Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hvers vegna erum við kaþólskari en páfinn?
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 26. mars 2021

Hvers vegna erum við kaþólskari en páfinn?

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir,

Þegar tilskipanir ESB eru samdar og birtar er þeim yfirleitt fylgt eftir með reglugerðum. Í inngangi reglugerðanna er tilganginum lýst og í sjálfum tilskipunum eru oftast leiðbeiningar í viðauka sem tilgreina betur skyldurnar sem tilskipunin inniheldur. Faggreinaleiðbeiningar skrifaðar af fagfélögum innan landa ESB og gefnar út með samþykki eftirlitsaðila gefa svo enn betri leiðbeiningar um hvað tilskipunin þýði „í praxís“. Áhættumat, í stað nákvæmra reglna, veitir að auki verulegt svigrúm í framkvæmdinni.

Markmiðið með því að lýsa tilganginum í inngangi er að þeir sem vinni eftir reglugerðunum öðlist skilning á því hverju verið sé að reyna að ná fram í textanum, með öðrum orðum hver „andi laganna“ sé. Markmið leiðbeininganna er að skýra „á mannamáli“ hvað átt er við í tilskipuninni - sem  getur opnað fyrir staðbundna aðlögun innan ákveðinna marka. Áhættumat -sem hefur verið grunnurinn í matvælalöggjöf ESB frá 2002 en innleidd hér á landi árið 2010 - veitir svo frekara svigrúm í framkvæmdinni, eins og til að setja sérreglur um smáar einingar, þar sem áhættan þar er jafnan minni en í stórum einingum.

Hér á landi hefur tilhneigingin hins vegar verið sú að einblína á bókstaf regluverksins í stað þess að horfa til þess svigrúms sem til staðar er - og kröfum jafnvel bætt við. Hér hefur jafnframt ekki skapast sú venja að fagfélög skrifi leiðbeiningar fyrir sína félagsmenn. Aðeins tvær slíkar hafa verið gefnar út og var það í samstarfi Beint frá býli og Matís, annars vegar um framleiðslu hangikjöts og hins vegar um sauða- og geitamjaltir.

Þess má geta að reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli var sett hér á landi árið 2016. Hún hafði þó því miður ekki þau áhrif sem vonast var eftir, enda magntölur í engu samhengi við raunverulega notkun á hráefnum; var bragarbót fyrir slátrun, en varla minnst á aðra smáframleiðslu.

Þegar kemur að hindrunum sem bændur og smáframleiðendur um land allt reka sig á, er viðkvæðið jafnan að þær séu allar ESB að kenna. Staðreyndin er hins vegar sú að hindranirnar eru oft heimatilbúnar og byggja á persónulegu mati eftirlitsaðilans.

Dæmi um þetta er 24m2 vinnslurými þar sem eftirlitsaðilinn gerði kröfu um að rýmið yrði teiknað upp og ferðir um það sýndar (kallað flæði starfsfólks), jafnvel þó að samkvæmt reglugerð ætti það ekki að þurfa, þar sem eingöngu eigendurnir tveir unnu í rýminu. Þegar þessu var mótmælt var svarið „en ég má gera auknar kröfur“.

Afleiðingin er sú að það er langt frá því að vera sambærilegt hvað hægt er að gera hér á landi og innan ESB, eins og þeir sem hafa ferðast um Evrópu hafa séð með eigin augum.

Þeir sem þekkja til á Norður­löndunum staðhæfa sömu­leiðis að regluverkið hér sé í mörgu líkt og þó í mörgu líka allt annað. Hér séu hlutir bannaðir sem eru fullkomlega leyfilegir þar, enda hafa þarlendir bændur og smáframleiðendur haft tækifæri til að taka þátt í stefnumótuninni.

Dæmi um það er framleiðsla og sala á ostum úr ógerilsneyddri mjólk.

Bera íslensku þýðinguna saman við upprunalega textann 

Þýðingar á regluverki með flóknum fagheitum og orðasamböndum krefst mikillar þekkingar þýðandans svo tryggt sé að upphaflega merkingin komist nægilega vel til skila. Komma á röngum stað í setningu getur breytt merkingu hennar og innsláttarvillur haft alvarlegar afleiðingar. Dæmi er um að villa sem tengdist frumutölu í mjólk hafi valdið miklu fjárhagslegu tjóni fyrir bændur og afurðastöðvar og því að kúm hafi verið lógað af ástæðulausu.

