Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Að stinga höfðinu í sandinn
Mynd / BBL
Lesendarýni 17. janúar 2019

Að stinga höfðinu í sandinn

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson, Jóhann Nikulásson og Sigurður Loftsson

Í 6. tbl. Mjólkurpóstsins, fréttabréfs Auðhumlu, KS og MS, sem út kom í desember sl., er umfjöllun um fulltrúaráðsfund Auðhumlu sem haldinn var 23. nóvember sl. Þar fara stjórnarformenn Auðhumlu og MS yfir helstu atriði á fundinum. Í pistlinum er lýst nokkrum áhyggjum af fjárhagsstöðu mjólkuriðnaðarins og nauðsyn þess að grípa í taumana „af festu og ábyrgð, rétta af rekstur MS, bæta lausafjárstöðuna og greiða niður skuldir“. 

Nokkrar ástæður fyrir þungri fjárhagsstöðu eru taldar upp; pólitísk herkví heildsöluverðlagningar, umframmjólk, ójafnvægi í sölu fitu og próteins (efnahalli) og mikil uppsöfnuð fjárfestingaþörf. 

Vandanum slegið á frest

Allir þessir þættir sem að framan eru taldir og þyngt hafa reksturinn, hafa blasað við um all langt skeið. Þó hefur aðeins verið tekið á einum þeirra, en innvigtunargjald af mjólk umfram greiðslumark hefur nú verið innheimt í hálft þriðja ár, frá 1. júlí 2016. Í grein sem undirritaðir birtu í Bændablaðinu í byrjun desember sl. var því spáð að vandanum varðandi efnahallann yrði enn slegið á frest, þrátt fyrir að samanlagður kostnaður iðnaðarins vegna hans mælist nú í milljörðum króna. Við ákvörðun greiðslumarks fyrir árið 2019 upp á 145 milljónir lítra, óbreytt frá fyrra ári, er sú spá staðfest og munu því bætast 7-900 milljónir kr við kostnað vegna efnahalla á þessu ári. Í raun er því verið að greiða greiðslumarkshöfum sem þessu nemur umfram það sem markaðurinn skilar, á sama tíma og greiðslur fyrir umframmjólk eru skornar niður við trog. Að okkar mati er mikið ábyrgðarleysi að ráðast ekki að rót þessa vanda nú þegar, enda eins og formennirnir segja sjálfir „ekki hægt að senda neytendum reikninginn fyrir hverju sem er“.

Að bregðast við samkeppni

Á fundum haustsins kom fram í máli stjórnarformanns Auðhumlu að SAM hefði sett saman nokkrar tillögur að því hvernig mætti taka á efnahallanum. Efnahallinn hefur lengi verið ræddur á vettvangi SAM og í tillögu samtakanna til Matvælastofnunar að greiðslumarki fyrir árið 2018, sem gerð var í desember 2017, var þessi vandi gerður að umtalsefni. Þar er rifjað upp, að áður en farið var að ákvarða greiðslumark miðað við sölu á þeim efnaþætti sem meira selst af, var miðað við sölu á bæði fitu- og próteinhluta og notuð sömu hlutföll og vægi efnaþáttanna í lágmarksverði til bænda. Miðað við þá formúlu, hefði greiðslumark 2019 verið um 138 milljónir lítra. Miðað við stöðu iðnaðarins og þær áskoranir sem framundan eru í rekstri hans væri eðlilegast að færa greiðslumarkið niður í þann efnaþátt sem minna selst af, eða um 131 milljón lítra. Með því móti væri jafnframt skapað nokkurt svigrúm til að bregðast við vaxandi samkeppni á íslenskum mjólkurvörumarkaði. En vera má að það þyki helst til róttækar hugmyndir í hugum forustumanna mjólkuriðnaðarins.

Sótt í gullkistu Samkeppniseftirlitsins

Í pistli formannanna segir síðan um verðlagningu „Svokölluð tekjumarkaleið var líka rædd við gerð síðustu búvörusamninga og drög að henni unnin. Það er hins vegar ljóst að í þeirri leið eru margir þættir óleystir og óljósir.“ Nauðsynlegt er að árétta að tekjumarkaleiðin, sem sækir fyrirmynd sína í raforku- og fjarskiptageirann var ekki aðeins rædd í aðdraganda núgildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, heldur er kveðið á um, í grein 12.3 í samningnum, að hún skuli tekin upp. Samningsaðilar hafa því skuldbundið sig til þess og hafa haft tæp þrjú ár til að ljúka frágangi og innleiðingu þeirrar leiðar. Í pistlinum er síðan vísað til neikvæðrar umsagnar Samkeppniseftirlitsins um tekjumarkaleiðina í áliti nr 10/2016 vegna breytinga á búvörulögum. Í ljósi alls þess, sem Samkeppniseftirlitið hefur haft að segja um lagaumgjörð landbúnaðarins og mjólkurframleiðslunnar alveg sérstaklega, er þessi röksemd formannanna næsta kostuleg. 

