Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þorskafjörður og Teigsskógur.
Þorskafjörður og Teigsskógur.
Mynd / RTG
Lesendarýni 16. október 2017

Teigsskógarruglið

Höfundur: Reynir Tómas Geirsson
Í Bændablaðinu frá 24. ágúst skrifa þeir Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson og Bjarni G. Einarsson um eldri vegagerð á Vestfjörðum þar sem varfærnir menn á litlum ýtum ruddu vegi sem falla víðast hvar vel inn í landslagið og eru þar lítið áberandi. 
 
Þá var um að ræða nauðsynlegar samgöngubætur sem nú á tímum nýtast sums staðar helst til skemmtiferða á sumrin. Þeir jafna þessu saman við áætlanir um að leggja tvíbreiðan, upphækkaðan, malbikaðan heilsársveg sem þarf að þola þungaflutninga gegnum einn af fáum ósnertum skógum landsins, Teigsskóg í Þorskafirði.
 
Reynir Tómas Geirsson.
Veg sem fer ekki aðeins gegnum skóglendi í bratta, heldur á líka að liggja yfir fallega gróið Hallsteinsnesið og mundi þvera minni Djúpafjarðar og Gufufjarðar  yfir smáeyjar og leirur með miklu fuglalífi. Vegur sem þessi er allt önnur framkvæmd en afrek fyrri vegagerðarmanna sem þeir vitna til. Skógarhlíðin í norðanverðum Þorskafirði er þannig að þar mun víða þurfa yfir 50 m breitt vegarstæði. Það yrði skemmd sem gæti sums staðar tekið verulega úr breidd skógarins. Mannvirki sem þetta yrði áberandi í landslaginu og er ekki eins og vegslóðinn fyrir skagann milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Spyrja má hvort þarfir mannsins í átt að meintum efnahagslegum framförum eigi alltaf að hafa forgang eða gæti maðurinn haft aðrar þarfir, svo sem fyrir fegurð og kyrrð og ósnortna náttúru? Hvað um aðrar lífverur sem deila Vestfjörðum með mönnunum? Bent hefur verið á augljósan annan valkost sem þar að auki yrði öruggari og gæti komið íbúum sveitarinnar betur, nefnilega jarðgöng gegnum einn eða jafnvel tvo hálsa. 
 
Það yrði dýrari kostur í byrjun, en til langs tíma gæti það reynst betra mál með tilliti til vegalengda, umferðaröryggis og landsins. Um leið mætti gera Teigsskóg aðgengilegri fyrir göngufólk með aðferðum sem eiga meira skylt við gamla vegagerð en þá sem menn telja að nú þurfi.
 
Þeir félagar minnast á „stráka sem aldrei hafa komið austur fyrir Elliðaár“ og virðast telja þá vilja stjórna því hvernig Vestfirðingar „haga sínum málum“. Með þannig orðalagi er verið að kasta rýrð á aðra með skoðun á málefninu. Náttúruvernd og vegagerð á Íslandi eru ekki einkamál einstakra landshluta, heldur varða alla landsmenn. Jafnvel fleiri jarðarbúa sem vilja reyna að halda í náttúru án áberandi mannvirkja. Ég er sjálfsagt að mati sumra ekki til þess bær að fjalla um þessa tilteknu vegalagningu þar sem örlögin hafa hagað því svo til að ég fæddist og hef lengst búið í Reykjavík. Ég hef þó einnig búið og starfað á Vestfjörðum og alltaf haft þangað tengsl og taugar. Ég hef þar að auki komið endurtekið í Teigsskóg, á Hallsteinsnes og að mynni fjarðanna, sem er meira en sennilega verður sagt um flesta Vestfirðinga. Þarna er fallegur trjágróður, íslenskt blóma- og jurtaskrúð og sérstæð fjörunáttúra ásamt fuglalífi (þ.m.t. arnarvarpi), sem ég leyfi mér að upplýsa þá um sem ekki hafa farið á svæðið.
 
Hér togast á markmið. Annars vegar þörfin fyrir betri vegasamgöngur svo koma megi fólki og vörum til og frá byggðum Vestfjarða. „Ódýrari“ kostinn. Hins vegar það að eyðileggja ekki gamalt gróið land sem kannski er líkt því sem það var þegar land byggðist. Frekar ætti að stefna á aðrar lausnir sem myndu tryggja bæði markmiðin. Það væri þess virði í framtíðinni, jafnvel þótt kostnaðurinn væri til skamms tíma meiri. Einhvern veginn grunar mig að þeir félagar gætu vel samsinnt þessu. Að skemma þetta landsvæði með nútíma vegagerð væri að mínu áliti hið raunverulega Teigsskógarrugl.
 
Reynir Tómas Geirsson
Höfundur er fyrrverandi prófessor og yfirlæknir.

Skylt efni: Teigsskógur

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...