Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Erna Bjarnadóttir.
Erna Bjarnadóttir.
Lesendarýni 18. janúar 2021

Hafa skal það sem sannara reynist

Höfundur: Erna Bjarnadóttir

Á undanförnum vikum hefur umræða um landbúnaðarstefnu hér á landi tekið mikinn kipp og sjónir margra sérstaklega beinst að tollum á innfluttar landbúnaðarvörur. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), sem eru hagsmunasamtök innflytjenda, heildsala og smásala, hefur í þeirri umræðu skrifað fjölda blaðagreina undanfarnar vikur og boðað nauðsyn þess að innflutningstakmarkanir og tollar verði afnumdir á landbúnaðarvörur. Upphaflegt tilefni þessara greinaskrifa er að á síðasta ári kom í ljós stórfellt misræmi í tollafgreiðslu á innflutningi á landbúnaðarafurðum til Íslands.

Samkeppnisreglur á EES svæðinu

Það virðist æði útbreidd skoðun að með því að rýmka heimildir fyrir landbúnaðinn til að starfa saman og leita hagræðingar með samstarfi og skipulagningu, sé verið að „...vinda ofan af umbótum í frjálsræðisátt“. Því er til að svara að líklega er hvergi á EES svæðinu jafn mikið þrengt að bændum og fyrirtækjum þeirra til að vinna saman og skipuleggja markaðsfærslu búvara eins og hér á landi. Í því sambandi vísast til skýrslu lagastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (sjá skýrsluna hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/12/09/Skyrsla-lagastofnunar-um-samkeppnis­reglur-buvoruframleidenda/). Í skýrslunni kemur m.a. fram að mun víðtækari undanþágur frá samkeppnisreglum gilda í Noregi (öðru EFTA-ríki, aðila að EES-samningum) og innan ESB (aðila að EES samningnum) fyrir framleiðendur landbúnaðarvara samanborið við þrönga undanþágureglu í 71. grein búvörulaga. Í fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um skýrsluna segir að verið sé að vinna með niðurstöður hennar í ráðuneytinu.

Auk þessarar skýrslu hefur verið bent á að vegna COVID-19 heimsfarald­ursins hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt styrki til bænda að fjárhæð allt að 15,6 milljónir króna og lánafyrirgreiðslur að fjárhæð allt að 31 milljón króna) auk frekari undantekninga frá samkeppnisreglum2. Engin fyrirgreiðsla í líkingu við þetta hefur átt sér stað á Íslandi. Þvert á móti hefur staða íslensks landbúnaðar veikst enn frekar m.a. með fyrrnefndu misræmi í tollafgreiðslu á innfluttum vörum sem stjórnvöld hafa þegar viðurkennt að eigi sér stað3.

Á undanförnum misserum hafa hagsmunasamtök bænda bent á þann aðstöðumun sem er á milli norskra og evrópskra bænda annars vegar og íslenskra bænda hins vegar hvað þessi atriði varðar.

Einhliða afnám tolla skaðar þjóðarhag

Í umræðum um landbúnaðarmál er sums staðar uppi hávær krafa um að tollar á landbúnaðarvörur verði afnumdir. Aftur hefur ekkert þeirra landa sem við berum okkur saman við í lífskjörum tekið slíka stefnu, hvað þá að nokkrum hafi einu sinni dottið í hug að gera það einhliða án þess að tryggja sér neinn ávinning í staðinn.

Það er þekkt niðurstaða í hagfræði að velferð íbúa hvers lands er unnt að hámarka með réttum tollum á milliríkjaviðskipti (sjá t.d. H. Johnson The Review of Economic Studies , 1953–1954, bls. 142–153). Þetta er auðvitað grunnástæðan fyrir því hvað tollar og viðskiptahindranir eru þaulsetin í milliríkjaviðskiptum. Þótt vera megi að frjáls viðskipti séu í heildina hagstæðust er gallinn sá að aðrar þjóðir spila ekki samkvæmt þeim reglum. Ísland og íslensk þjóð hefði því verra af ef hún ætlaði einhliða að afnema innflutningstakmarkanir. Aukin heldur værum við að spila frítt af okkur spilum sem nota má í samningaviðræðum um viðskiptakjör við önnur lönd.

Það væri mörgum hollt að velta því fyrir sér hvers vegna tollar séu lagðir á erlendar landbúnaðarvörur innfluttar til ESB, Noregs og annarra landa. Væntanlega heldur framkvæmdastjóri FA t.d. því ekki fram að þessi stefna Noregs og ESB í málefnum landbúnaðar byggist á fáfræði og heimsku?

Eru frjáls alþjóðaviðskipti lausnin?

