfærður um að auðvelt er að byggja upp gagnagrunn sem lítt gæfi eftir að gæðum hans gögnum en væri margfaldur að umfangi þannig að mögulegt væri að vinna þarna jafnvel ekki síðri vísindarannsóknir á litaerfðum hjá íslensku sauðfé en hann gerði á sínum tíma aðeins byggt á þerri kunnáttu sem hann bókfesti þá.

Í þessum efnum hafa aðeins verið unnar fátæklegar rannsóknir á tíðni einstakra lita. Ég gerði slíka rannsókn á lömbum í fjárræktarfélögunum fyrir mörgum áratugum á tíðni einstakra lita. Matreiddi síðan nokkrum árum síðar heilmikið af slíkum upplýsingum fyrir Halldór Eiðsson sem þá var í framhaldsverkefni við HÍ en afrakstur þeirrar vinnu sá ég aldrei. Langbitastæðastar eru ýmsar rannsóknir sem Emma Eyþórsdóttir hefur unnið með nemendum sínum og samstarfsfólki við LbhÍ. Mest af þessum rannsóknum hafa verið einskorðaðar við tíðni lita og litaafbrigða.

Síðar mun ég ef til vill víkja að rannsóknum sem íslenskur bóndi gerði fyrir mörgum áratugum á gögnum úr fjárbók sinni um áhrif mismunandi lita á frjósemi ánna. Þetta sýnir okkur að gögnin þurfa ekki endilega að vera merkileg að flestra mati ef unnið er úr þeim með snefil af kunnáttu og skynsemi. Þarna er bent á gullnámu um liti og litaafbrigði sem þekking verður vonandi grafin úr á komandi árum.

Örfá almenn atriði tengd A1 geninu

Snúum okkur þá að umfjöllun um fyrsta genið A1 sem er ríkjandi gen hjá sauðfé og gefur okkur hvítan eða gulan lit. Þetta er það gen sem hefur langsamlega hæsta tíðni allra litagena hjá íslensku sauðfé. Samkvæmt nýjustu tölum sem finna má í grein Emmu og samstarfsmanna voru 2020 78,5% ánna í fjárræktarfélögunum hvítar og virðist þetta hlutfall hafa farið hratt lækkandi á síðustu árum. Ég mun hafa fundið að um 84% lambanna sem fæddust á búum úr skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna 1976 hafa verið hvít og samkvæmt áðurnefndri grein Emmu var þetta hlutfall um 85% hjá ánum í fjárræktarfélögunum um aldamót og það fer ekki lækkandi fyrr en á allra síðustu árum.

Skýring Emmu og félaga á að þessa breytingu megi rekja til fækkunar á fé á síðustu árum verð ég hins vegar að lýsa mig algerlega ósammála. Þar held ég að skýringuna sé augljóslega að finna í því að gæði hrútanna á sæðingastöðvunum sem eru dökkir eða erfa dökka liti hafa stökkbreyst á síðustu árum og er nú svo komið að bestu hrútar stöðvanna eru dökkir hrútar. Það eru þessir hrútar sem alveg stýra þessari þróun. Þar um þori ég að leggja að veði þekkingu mína á sauðfjárrækt um allt land á móti hugdettum þeirra um fækkunaráhrif. Þau raunar birta í sinni grein skýrar vísbendingar í þessa átt með að nefna áhrif Grábotna 06-833 á tíðni botnótta litarins. Grábotni erfði einnig gráan lit og synir hans eins og Dreki 13-953 sem fengu þann föðurarf hafa nánast orðið jafningjar föður síns sem yfirburðagripir til kynbóta. Þessir hrútar af fjölbreyttum uppruna skipta hins vegar orðið tugum bara á síðasta áratug og það eru þeir sem stýra þróuninni.

Gils 13-976 á Klukkufelli í Reykhólasveit en stöðvarnar sóttu að Þúfnavöllum í Hörgárdal. Glæsilegur fulltrúi forystufjár eins og það verður tignarlegast, sagður svartblesuflekkóttur að lit í hrútaskrá.

Litaeinkenni hjá íslenskum fjárstofnum

Þessari umræðu vil ég að þessu sinni ljúka með umræðu um útlitseinkenni sem tengjast kynjaeinkennum hjá sauðfé sem ég tel eðlilegast að tengjast erfðum hvíta litarins. Ég mun geyma til næstu greinar smá umfjöllun um einkenni erlendra fjárkynja en hér ræða slík einkenni í íslenskri sauðfjárrækt.

