Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Úr hollenskum gouda-osti í íslenskt skyr
Lesendarýni 9. desember 2015

Úr hollenskum gouda-osti í íslenskt skyr

Höfundur: Myrthe Brabander
Rétt um 2.000 km frá mínu flata heimalandi skrifa ég þessa grein í Bændablaðið. Ég heiti Myrthe Brabander frá Hollandi og er 22 ára nemi við CAH Vilentum University of Applied Sciences (landbúnaðarháskóli í Hollandi). Ég er á fjórða ári í B.Sc. námi í búfjárrækt. Fóðrun dýra er mjög áhugaverður hluti námsins og sérhæfði ég mig í því síðastliðið haust.
 
Myrthe Brabander.
Í febrúar á þessu ári fór ég úr mildu hollensku vetrarveðri í íslenska snjóinn til þess að taka verknámið mitt ásamt því að gera lokaverkefni eða -rannsókn hjá Landstólpa ehf. Veturinn var óvenju langur svo að grasvöxtur var seinni til og ekki var hægt að slá fyrr en um 3 vikum seinna heldur en í venjulegu árferði. Það er þó ekki einungis á Íslandi sem var slegið 3 vikum seinna heldur voru hollenskir bændur einnig 3 vikum seinna á ferðinni með slátt heldur en yfirleitt áður.
 
Hér á Íslandi er ekki einungis frábrugðið veðurfar miðað við það sem ég hef vanist, heldur er matarhefðin öðruvísi. Íslenska skyrið er uppáhalds íslenski maturinn minn. Í Hollandi borðaði ég mikinn gouda-ost, en hér á Íslandi borða ég mikið skyr. Bragðið af skyri er mjög einstakt og hreint og svo er það svo hollt. Mér finnst að Ísland eigi að upphefja íslenska skyrið því það er ómetanlegur fjársjóður þjóðarinnar.
 
Hollenska fóðurfyrirtækið De Heus kom mér í samband við dreifingaraðila sinn á Íslandi. Í verknáminu vinn ég hjá Landstólpa til þess að öðlast dýrmæta starfsreynslu ásamt því að gera rannsókn á fóðrun mjólkurkúa á Íslandi. Ég útbjó rafræna könnun fyrir íslenska bændur sem gaf mér góða innsýn í fóðrun mjólkurkúa hérlendis. Í þessari könnun spurði ég einnig bændur hvort þeir vildu fá heimsókn. Í heildina fékk ég um 200 svör og af þeim voru 100 sem vildu fá mig í heimsókn. Ég var mjög hissa og ánægð með hvað íslenskir bændur sýndu þessu mikinn áhuga. 
 
Fyrir mánuði síðan byrjaði ég að heimsækja bændur. Til að byrja með var ég mjög spennt fyrir heimsóknunum vegna þess að ég vissi ekki alveg hvers ég mætti vænta. Ég hef nú heimsótt 46 bændur og hafa þeir allir verið mjög vingjarnlegir og hjálplegir. Á komandi vikum mun ég heimsækja fleiri bændur úr öllum landshlutum. Það góða við þessar bændaheimsóknir er að ég get hjálpað bændum með minni þekkingu frá Hollandi og þeir hjálpa mér á móti með því að veita mér gögn fyrir rannsóknina mína.
 
Kýr framleiða ekki allar sömu mjólkursamsetningu. Innihald ýmissa næringarefna í mjólkinni (eins og fitu, próteins og laktósa) eru ekki þau sömu á milli bæja. Innihald þessara næringarefna eru nefnilega mjög háð gæðum fóðrunar. Verðmætustu næringarefnin í mjólkinni eru prótein og fita en þau eru mikilvæg vegna líffræðilegs gildis þeirra. Prótein og fita eru mjög mikilvæg fyrir vöxt og viðhald gripa sem og mannsins. Mjólk með hátt hlutfall fitu og próteins veitir fleiri tækifæri til framleiðslu afurða. Margar mjólkurafurðir, eins og ostur og smjör, eru búin til úr mjólkurfitu og mjólkurpróteini. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að mjólkurverð á Íslandi ræðst af fitu- og próteininnihaldi í mjólkinni. Áherslan í mjólkuriðnaði er þess vegna á framleiðslu á miklu magni fitu og próteins. Það er nauðsynlegt fyrir mjólkurkúabændur að þeir finni gott hlutfall milli framleiðslumagns og innihalds fitu og próteins. Bóndinn vill framleiða sem flest kílógrömm af fitu og próteini eins og mögulegt er. Þannig má ná góðum fjárhagslegum árangri hjá kúabændum.
 
Frá því árið 2012 hefur neysla mjólkurafurða með hærra hlutfall fitu heldur en próteins aukist til muna á Íslandi. Þessa mikla eftirspurn eftir þessum fituríku mjólkurafurðum ollu skorti á mjólkurfitu á Íslandi. Íslenskir bændur geta þó aukið fituinnihaldið í mjólkinni með einföldum hætti, með breyttri fóðrun.
Meðal þess sem er mismunandi milli mjólkurframleiðslu í Hollandi og Íslandi er loftslagið og magn dagsbirtu. Sykurhlutfall í gróffóðri á Íslandi er mun hærra heldur en í Hollandi, þetta er vegna þess að dagarnir eru langir og næturnar kaldar hér á Íslandi. Plöntur umbreyta vatni og kolefni í glúkósa og súrefni vegna áhrifa frá sólarljósi og hitastigi en þetta ferli nefnist ljóstillífun. Sykurinnihald er þó ekki einungis háð sólarljósi og hitastigi heldur einnig þurrefnisinnihaldi gróffóðursins. Sykur er eldsneyti fyrir vöxt mjólkursýrugerla sem varðveita gróffóðrið. Blautt gróffóður þarf meiri sykur fyrir varðveisluna til þess að lækka pH-gildi. Þess vegna er sykurinn mikilvægur fyrir einsleitni fóðursins. Vothey sem inniheldur hátt hlutfall sykurs inniheldur minna magn smjörsýrugerla, niðurbrotsgerla og gers. Sykur umbreytist hratt í orku fyrir kýrnar og þegar það er of mikið þá verður það fitumyndandi. Sykur er umbreytt í mjólkursýrur og framleiðir lágt pH-gildi. Vambastarfsemi kúnna  byggist á sýrustiginu og til þess að sporna gegn of háu sýrustigi í vömb er smjörsýra framleidd úr sykrinum. Þetta umbreytist í fitu en það getur verið merki um súra vömb.
 
Að sjálfsögðu er þetta meðal annars mismunurinn milli mjólkurframleiðslu í Hollandi og á Íslandi. Íslenskt loftslag veldur því að uppskerutímabilið er styttra og minni möguleikar eru á fjölbreyttri ræktun. Ég sé ekki einungis mun á aðstæðum heldur einnig á hugsunarhætti. Hollenskir bændur horfa meira á kostnað og nýtingu fóðursins en íslenskir bændur horfa meira á magn og vinnu eða fyrirhöfn. Í heimsóknum mínum hef ég tekið eftir því að íslenskir bændur eru mjög opnir og ófeimnir við að sýna mér tölur þrátt fyrir að þeir vilji helst ekki ræða það við aðra bændur.
 
Ég hef mikla ánægju af heimsóknunum til bænda, fallegri náttúrunni og vonast til að tala við mun fleiri bændur hér á Íslandi á komandi mánuðum. Að mínu mati hefur Ísland ótal marga möguleika á sviði mjólkurframleiðslu; „Land tækifæranna“!
 

2 myndir:

Skylt efni: fóðrun mjólkurkúa

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...