Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Styrkurinn felst í samstöðunni, látum ekki ginna okkur með tilboðum
Mynd / smh
Lesendarýni 10. febrúar 2021

Styrkurinn felst í samstöðunni, látum ekki ginna okkur með tilboðum

Höfundur: Haukur Marteinsson

Enginn skortur er á að inn­flutnings­aðilar búvöru eru samstiga í sínum aðgerðum og hvað þá þegar þeir virðast fá óheftan liðsauka frá hinum ýmsu félögum og samtökum. Þá þykir mér liggja í augum uppi að samstaða okkar, sem í frumframleiðslunni stöndum, er gríðarlega mikilvæg. Í okkar rekstri eru margir hlekkir og líklega fáir mikilvægari en afurðastöðvarnar sem sinna því lykilhlutverki að taka okkar óunna hráefni og breyta í seljanlega vöru fyrir hinn almenna neytanda.

Í síharðnandi rekstrarumhverfi þar sem samkeppnin á þrautir allar að vinna verða bændur að gæta sín að keppa við réttan aðila og láta ekki etja sér saman. Vita hvert skynsamlegast væri að beina spjótum sínum ef svo má að orði komast. Bændur finnst mér oft því miður gleyma því að kjötið sem þeir framleiða á ansi langa leið fyrir höndum áður en á disk neytenda er komið í skiptum fyrir peninga.

Þar tel ég eitt fyrirtæki í eigu okkar bænda, Norðlenska, skara fram úr í baráttu sinni í að greiða framleiðendum sem best verð fyrir afurðir sínar, þjónusta bændur sem allra best og ganga eftir duttlungum þeirra og sérvisku, og síðan ekki síst fyrir mjög jákvæða og örvandi vöruþróun.

En hvers virði er að hafa fyrirtæki á borð við Norðlenska starfandi? Af hverju á maður ekki alltaf að láta samkeppnina ráða og hlaupa á eftir tilboðum í gripina sína sem hverfa jafn harðan og þau koma? Jú, það að reka afurðafyrirtæki krefst eins og flestir þekkja gríðarlegra fjármuna og vinnu. Að byggja upp orðspor til að sækja hærra verð er langt í frá sjálfgefið og í mínum huga augljóst að bændur eru engir sérfræðingar í þessum atriðum frekar en aðrir. Umræðan verður oft ansi einföld og slegið er fram fullyrðingum, oftast frá bændum sjálfum, um hve frábært er að vinna sitt eigið kjöt og selja. Það má í mörgum tilfellum vera en oft gleymist hverju fórnað er í staðinn. Bændur eru nógu fáir eins og er, og samkeppnin utan frá á ekki eftir að minnka með árunum og þrengir nóg að nú þegar. Því tel ég það óskynsamlega leið að auka enn á þá samkeppni með því að bændur standi hver með sinn sölubás og auglýsi besta kjötið á besta verðinu. Hvar endar það? Endum við þá ekki einungis í hring þar sem kaupendur ganga á milli bænda og prútta niður verðið, sem auðvelt er þar sem samstaðan yrði engin? Þurfum við að rifja upp af hverju bændur sameinuðust upprunalega um afurðastöð hér á Norðausturlandi? Var ekki orðið eitthvað tæpt með að það væri yfir höfuð einhver stöð til að taka við gripunum frá bændunum og samstarf nauðsynlegt? Stórkostlegur ávinningur fyrir bæði bændur og neytendur er af samstarfi afurðastöðva í mjólkinni og ljóst að sambærilegt samstarf kjötafurðastöðva myndi borga sig margfalt fyrir þessa aðila. Skýtur það þá ekki svolítið skökku við að bændurnir sjálfir ætli að keppa við hver annan innbyrðis um leið og þeir tala fyrir þessu samstarfi?

Ef við færum umræðuna yfir á samkeppni milli afurðastöðva/vinnslna, hver er þá ávinningurinn af því að fá 10, 20 eða 30 kr. meira fyrir kílóið af kjöti í gegnum sérsamninga þegar nánast ein afurðastöð á Norðausturlandi stendur eftir nú í miðjum faraldri til að taka við gripum bændanna? Sem, nota bene, hefur alla tíð verið meira en samkeppnishæf í afurðaverði til bænda fyrir gæðavöru og er einnig skuldbundinn bændunum með að kaupa gripina af þeim.

Þegar menn keppast við að tala niður afurðastöðvar á borð við Norðlenska, þegar óhjákvæmilegar verðlækkanir eru kynntar, og slá því fram að afurðastöðvarnar séu helsti óvinur bænda með það eina markmið að hafa af þeim hverja krónu, gleymist oft að sannleikurinn er sá að markaðsaðstæður sem stjórnvöld skapa þvinga þær í afurðaverðslækkanir til bænda. Peninginn er hreinlega hvergi annars staðar að finna eins og búið er um hnútana í kerfinu.

Afurða­stöðvarnar eru nú langflestar reknar með bullandi halla og þá mega bændur ekki gleyma þessu með hvert skal beina spjótum sínum. Það að bændur standi vörð um sitt fyrirtæki með viðskiptum og hliðhollustu, veitir því styrk, þessi styrkur nýtist fyrirtækjum okkar bænda síðan sem spjót gegn samkeppninni sem kemur utan frá, en sú ósamúðarfulla samkeppni skeytir engu um hvort maður framleiðir kjöt, mjólk, gúrkur, hafra eða egg og fleira mætti telja.

Það er gömul saga og ný að styrkurinn felst í samstöðunni. Látum ekki ginna okkur með tilboðum og þeirri trú að grasið sé alltaf grænna hinum megin, það mun enginn standa vörð um okkur og okkar eignir, framleiðslu og starfsvettvang nema við sjálf. Þessi réttindi verða ekki varin ef menn standa ekki saman.

Haukur Marteinsson
Bóndi á Norðausturlandi og innleggjandi hjá Norðlenska

Skylt efni: Norðlenska

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...