Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson.
Lesendarýni 18. janúar 2019

Nýtt „landbúnaðar- og matvælaráðuneyti“ og ný Bændasamtök

Höfundur: Guðni Ágústsson
Árið 2007 var framið hryðjuverk á landbúnaðarráðuneytinu.  það var höggvið í spað, fyrirgefið orðavalið en ég hef sagt þetta oft áður og er staðreynd.  Þetta gerðu stjórnmálamenn í vanhugsun sinni eða til að huga að inngöngu í ESB.  Og áfram var haldið 2009 þegar fyrir lá að sækja átti um aðild að ESB með braki og bramli við Jón blessaðan Bjarnason ráðherra sem var á endanum settur af að kröfu heilagrar Jóhönnu. Síðar var gengið að kröfum ESB um að  gelda Bændasamtökin fjárhagslega.  
 
Nú er hún Snorrabúð stekkur og landbúnaðarráðuneytið aðeins til að nafninu í ógnar stórri hít sem snýst um allt önnur verkefni. Því er full þörf fyrir alla vini landbúnaðarins að snúa vörn í sókn. Landbúnaðurinn er enn vinsælasta atvinnugrein á Íslandi og jafn mikilvæg og við upphaf byggðar. Ekkert síður vinsæl á höfuðborgarsvæðinu en í landsbyggðunum.  Engin ríkisstjórn hefur síðan reynt að snúa ofan af vitleysunni, þó hafa átta ráðherrar gegnt starfi landbúnaðarráðherra frá 2007 á sl. ellefu árum. Landbúnaðarráðuneytið er ekki til undir feldi embættismanna atvinnuvegaráðuneytisins og allir sérfræðingar í landbúnaði horfnir á braut, nema vinur minn Sigurgeir Þorgeirsson sem sinnir feitum makríl. Tolla- og búvörusamningar eru lifandi dæmi um hvernig komið er.  Nú síðast var starfskröftum Ernu Bjarnadóttur hafnað sem sannar að sérþekking er ekki á dagskrá ráðuneytisins og verkefni Ólafs Friðrikssonar sett í alþjóðlega deild, búvörusamningar og tollamál.  Erna er vel menntuð og mjög fær um allt sem snýr að landbúnaði. Hennar starfskröftum var ekki hægt að hafna nema með klækjum. Nú eiga stuðningsmenn og vinir landbúnaðarins aðeins tvo kosti eins og mál eru að þróast, að stofna annaðhvort grasrótarhreyfingu eða stjórnmálaflokk, sem er síðri kostur. Betra er að vinna með þeim flokkum sem eru starfandi og skera upp herör til varnar bændum og sveitum landsins og landbúnaðarvörum okkar. Þær eru hreinustu og heilnæmustu landbúnaðarafurðir í allri veröldinni.  Það byggir á einstaklega heilbrigðu búfé, óspilltum jarðvegi, kaldavatnsauðlind sem engin önnur þjóð á sambærilega og tiltölulega kaldri veðráttu sem á sinn hátt er auðlind. Það vex eingöngu hreint upp úr hreinu.  Verði þetta skemmt einu sinni  er aldrei hægt að lagfæra það.  Öllu þessu verður að gæta að og varðveita sem augastein sinn.
  
Hvernig landbúnaðarráðuneyti? Hvernig Bændasamtök?
 
Hvað þarf að gerast? Landbúnaðar­ráðuneytið verður að rísa á ný með sérfróðu fólki svo rödd þessa grundvallaratvinnuvegar sé til í stjórnarráðinu og þar með þarf að huga að matvælaráðuneyti.  Landbúnaðar- og matvælaráðuneyti og jafnvel með t.d. byggðamálum.  Þjóð verður þjóð ef m.a. gætt er að undirstöðu þess að vera sjálfbær um að skaffa sér frumþarfir sínar.  Það verður heldur ekki skilið frá forsendum búsetu í landinu.  Landbúnaður kafnar í ráðuneyti með hinum stóra en mikilvæga og umdeilda sjávarútvegi.  Bændasamtökin og félagsleg hreyfing bænda er sundruð, fjárvana og veikburða. Horfa ber til sterkrar félagsheildar – einn fyrir alla og allir fyrir einn.  
 
Ég gagnrýni ekki einn einasta forystumann í BÍ eða búgreinafélögum, en staðan og sundrungin bera í sér að sóknin er veik.  Það er vilji, sókn, samstaða og sannfæring sem slík heildarsamtök verða að hafa að leiðarljósi. Því verða bændur að endurskipuleggja sín félagsmál. Hyggilegt væri að horfa t.d. til sjávarútvegsins sem aflagði LÍÚ en stofnaði Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Forystumenn í sjávarúvegi sögðu einfaldlega þetta: 
 
„Samtök landbúnaðarins“  
 
„Það felast mikil tækifæri í því fyrir sjávarútveginn að sameina fyrirtæki sem starfa að veiðum, vinnslu, sölu og markaðssetningu sjávarafurða í ein, öflug samtök. Sambærilegt væri „Samtök landbúnaðarins“. Jafnvel enn meiri þörf, smæðarinnar vegna?   
 
Að þessari hreyfingu kæmi nýtt árlegt þing landbúnaðar (Landbúnaðarþing) og ný stjórn Samtaka landbúnaðarins yrði kosin þar. Að þessum nýju samtökum stæðu öll búgreinafélög, búnaðarsambönd, afurðastöðvar í mjólk og kjöti, framleiðslu- og pökkunarfyrirtæki í grænmeti, RML og grasrótarhreyfingar í landbúnaði.  Búnaðarstofa einnig sem er staðsett undir MAST með öll sín verkefni, sjálft gamla Búnaðarfélagið, nú staðsett í MAST, stangast trúlega á við lög og stjórnarskrá. Þetta tvennt, nýtt ráðuneyti með þekkingu og ábyrgð í stjórnarráði landsins og endurskipulögð félagsleg hreyfing landbúnaðarins eru mikilvæg grundvallaratriði.
 
Allir þeir sem ábyrgð bera á matvæla- og landbúnaðarframleiðslu ættu með þessu fulltrúa á nýju Landbúnaðarþingi og ný stjórn Samtaka landbúnaðarins væri kosin af öllum hagsmunaaðilum á ársþingi. 
Það er landbúnaðinum lífs­nauðsynlegt að ná vopnum sínum til þess að hann öðlist  burði til þess að standa vörð um grunnstoðir matvælaframleiðslu, sem er ein af frumþörfum okkar, ekki síður en húsaskjól og klæði. Það má margt læra af Norðmönnum um hvernig þeir halda utan um sína landbúnaðarauðlind í stjórnarráði og félagsskap bænda.
 
Bið bæði bændur og stjórnmálamenn að hugsa málið en það þolir enga bið. Besta vörnin er fólgin í sókn og flestir landsmenn vilja standa með ykkur, bændur, matvaranna vegna ekki síst, og að þið rekið heilnæman búskap með fjölskyldufólki ykkar.
 
Guðni Ágústsson,
fyrrum landbúnaðarráðherra
Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...