Starfsskilyrði landbúnaðarins, tollvernd og beinir styrkir
Á undanförnum árum hefur starfsumhverfi landbúnaðarins tekið ýmsum breytingum. Sífellt er leitað leiða til að samræma þar ýmis sjónarmið sem stundum stangast líka á innbyrðis. Í þessari grein verður fjallað um hvernig ESB og Noregur standa vaktina í hagsmunagæslu fyrir framleiðendur landbúnaðarvara til að tryggja framleiðslu þeirra.
Hvað gerir ESB til að tryggja framleiðslu?
ESB greiðir stóran hluta stuðnings síns til bænda í formi styrkja sem ekki eru skilyrtir framleiðslu tiltekinna afurða. Af hverju framleiða þá bændur innan ESB landbúnaðarafurðir? Jú, af því að verð á þeim er nógu hátt (þ.e. yfir breytilegum einingarkostnaði) til að það borgi sig að framleiða. Það skyldi þó aldrei vera þannig að m.a. tollverndin sé stillt af þannig að verð til bænda verði að minnsta kosti nógu hátt til að framleiðsluviljinn haldist? M.ö.o. að markaðsverðið sé hærra en breytilegur einingarkostnaður.
Hvað gerir Noregur gagnvart ESB varðandi EES-samninginn?
Í grein sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda ritaði ný-verið í Kjarnanum (sjá nánar hér: https://kjarninn.is/skodun/2021-01-07-tollar-vernd-og-vorn/) gerir hann 19. gr. EES-samningsins að umtalsefni, en ákveður að taka einungis hluta hennar upp í grein sína. Sá hluti sem hann vitnar til (2. mgr. 19. gr.) er svohljóðandi:
„Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.“
Af einhverjum ástæðum kýs hann að vitna aðeins til þessarar 2. mgr. 19. gr. en ekki til annarra hluta þessarar 19. gr. EES-samningsins. Í 4. mgr. sömu greinar (þ.e. 19. gr.) segir til að mynda:
Samningsaðilar munu, í ljósi þeirra niðurstaðna sem fást af þessari endurskoðun, innan ramma landbúnaðarstefnu hvers um sig [...], ákveða, innan ramma samnings þessa, á grundvelli fríðinda, með tvíhliða eða marghliða hætti og með gagnkvæmu samkomulagi sem er hagstætt hverjum aðila, frekara afnám hvers kyns viðskiptahindrana í landbúnaði...“ (undirstrikanir og feitletranir greinarhöfundar)
Samkvæmt þessu ákvæði EES-samningsins ráða Ísland og Noregur hvort og að hvaða marki vernd fyrir innlendan landbúnað er til staðar þegar það kemur að innflutningi evrópskra landbúnaðarvara. Fyrrnefnd tilvísun í 19. gr nær einungis eins hluta 19. gr. og gefur því ranga mynd af inntaki og eðli 19. gr. EES-samningsins. Greinarnar þarf að lesa í samhengi eins og gjarnan er gert í góðri lögfræði.
Sú spurning er vægast sagt áleitin af hverju íslensk stjórnvöld hafa gengið mun lengra í opnun á innflutningi fyrir evrópskar landbúnaðarvörur en norsk stjórnvöld hafa gert. Skýrsla utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarsamningur Íslands og Evrópusambandsins, úttekt á hagsmunum Íslands, sem út í desember 2020 staðfestir að mikið hallar á íslenskan landbúnað gagnvart ESB í þeim viðskiptum.
Norsk stjórnvöld hafa fyrir löngu áttað sig á þessari stöðu og hafa tekið tillit til hennar í hagsmunagæslu sinni. Í samningaviðræðum Noregs og ESB þann 14. nóvember 2019 skoraði ESB á norsk stjórnvöld að auka innflutning evrópskra landbúnaðarvara til Noregs með vísan til 2. mgr. 19. gr. EES-samningsins. Norska sendinefndin hafnaði þessu með vísan til þess að 2. mgr. 19. gr. EES-samningsins væri ekki einungis ætlað að auka frjálsræði í viðskiptum heldur enn fremur að jafna stöðu norskra bænda gagnvart evrópskum bændum (e. level of playing field). Af hverju ganga norsk stjórnvöld harðar fram í að vernda innlenda framleiðslu en íslensk stjórnvöld?
„Jöfn staða“ framleiðenda
Enn skemmtilegri er þó spurningin um af hverju ESB notar hugtök sem skírskota til jafnræðis hvað eftir annað í samskiptum við önnur lönd (sem eru fámennari en samanlagður íbúafjöldi landa innan ESB). Í viðtali við BBC þann 10. desember sl. talaði Ursula vor der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, til dæmis um „hárfínt jafnvægi sanngirni“ (e. fine balance of fairness), Brexit: Ursula von der Leyen gives update before EU summit - BBC News þegar fjallað var um samningaviðræður ESB og Bretlands. Það á væntanlega ekki við þegar nokkrir tugir af nautakjötsframleiðendum á Íslandi eru að keppa við innflutning frá 440-450 milljóna samfélagi í Evrópu sem kaupir kjöt inn á frost og veitir bændum beinan stuðning þegar illa árar. Eða hvað?
Tollvernd ein stoð í kerfi ESB
Landbúnaðarstefna ESB saman-stendur af tollvernd, styrkjum óháðum framleiðslu og öðrum leiðum sem miða að því að koma í veg fyrir að verð til framleiðenda falli niður fyrir tiltekið lágmark. Það er vitaskuld gert til að tryggja að framleiðsla afurða haldi áfram. Það er ótrúlegt ef einhver telur að landbúnaðarstefna ESB miði ekki að því að tryggja viðgang landbúnaðar og að fjölbreytt framleiðsla landbúnaðarafurða eigi sér stað sem víðast í ríkjaheildinni. Það er beinlínis skrifað inn í Lissabon sáttmálann. Tollvernd er ein stoð í því kerfi bandalagsins.
Þá lágmarkskröfu verður að gera til þeirra sem gera tillögur um gjörbreytingu á rekstrarumgjörð íslensks landbúnaðar að þeir segi þá sögu til enda en freisti þess ekki með hálfkveðnum vísum og fagurgala að afla fylgis við hugmyndir sem verulegar líkur eru á að leiði til samfélagslegrar niðurstöðu sem fæstir landsmenn vilja sjá.
Erna Bjarnadóttir
hagfræðingur