Reynslan af COVID-19 hefur sýnt að svokölluð frjáls viðskipti tryggja ekki að lönd geti fengið vörur sem þær vilja og eru reiðubúnar til að greiða fyrir (COVID-grímur, hlífðarfatnaður og súrefnistæki í upphafi, og nú t.d. bóluefni). Hliðstæð hætta á markaðstruflunum er gagnvart landbúnaðarvörum og öðrum nauðsynjum.

Kreppur og frjáls viðskipti

Framkvæmdastjóri FA fullyrðir að leið ríkja út úr kreppu í gegnum tíðina hafi verið sú að afnema hömlur í viðskiptum og auka frelsi í milliríkjaviðskiptum. Þessi söguskoðun er í meira lagi hæpin. Bandaríkin og önnur Vesturlönd komust t.d. ekki út úr kreppunni miklu 1929 vegna þess að þau tóku skyndilega upp frjáls viðskipti, heldur setti gífurlegur ríkisrekstur í hildarleik síðari heimsstyrjaldar hagkerfi þessara landa í gang. Alþjóðaviðskiptastofnunin (eða öllu heldur forveri hennar GATT) var ekki stofnuð fyrr en 1947 að lokinni heimsstyrjöld. Í fjármálakreppunni 2008 voru alls kyns takmarkanir á frjáls fjármagnsviðskipti tekin upp og í kjölfar hennar voru miklu strangari takmarkanir settar á fjármálastofnanir en áður og flutningar fjármagns milli landa settar þrengri skorður.

Leiðir ríkja út úr kreppum hafa því jafnan verið flóknari en þarna er gjarnan látið liggja að. Er þar skemmst að minnast aðgerða sem gripið hefur verið til jafnvel hér á landi þar sem milljörðum hefur verið veitt til atvinnulífsins til að veita því viðspyrnu eftir það högg sem COVID-19 faraldurinn hefur valdið.

Verndum störf og þjóðarhag

Staðreynd málsins er að íslenskur landbúnaður er hryggjarstykkið í atvinnulífi víða á landsbyggðinni. Þúsundir manna starfa við greinina, í Norðausturkjördæmi einu og sér starfa sennilega nærri 1.000 manns. Bara svínakjötsframleiðsla og vinnsla svínakjöts skapar álíka mörg störf og kísilver PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík átti að gefa. Ekki er hægt að deila um mikilvægi þess að hægt er að hafa raunveruleg áhrif með því að stýra eigin landbúnaðarframleiðslu.

Þá bendir margt, þ.á m. landrými, nægt vatn og frjósamur jarðvegur, til þess að íslenskur landbúnaður geti verið öflugur atvinnuvegur sem greiði góð laun og leggi af mörkum til hagvaxtar. Til þess að svo megi vera er hins vegar nauðsynlegt að hinum ýmsu greinum landbúnaðar verði tryggð viðeigandi rekstrarskilyrði til þess að greinin geti dafnað og náð hámarksafköstum.

Mjög mikil framleiðniaukning í mjólkurframleiðslu og mjólkur­vinnslu sl. 20 ár sýnir að þetta er unnt. Í skýrslu sem unnin hefur verið fyrir mjólkuriðnaðinn af Ragnari Árnasyni, prófessor emeritus, kemur fram að framleiðni hafi vaxið um 2,2% á ári að jafnaði allt tímabilið 2000-2018. Þetta er miklu meiri framleiðnivöxtur yfir svo langan tíma en dæmi eru um í hefðbundnum atvinnuvegum bæði erlendis og í íslensku atvinnulífi. Að jafnaði er vöxtur framleiðni í grónum atvinnuvegum vel innan við 1% á ári. Árlegur ávinningur nam því allt að 3 milljörðum króna á verðlagi ársins 2020.

Þessi ávinningur er afrakstur grundvallarbreytinga sem innleiddar voru með undanþágu frá samkeppnislögum og heimild til samstarfs til að halda niðri kostnaði á grundvelli núgildandi 71. grein búvörulaga. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Það er hins vegar í beinni mótsögn við þjóðarhag að gera bændum og fyrirtækjum þeirra enn þyngra fyrir fæti, jafnvel þyngra en gengur og gerist í ESB.

Erna Bjarnadóttir
hagfræðingur

1 Sjá nánar hér: https://ec.europa.eu/info/food-farming-fisheries/farming/coronavirus-response_en
2https://ec.europa.eu/info/food-farming-fisheries/key-policies/common-agricultural-policy/market-measures/market-measures-explained_en#sectorspecificaidschemes.
3https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/10/22/Auka-tharf-nakvaemni-i-skjolun-og-eftirfylgni-tollafgreidslu-vegna-innfluttra-landbunadarafurda-/

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...