Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hildur Ósk Sigurðardóttir garðyrkjubóndi í Gufuhlíð, Julián Cuevas González, Dr. Esteban José Baeza Romero, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LbhÍ og Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjunnar hjá BÍ.
Hildur Ósk Sigurðardóttir garðyrkjubóndi í Gufuhlíð, Julián Cuevas González, Dr. Esteban José Baeza Romero, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LbhÍ og Axel Sæland, formaður búgreinadeildar garðyrkjunnar hjá BÍ.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 12. október 2022

Tækifæri á sviði ylræktar

Höfundur: Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ.

Í byrjun september síðastliðnum komu tveir erlendir sérfræðingar í ylrækt í heimsókn til Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið heimsóknarinnar var að ræða framtíðartækifærin innan ylræktar á Íslandi og hvernig Landbúnaðarháskóli Íslands getur stutt við uppbyggingu greinarinnar.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir.

Heimsóknin hefur staðið til í nokkurn tíma, og því var það gleðilegt að taka loks á móti prófessor Julián Cuevas González og dr. Esteban José Baeza Romero þann 7. september.

Prófessor Julián Cuevas González er aðstoðarrektor við Almeria háskólann á Spáni og ber ábyrgð á alþjóðamálum háskólans. Hann hefur stýrt vinnu við gerð Evrópuumsóknarinnar UNIgreen með Landbúnaðarháskóla Íslands og sex háskólum til viðbótar á Ítalíu, í Portúgal, Frakklandi, Póllandi, Búlgaríu og Belgíu, sem fékkst samþykkt nú í haust. Verkefnið snýr að því að byggja upp samstarf milli háskólanna, meðal annars með sameiginlegum námsbrautum og auknum rannsóknum, og þar opnast ný tækifæri, meðal annars á sviði ylræktar en háskólinn í Almeria er framarlega á því sviði.

Dr. Esteban José Baeza Romero hefur unnið við Wageningen University Research (WUR) í Hollandi, sem er einnig einn fremsti háskólinn í heiminum á sviði ylræktar. Esteban stýrir nú eigin ráðgjafarfyrirtæki, Future Farms Solutions. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á tækniþróun innan greinarinnar og hefur komið að fjölmörgum alþjóðlegum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum, m.a. Geofood verkefninu, sem sneri að því að nýta jarðhita í hringrásarframleiðslu matvæla. Verkefnið var unnið í samstarfi við sérfræðinga á Íslandi og í Slóveníu, með stuðningi frá Geothermica, Rannís og ráðuneytum í Hollandi og Slóveníu. Esteban hefur kynnt sér tækifærin innan ylræktar hérlendis, en hann vann skýrslu sem nefnist „Business case for large scale crop production in greenhouse facilities in Iceland for the global market“ sem kom út á síðasta ári og er öllum opin.

Julian og Esteban héldu erindi á ráðstefnu Landbúnaðarháskóla Íslands, Orkídeu og fleiri aðila um nýsköpun og tækifæri í matvælaframleiðslu sem haldin var á Selfossi 8. september. Farið var í heimsókn til Friðheima, Espiflatar og Gufuhlíðar í Reykholti í Biskupstungum og í gróðrarstöðina Lambhaga og rætt við eigendur stöðvanna um stöðu ylræktar á Íslandi og tækifærin til framtíðar. Þá var boðað til opins fundar á Flúðum í samstarfi við Bændasamtök Íslands þar sem Esteban og Julian héldu erindi og málin voru rædd. Þeim þótti mikið til koma hvernig staðið væri að framleiðslunni hérlendis og hversu góður árangur hefði náðst í íslenskri ylrækt, bæði varðandi framleiðslumagn og gæði.

Meginspurningin sem borin var upp af þeim félögum var af hverju framleiðslan væri ekki meiri en raun ber vitni á Íslandi, og þá jafnvel einnig til frekari vinnslu með nýtingu jarðvarma og til útflutnings. Þær stöðvar sem heimsóttar voru eiga það allar sameiginlegt að hafa aukið framleiðslu sína verulega á undanförnum misserum og vel er tekið á móti þeim hágæðaafurðum sem boðnar eru neytendum. Byggð hafa verið ný gróðurhús sem ýmist hafa verið keypt frá Danmörku eða Hollandi. Nýju húsin eru nokkuð hærri en þau sem fyrir eru og ljóst að tækniframfarir eru hraðar í þessum geira. Sjálfvirknin er sífellt að þróast og eykur það enn samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi þar sem launakostnaður hér er hlutfallslega hár.

Niðurstaða heimsóknarinnar var að tækifæri Íslands á sviði ylræktar eru mikil og brýnt að Landbúnaðarháskóli Íslands nýti þau sterku alþjóðlegu tengsl sem myndast hafa við tvo sterkustu háskólana í Evrópu á þessu sviði. Næstu skref verða að útfæra tillögur að samstarfi nánar og verður í því sambandi haft náið samráð við alla hagaðila og stjórnvöld þar með talin.

Skylt efni: ylrækt

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...