Ef farið er inn á heimasíðu Samkeppnis-eftirlitsins, www.sam-keppni.is og orðið „mjólkuriðnaður“ er slegið í leitarglugga síðunnar, koma upp tugir skjala; ákvarðanir, álit, skýrslur og fréttir. Ná þær meira en tvo áratugi aftur í tímann, eða allt frá þeim tíma að Samkeppnisstofnun (forveri Samkeppniseftirlitsins) tók við af Verðlagsstofnun fyrir rúmum aldarfjórðungi. Óhætt er að segja að umsagnir samkeppnisyfirvalda um núverandi verðlagningarkerfi mjólkurafurða hafa allan þennan tíma verið afar neikvæðar. 

Í áliti samkeppnisráðs nr. 2/2002 vegna erindis Samtaka verslurnar og þjónustu vegna verðlagningar verðlagsnefndar búvara á mjólkurvörum í heildsölu, er fjallað um viðauka við samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar frá 17. desember 1997 sem  fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra undirrituðu í október 2001. Var niðurstaðan svohljóðandi:

Með vísan til d-liðar 2. mgr. 5. gr. og 19. gr. samkeppnislaga beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir því að heildsöluverðlagning á búvöru verði gefin frjáls svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 30. júní 2004.

Þá beiti ráðuneytið sér fyrir því að verðlagsnefnd búvara heimili ekki samninga um verðtilfærslu, skv. 3. mgr. 13. gr. og 22. gr. búvörulaga, þegar heildsöluverðlagning á mjólk verður frjáls. 

Auk þess er óskað eftir að ráðuneytið beiti heimildum sínum samkvæmt 71. gr. búvörulaga til að tryggja eftir föngum að samningar um verkaskiptingu skv. ákvæðinu raski ekki samkeppni og vinni þar með gegn markmiðum þess að gefa heildsöluverðlagningu á mjólk frjálsa. Í því sambandi verði reynt að vinna gegn samráði afurðastöðva um framleiðslu og sölu og aðra lykilþætti í samkeppni.

Sá viðauki sem hér um ræðir frestaði ákvæðum gildandi samnings um að Verðlagsnefnd hætti verðlagningu á heildsölustigi. Síðar var að fullu fallið frá þessu ákvæði með nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tók gildi þann 1. september 2005. Hvað sem því líður, hefur þessi niðurstað Samkeppnisráðs verið marg ítrekuð á þeim sautján árum sem liðin eru frá því hún var sett fram. Þá hafa samkeppnisyfirvöld ítrekað oftar en tölu verður á komið, þá skoðun sína að 71. grein búvörulaga sem íslenskur mjólkuriðnaður byggir tilveru sína á, skuli felld úr gildi. Enn er höggvið í sama knérunn í fyrrgreindri umsögn nr 10/2016 sem formennirnir vísa af svo mikilli virðingu til, en þar segir m.a. „Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á að í lagabreytingunni frá 2004 fólst að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði var veittur miklu mun víðtækari undanþága frá samkeppnislögum heldur en gildir annar staðar á Norðurlöndum og í öðrum ESB ríkjum. Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki farið að ítrekuðum tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að fella framangreindar undanþágur frá samkeppnislögum úr gildi“. Má búast við því að formannatvennan muni í framtíðinni sækja enn frekar stefnu sína og rökstuðning í gullkistu Samkeppniseftirlitsins? 

 Höfðinu stungið í sandinn

Í pistli formannanna segir ennfremur „Á sama tíma hefur verið mikil fjárfestingarþörf við endurnýjun á vinnslu- og stoðbúnaði afurðastöðvanna. Hluti af þessu tengist gæðavottunum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur viðskiptavina, en ef við getum það ekki er okkur vandi á höndum“. Ekki er ágreiningur um nauðsyn þeirra fjárfestinga sem í hefur verið ráðist. En verulegt áhygguefni er ef allri frekari knýjandi endurnýjunarþörf verður slegið á frest, svo sem á 35 gamalli duftvinnslu, þeirri einu á landinu, sem gegnir lykilhlutverki í birgðastýringu fyrirtækisins og vinnur úr nálega 12% allrar innveginnar mjólkur. 

Eftir því sem skilja má af orðum formannanna, þá verður ekki af þessum, né öðrum brýnum viðhaldsverkefnum fyrr en fjárhag fyrirtækisins hefur verið komið til betra horfs. Þó er ekki að sjá neinar afgerandi hugmyndir í því efni, en þess í stað taldir upp ótalmargir annmarka á núverandi rekstrarumhverfi, þar sem ber á góma orð eins og pólitísk herkví verðlagsnefndar, milljarða skuldaaukning og forsendubrestur tollasamnings. Eina haldreipið virðist vera að setja Verðlagsnefnd „skýrar verklagsreglur“, þó vandséð sé hvernig þær geti bætt stöðuna umfram þann lagabókstaf sem um nefndina gildir í dag. Þekkt er að ekki þarf alltaf langan tíma til að breyta pólitískri stöðu landsmála og því ekki útilokað að verðlagsnefnd búvara verði tekin að nýju í einhverskonar „herkví“. 

Vissulega er gott að forystumenn mjólkuriðnaðarins skuli vera farnir að átta sig á ýmsum þeim margræðu ógnunum sem að greininni snúa þessi misserin. Verra er þó, að svo virðist sem einu lausnir þeirra séu að stinga höfðinu í sandinn og sjá hvort málin leysist ekki af sjálfu sér. Hversu lengi getur slíkt ástand varað?

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Jóhann Nikulásson

Sigurður Loftsson

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...