Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Það er ekki langt síðan að talað var um að sjálfbærni skilaði fyrirtækjum litlu, nema auknum kostnaði. Á skömmum tíma hefur þetta viðhorf breyst. Nú hefur verið sýnt í verki að virk sjálfbærnistefna ýtir undir nýsköpun, lækkar kostnað og fjölgar tekjuleiðum fyrirtækja.
Það er ekki langt síðan að talað var um að sjálfbærni skilaði fyrirtækjum litlu, nema auknum kostnaði. Á skömmum tíma hefur þetta viðhorf breyst. Nú hefur verið sýnt í verki að virk sjálfbærnistefna ýtir undir nýsköpun, lækkar kostnað og fjölgar tekjuleiðum fyrirtækja.
Lesendarýni 10. október 2022

Umhverfisskýrslur auka fjárhagslegan ávinning

Höfundur: Bragi Smith, viðskipta- og þróunarstjóri hjá iTUB.

Árið 2020 voru tímamót í íslenskum sjávarútvegi þegar geirinn undirritaði stefnu sem nefnist „Ábyrgur sjávarútvegur í sátt við umhverfi og samfélag.“

Stefnan, sem er undir forystu Samstaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með undirrituninni skuldbinda fyrirtækin sig til að vinna samkvæmt stefnunni sem skipt er í þrjá meginhluta: bæta hringrásina, lágmarka sótsporið og efla orkunýtingu.

Í kjölfar undirritunar var gerð krafa um að fyrirtækin myndu auka gagnsæi og birta upplýsingar í formi samfélags- og umhverfisskýrslna. Það er von SFS að öll fyrirtæki innan vébanda þess skrifi undir stefnuna.

Nú, tveimur árum eftir undirritunina, er áhugavert að glugga í umhverfisskýrslur sjávarútvegsfyrirtækjanna sem skrifuðu undir samkomulagið með SFS árið 2020. Upplýsingum um sjálfbærnistefnu fyrirtækjanna var einnig safnað með samtölum við stjórnendur þeirra.

Skýrt markmið umhverfisskýrslna

Brim var fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að birta samfélagsskýrslu árið 2018. Síðan þá hefur orðið mikil hugarfarsbreyting í átt að sjálfbærni í íslenskum sjávarútvegi.

Markmið umhverfisskýrslna er að gera grein fyrir öðrum en fjárhagslegum þáttum fyrirtækja. Þar vegur þyngst sjálfbærni, mannauðsmál, vistsporið og samfélagsleg ábyrgð.

Að útbúa umhverfisskýrslu er góð leið til að skýra fyrir hluthöfum og almenningi hvert framlag fyrirtækisins er til almennra framfara og umbóta í sjálfbærni. Þessi þróun, að útbúa sjálfbærniskýrslur, snýst um að hugsa fram í tímann. Rekstraraðilar sem horfa til framtíðar eru líklegri til að hlúa að nýsköpun sem leiðir af sér arðbærari verkefni.

Í skýrslunum er kolefnisspor fyrirtækja mælt og þar eru gerðar ráðstafanir til að draga úr sótspori fram í tímann. Með þessu sparast fé og nýjar hugmyndir verða til. Eitt af nýsköpunarverkefnum Brim árið 2021 var að hanna og innleiða smáforrit þar sem starfsfólk pantar olíu í skipin í gegnum farsíma.

Kolefnisspor (CO2) er skráð beint í umhverfisgagnagrunn fyrirtækisins þar sem stjórnendur geta fylgst með nýtingu eldsneytis á betri hátt en áður.

Annað gott dæmi um nýsköpun er skrúfan í Breka, nýjum togara Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Breki er með 4,7 metra skrúfu í þvermál í stað rúmlega 3 metra eins og algengt er fyrir skip í þessum stærðarflokki. Þar sem um 80% af allri orkunotkun skips fer í að knýja skrúfuna þá verður 30-40% meiri olíusparnaður með þessari skrúfu.

Umhverfisskýrslur auka verðmætasköpun

Sjálfbærni í sjávarútvegi snýst ekki eingöngu um að mæla mengun heldur framfarir. Í dag þurfa allir aðilar í virðikeðjunni að taka ábyrgð og fylgja stefnu í sjálfbærni. Markmiðið er að hlúa að náttúruauðlindunum en jafnframt auka arðsemi fyrirtækjanna sem starfa í greininni.