Þegar þeir bræður Hallgrímur og Jón Þorbergssynir hefja umræðu um sauðfjárkynbætur hér á landi snemma á síðustu öld lögðu þeir mikla áherslu á að bændur mótuðu sér skýra stefnu um slík útlitseinkenni fjárins sem þeir ætluðu að rækta. Stefna bæri að því að allt fé yrði fagurgult á haus og fótum, mætti líka vera kolótt og þá frekar blá- en svartkolótt. Lýstu um leið mikilli andúð á hreinhvítu og tvílitu fé. Það fé sem væri dökkt ætti að vera einlitt.

Langbesta dæmi um slíka ræktun var fé Jóns sjálfs á Laxamýri og kennt við bæinn báðum megin við fjárskiptin á svæðinu laust fyrir miðja síðustu öld. Úr þekktum lýsingum Halldórs Pálssonar frá því um miðja síðustu öld má ráða að blákolóttir glæsigripir voru mun algengari en nú má sjá. Síðasti gripurinn sem ég tengi Halldóri í þessu samhengi var djásn hans frá Hesti, Angi 68-875. Öll þannig einkenni úr einstökum hjörðum hafa horfið á síðustu áratugum samfara þeim útlitshrærigrauti sem fylgt hefur sæðingastöðvahrútum síðustu áratuga. Ég tel mig hafa náð síðustu hjörðum með slík sterkt mótuð útlitseinkenni þegar ég var að byrja flakk mitt til fjárbúa um allt land fyrir mörgum áratugum. Féð í Holti í Þistilfirði er mér þar eftirminnilegast.

Möðrudalsféð – Kvískerjaféð – Öræfaféð

Lokaþátturinn að þessu sinni skal verða smá umfjöllun um gamla Öræfaféð og þá sérstaklega fé kennt við Kvísker. Sagnir eru um að seint á átjándu öld eða snemma á þeirri nítjándu hafi komið að Möðrudal á Fjöllum hrútur af Svarthöfðafé frá Skotlandi. Hann mótaði fé í Möðrudal sterkt með svartkolóttum andlitslit. Þannig fé lýsir Halldór Pálsson síðast þar á bæ laust fyrr 1960. Árið 1911 kemur fyrsti hrútur frá Möðrudal í Austur-Skaftafellssýslu að Hólum í Hornafirði og munu honum og öðrum sem fylgdu í kjölfarið hafa fylgt þessi greinilegu einkenni.

Frá Hólum fóru hrútar að Kvískerjum í Öræfum á þriðja áratug síðustu aldar áður en sveitinni var lokað fyrir innflutningi á lifandi fé sem Öræfingar góðu heilli hafa staðið vörð um til dagsins í dag en einkenni kolótta litarins fylgdu. Brátt mun allt Kvískerjaféð hafa verð mótað af þessum útlitseinkennum. Það dreifðist mjög innansveitar og austur um Suðursveit og Mýrar og fylgdu einkennin oftast í kaupbæti með hrútunum. Ég hef áður sagt á prenti að Kvískerjaféð varð til takmarkaðra kynbóta þar sem það kom og löngu nánast horfið úr stofninum í þessum sveitum og öll þess einkenni. Síðasta grip frá Kvískerjum með greinileg litareinkenni sá ég upp á Jökuldal um aldamót og má þannig segja að einkennin frá Möðrudal voru nánast komin til baka hringinn en hafði tekið um tvær aldir. Taldi bóndinn sig hafa keypt hrútinn til kynbóta en hafði greinilega keypt köttinn í sekknum enda Kvískerjaféð þá löngu úrkynjað m.a. vegna óhóflegrar skyldleikaræktar. Ég hef áður greint frá lokum einkennisins hjá fé í Möðrudal. Í eina skipti sem ég sá hrúta frá Hólum laust eftir 1980 mátti enn sjá greinileg litareinkenni en það fé var þá löngu komið úr allri ræktun. Áhrifin munu með öllu horfin í Öræfum enda fé þar í sveit meira mótað af sæðingum en líklega í nokkurri sveit hér á landi. Ómetanleg varúð Öræfinga við ræktun á sínu fé hefur komið mörgum bændum á fjárskiptasvæðum vegna riðuveiki að ómetanlegu gagni ásamt mörgum fleiri á síðustu áratugum.

Læt þessu lokið en í næstu grein mun fram haldið að spjalla um áhrif á litareinkenni hjá íslensku fé eftir blöndun við erlend sauðfjárkyn.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...