Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ögurstund
Mynd / BBL
Lesendarýni 23. október 2018

Ögurstund

Höfundur: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður Miðflokksins
Nú er ögurstund hjá íslenskum landbúnaði og innlendri matvælaframleiðslu. Atvinnugrein sem hefur í meira en 1.100 ár byggt upp landið og haldið lífi í þjóðinni stendur frammi fyrir stórkostlegri ógn. Ef ekki verður brugðist við núna er hætta á að eyðileggjandi keðjuverkun færist í aukana. Afleiðingarnar yrðu slíkar að erfitt yrði að ráða á því bót. 
 
Að minnsta kosti er ljóst að það yrði mun dýrara fyrir samfélagið að reyna að bæta úr stöðunni síðar fremur en að grípa til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð. Það er líka ljóst að þær hremmingar sem fólk sem hefur helgað líf sitt því að rækta landið gætu upplifað yrðu aldrei bættar, jafnvel þótt samfélagið kynni síðar að sjá eftir því hvernig fór og átta sig á mistökunum.
 
Greinin sem bjargaði landinu
 
Það er kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og við minnumst þess að áratugur sé liðinn frá efnahagshruninu og við blasir ótrúlegur viðsnúningur í efnahagsmálum skuli mikilvægi þessarar undirstöðugreinar íslensks samfélags ekki vera virt og metið að verðleikum. Nú eru liðin 10 ár frá því að Ísland rambaði á barmi gjaldþrots. Raunveruleg hætta var á að við gætum ekki flutt inn nauðsynleg lyf og eldsneyti. Ef ekki hefði verið fyrir þann stórkostlega gjaldeyrissparnað sem innlend matvælaframleiðsla tryggir okkur hefðum við tapað þeim slag og ómögulegt er að segja hvaða hremmingar það hefði leitt yfir þjóðina og hversu langan tíma hefði tekið okkur að vinna úr afleiðingunum.
 
Bætt kjör allra nema bænda
 
Undanfarin ár hefur kaupmáttur allra stétta á Íslandi aukist til mikilla muna, allra stétta nema einnar. Bændur hafa setið eftir og verið afskiptir. Ekki nóg með það heldur birtist í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sú nöturlega framtíðarsýn að eini hópurinn sem ekki geti átt von á kjarabótum séu bændur. Gert er ráð fyrir stiglækkandi framlögum til landbúnaðar ár eftir ár á meðan útgjöld vegna allrar annarrar þjónustu sem ríkið kaupir fara hækkandi.
 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson..
Samanburðurinn við kjaraþróun annarra hópa er sláandi og það er óhugnanlegt að sjá að jafnvel forystumenn launþegasamtaka skuli hvetja til þess að kjör bænda verði rýrð enn frekar. ASÍ berst eðlilega af hörku fyrir því að ekki eigi sér stað undirboð á vinnumarkaði. Þeir sem ráða útlendinga til starfa eiga að tryggja að þeir njóti sömu réttinda og kjara, búi við sömu skilyrði og sömu kvaðir á atvinnurekendur og Íslendingar. Á sama tíma er krafa um að íslenskir bændur uppfylli allar þær nýju kvaðir sem á þá eru lagðar en keppi við vinnuafl í öðrum löndum. Vinnuafl sem þiggur í mörgum tilvikum smánarlaun fyrir störf í verksmiðjubúum sem uppfylla ekki þær ströngu kröfur sem gerðar eru til íslenskra bænda. Í ýmsum þessara landa eru dýrasjúkdómar og sýklalyfjagjöf regla frekar en undantekning.
 
Hvað myndi forseti ASÍ segja við því ef bændur færu að krefjast þess að þeir fengju að flytja inn ódýrt vinnuafl sem ekki ætti að njóta sömu kjara og vinnuverndar og tíðkast á Íslandi? Hvað ef þeir myndu svo tala um að það þyrfti að hverfa frá gæðakröfum enda væri það mikið hagsmunamál neytenda að fá sem ódýrasta fjöldaframleidda vöru? Ætli viðbrögðin yrðu ekki einhver? Hvernig stendur þá á því að sama fólk ætlast til þess að ein stétt samfélagsins, bændur, séu í beinni samkeppni við erlent verkafólk sem nýtur ekki lágmarkskjara og verndar?
 