Aukin krafa er frá erlendum neytendum. Þeir vilja í ríkari mæli vita hvert kolefnisspor vörunnar er og hvort hún sé veidd með sjálfbærum hætti. Þetta eru kröfuharðir neytendur sem vilja fá upplýsingar um rekjanleika og aðbúnað starfsfólks. Með því að birta umhverfisskýrslur er verið að svara erlendum neytendum með áhrifaríkum hætti. Það má því segja að umhverfis- og sjálfbærnisskýrslur séu hluti af markaðssetningu. Án þessara upplýsinga verður markaðssetningin fátæklegri og það verður erfiðara að fá hærra verð fyrir vöruna á erlendum mörkuðum.

Umhverfisvænt rafmagn í stað olíu

Í dag bjóða nær allar hafnir í kringum landið upp á landtengingar og notkun á þeim fer vaxandi samkvæmt RARIK. Langflest fiskiskip tengjast rafmagni þegar þau eru í höfn. Hafnarfjarðarhöfn er fyrsta höfnin til að bjóða upp á öfluga rafmagnslandtengingu þar sem skip geta fengið allt að 1,2MW tengingu.

Síldarvinnslan hefur tekið í gagnið búnað þar sem uppsjávarskipin eru tengd við rafmagn á meðan þau landa. Gert er ráð fyrir að þessi aðgerð spari um 300 þúsund lítra af olíu á ári. Stærsta aðgerð Síldarvinnslunnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er raforkuvæðing í fiskimjölsverksmiðjum fyrirtækisins.

Í dag er verksmiðjan í Neskaupstað alfarið knúin með rafmagni og olía er eingöngu notuð sem varaafl. Sem dæmi þá notuðu fiskimjölsverksmiðjurnar 18 milljón lítra af olíu árið 2003. Árið 2021 var þessi tala komin í 1,4 milljónir lítra af olíu.

Brim hefur sett sér það markmið að auka notkun á landrafmagni til skipa þegar þau koma til hafnar. Árið 2020 jókst notkun á landrafmagni hjá Brim um 10,5%. Fór úr 571 MWh í 631 MWh. Félagið gerir ráð fyrir að auka notkun á landrafmagni um 10-20% fram til ársins 2025.

Sjórinn tekur ekki endalaust við

Með því að safna saman og skrá stórar og smáar upplýsingar úr rekstrinum um umhverfis-, félags- og stjórnarhætti sjávarútvegsfyrirtækja eru félögin að setja sér markmið um að gera betur á þessu sviði. Með þessu hagnast allir. Fyrirtækin ná meiri arðsemi á sama tíma og hafið nýtur góðs af betri umgengni.

Lengi tekur sjórinn við er gamalt íslenskt máltæki sem nú hefur snúist í andhverfu sína. Meðvitund okkar um endurnýtingu á plasti og flokkun sorps hefur tekið gríðarlegum breytingum á undanförnum árum. Þessi þróun, að sýna samfélagslega ábyrgð í verki, mun halda áfram sem mun verða öllum er starfa í sjávarútvegi mikið heillaspor.

Sjálfbærni sparar fé

Hér áður fyrr var oft talað um að fyrirtæki hefðu ekki efni á því að vera græn. Því fylgdi kostnaður sem væri erfitt að réttlæta. Í dag hefur þetta viðhorf breyst. Aukin sjálfbærni verðlaunar fyrirtæki. Nýlegt dæmi er útgáfa blárra skuldabréfa hjá Brim. Samkvæmt sjálfbærniskýrslu Brim er það fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum til að gefa út blá skuldabréf. Þau fyrirtæki sem sýna sjálfbærni með mælanlegum árangri eru því líklegri en önnur fyrirtæki til að fjármagna sig á betri kjörum.

Hjá Brim eru umhverfismálin og fjárhagslegur ávinningur tengd saman. Þar er talað um að sjálfbærnin lækki kostnað, fjölgi tekjumöguleikum og ýti undir hagræðingu í fyrirtækinu. Á þennan hátt er sjálfbærni og hagræðingu tvinnað saman inn í stefnu fyrirtækisins.

Sjávarútvegsfyrirtæki rækta skóg

Brim hefur náð umtalsverðum árangri þegar kemur að kolefnislosun. Á 7 ára tímabili hefur fyrirtækið náð að lækka kolefnislosun fyrirtækisins um rúm 7%, fór úr 71.688 tCO2 árið 2015 í 66.965 tCO2 árið 2021.

Hjá FISK Seafood á Sauðárkróki er stefnt að því að félagið verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þetta er metnaðarfullt markmið sem á að nást með því að flokka allan úrgang, minnka urðun, skipta út kælimiðlum, draga úr notkun jarðeldsneytis og kolefnisjafna reksturinn með skógrækt. Eskja á Eskifirði hefur samið við Skógræktina um að planta 80.000 plöntum í landi jarðarinnar Freyshóla á Fljótsdalshéraði. Með þessu markar Eskja sér metnaðarfulla og trúverðuga stefnu út frá ábyrgri kolefnisjöfnun sem mun styðja við vegferð félagsins í átt að framtíðar kolefnishlutleysi.

Síldarvinnslan stefnir að því að kolefnisjafna hluta af sinni starfsemi með skógrækt. Félagið tilkynnti í upphafi þessa árs að það hefði keypt jörðina Fannardag þar sem stefnt er að því að hefja skógrækt á næstunni. Markmið félagsins er að gera Fannardal að eftirsóknarverðu útivistarsvæði sem allir geti notið.

Samfélagsleg ábyrgð í samningum við birgja

Í dag hafa fá fyrirtæki í sjávarútvegi sett ákvæði um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni í samningum við birgja. Hjá Eskju er það markmið að eiga reglulegt samtal við birgja þar sem farið er yfir viðeigandi ferla til að tryggja að birgjarnir framfylgi lögum og reglum þegar kemur að umhverfismálum, félagslegum þáttum eða stjórnarháttum.

Gera má ráð fyrir að breyting verði á þessu á næstu árum. Fyrirtæki í sjávarútvegi munu gera þá kröfu að birgjar sýni samfélagslega ábyrgð í verki. Birgjar sem ekki hafa skýra stefnu í sjálfbærni eru líklegir til að missa markaðsforskot sitt til fyrirtækja sem hafa skilgreinda og vottaða stefnu í sjálfbærni.

Starfsfólk hefur áhrif á sjálfbærnistefnu

Flest sjávarútvegsfyrirtæki eru með skýra stefnu í öryggismálum. Þetta hefur orðið til þess að slysum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og áratugum.

Ein af ástæðunum fyrir þessum árangri er sú að starfsfólkið tekur þátt í því að fylgja eftir öryggismálum í fyrirtækjum sínum. 

Í dag eru þessi sömu fyrirtæki að fá starfsfólk sitt til að taka þátt í að vinna eftir nýrri umhverfisstefnu. Hjá Vísi í Grindavík var hrint af stað verkefni þar sem sjómenn halda samviskusamlega utan um allan pappa sem fellur til út á sjó. Pappanum er safnað saman um borð, hann er flokkaður og svo komið á flokkunarstöð þegar skipin koma í land. Með þessu er fyrirtækið að sýna samfélaglega ábyrgð í verki og fær greitt fyrir.

Hjá Síldarvinnslunni koma öll skip með allan úrgang flokkaðan samkvæmt Marpol reglugerðinni. Hvert skip heldur úti sorpdagbók og skilar dagbókinni til hafnaryfirvalda þegar þau koma í land. Samkvæmt Marpol má ekki henda lífrænum úrgangi í hafið nema hann sé kvarnaður. Nú eru öll skip Síldarvinnslunnar með tæki um borð sem kvarna lífrænan úrgang.

Sjálfbær framtíð

Það er ekki langt síðan að talað var um að sjálfbærni skilaði fyrirtækjum litlu, nema auknum kostnaði. Á skömmum tíma hefur þetta viðhorf breyst. Nú hefur verið sýnt í verki að virk sjálfbærnistefna ýtir undir nýsköpun, lækkar kostnað og fjölgar tekjuleiðum fyrirtækja.

Í dag er aukin eftirspurn eftir sjávarafurðum í hæsta gæðaflokki. Í mörgum löndum Asíu stækkar millistéttin hratt. Þar er að myndast markaður með neytendur sem eru tilbúnir að borga hærra verð fyrir fisk sem er veiddur með sjálfbærum hætti úr ómenguðum sjó.

Sjálfbærni er góð leið til að auka traust á atvinnugreininni. Þegar fyrirtæki birta gagnsæjar og áreiðanlegar upplýsingar um stefnu þeirra í sjálfbærni er verið að efla verðmætasköpun og vernda náttúruauðlind okkar til lengri tíma.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...