Verðmæti landbúnaðar
 
Á þessari ögurstundu verða íslensk stjórnvöld að meta störf bænda og annarra sem starfa í innlendri matvælaframleiðslu að verðleikum. Öflugur landbúnaður er forsenda þess að okkur takist að viðhalda byggð í landinu öllu. Tjónið sem hlytist af því, beint og óbeint, að svíkja greinina nú yrði margfalt meira en hugsanlegur kostnaður við aðgerðir sem geta tryggt öflugan íslenskan landbúnað til framtíðar.
 
Stjórnvöld tala jafnan um framlög til hinna ýmsu málaflokka sem hlutfall af landsframleiðslu. Þannig sagði fjármálaráðherra nýverið að báknið væri ekki að stækka þrátt fyrir stóraukin framlög í báknið vegna þess að þau væru ekki að aukast sem hlutfall af landsframleiðslu. Nú rennur aðeins sem nemur 0,5% af landsframleiðslu í það gríðarlega mikilvæga hlutverk að framleiða innlend matvæli og viðhalda með því byggðunum. Það er u.þ.b. einn áttundi af því sem það var fyrir 30 árum. 
 
Ástandið nú kallar á aukin framlög til landbúnaðarmála. Fyrst í formi björgunaraðgerða við afgreiðslu fjárlaga og svo til að byggja upp greinina til framtíðar. Ríkið hefur svo sannarlega efni á því eftir vel heppnaðar efnahagsaðgerðir undanfarinna ára. Aðgerðir sem óvíst er að hefðu verið mögulegar nema vegna þess að landbúnaðurinn gerði okkur kleift að verja efnahagslegt fullveldi landsins. Ríkið hefur hins vegar ekki efni á er að láta þessa grein lenda í spíral sem erfitt eða ómögulegt verður að komast út úr. Af því hlytist ómælt tjón fyrir byggðir landsins og samfélagið allt.
 
Sóknarfærin eru til staðar
 
Ég mun halda áfram að ræða við sérfræðingana, þ.e. bændur sjálfa, um hvernig við getum best byggt upp til framtíðar. Nú þegar er ég sannfærður um að það sé hægt, bæði á grundvelli núverandi framleiðslu en einnig með nýjum áherslum. Jón Bernódusson fagstjóri hjá Samgöngustofu nefndi t.d. nýverið í útvarpsviðtali að við gætum hæglega ræktað næga repjuolíu til að knýja allan íslenska fiskiskipaflotann. Um leið værum við að skila gríðarlega jákvæðum umhverfisáhrifum og ýmsum hliðarafurðum á borð við kjarngott dýrafóður og matvæli.
 
Auk þess eru mikil sóknarfæri í skógrækt og landgræðslu svo framarlega sem staðið verður við áratugargömul fyrirheit um að fá bændur með í þá vinnu. Þess í stað er nú verið að moka ofan í skurði til að breyta ræktarlandi í ónýtar mýrar. Árangurinn af því er í besta falli óljós eins og komið hefur fram í þessu blaði. Í raun bendir margt til þess að með þessum aðgerðum sé verið að vinna umhverfistjón.
 
Á kreppuárunum voru menn stundum ráðnir í atvinnubótavinnu við að grafa skurði. Nú á góðæristímum eru menn ráðnir við að moka ofan í skurði og eyðileggja vinnu fyrri kynslóða og ræktunarmöguleika framtíðarinnar.
 
Hvatning
 
Oft hef ég nefnt að eitt af því sem ég sá helst eftir við að ríkisstjórn minni skyldi ekki endast þol til að klára verkefni sín hafi verið að ekki hafi gefist tækifæri til að skila árangrinum til þeirra sem bjuggu hann til og byggja upp samfélagið til framtíðar. Það á ekki hvað síst við um undirstöðuatvinnugrein landsins. Atvinnugrein sem bjó til þetta samfélag og berst nú fyrir lífi sínu.
 
Ég heiti því að ég og bandamenn mínir munum berjast með íslenskum landbúnaði og hvet bændur landsins til að láta í sér heyra. Þeir eiga það svo sannarlega inni að greinin sem byggði upp landið njóti stuðnings í stað viðvarandi aðfarar.
 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður Miðflokksins
Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...