Þess vegna er mikilvægt fyrir framleiðendur að kynna sér regluverkið á öðrum tungumálum, t.d. dönsku eða norsku og bera saman við íslensku þýðinguna og láta vita ef um ósamræmi er að ræða.

Ólíkar kröfur milli eftirlitsaðila og heilbrigðisumdæma

Þó áherslan á áhættumat gefi mikilvægt svigrúm í framkvæmdinni er vandamálið við það að ólíkir eftirlitsaðilar hafa tilhneigingu til að túlka löggjöfina á ólíkan hátt.

Afleiðingin er sú að einn eftirlitsaðili leyfir eitthvað sem annar bannar, að einn krefst kostnaðarsamra framkvæmda sem annar gerir ekki og að ólíkir eftirlitsaðilar krefjist miskostnaðarsamra framkvæmda hjá framleiðendum sem eru að gera sambærilega hluti.

Dæmi um það er að í einum landshluta þurfti að byggja forstofu til skóskipta þar sem verið var að salta kjöt fyrir reykingu, á meðan látið var óátalið að ganga beint inn af grasi inn í vinnslusal í öðrum landshluta.

Útfærslur eftirlitsaðila á reykhúsum hafa sömuleiðis verið ólíkar.  Á einum stað þurfti að tjalda með plasti innan í reykhúsið, á öðrum þurfti að leiða reykinn inn í röri, á meðan gamla húsið með eldinum inn fékk að vera á þeim þriðja. Og þó vinnsla á geita- og sauðamjólk sé nú framkvæmd vandræðalaust á flestum stöðum landsins, á það ekki við á  öllum og er vitað um aðila sem gafst upp eftir að eftirlitsaðilinn hafði þjarmað að honum langt umfram heimildir.

Ólík nálgun og kröfur heilbrigðiseftirlita landsins eru einnig óásættanlegar. Dæmi um það er þegar smáframleiðandi fer með vörur sínar á markað í öðrum landshluta þá geri heilbrigðiseftirlit þess svæðis athugasemdir við merkingar og annað sem ekki var gerð athugasemd við þegar viðkomandi fékk starfsleyfi í sínu héraði. Eins er Reykjavík eini staðurinn á landinu þar sem framleiðandi þarft að borga fyrir söluleyfi fyrir hvern þann stað/markað sem viðkomandi selur á innan borgarmarkanna.

Þörf á óháðum aðila

Bændur og smáframleiðendur sem hafa lent í því að eftirlitsaðili meini þeim að gera eitthvað sem þeir telja sig hafa leyfi til að gera samkvæmt reglugerð, hafa upplifað hversu erfitt það getur verið að kvarta yfir því. Þeir fá jafnan engin svör og hafa engan óháðan aðila innan kerfisins til að leita til. Af þeim sökum er nauðsynlegt að þeir sem telja á sér brotið af eftirlitsaðila geti skotið málum sínum til óháðs aðila.

Dæmi um aðila sem hefur reynst smáframleiðendum vel þegar slík tilvik koma upp er Matís. Þess ber þó að geta að fyrir þá þjónustu þarf að greiða og skoða mætti hvort rétt sé að niðurgreiða hana hér á landi, eins og dæmi eru um erlendis, þar sem smáframleiðendur fá styrki til að uppfylla kröfur opinberra aðila þar sem þar er talið að starfsemin sem slík, vegna smæðar, standi ekki undir öllum kröfunum. Hjá Matís starfa fagaðilar sem þekkja regluverkið vel og hafa þann starfa að aðstoða framleiðendur í gegnum ólík verkefni. Reynslan hefur sýnt að sendi þeir inn fyrirspurnir til eftirlitsstofnana fyrir hönd framleiðendanna fái þeir frekar svör og hafa náð að snúa ákvörðunum eftirlitsaðila við.

Dæmi um slíkt mál er þegar sótt var um starfsleyfi fyrir handverkssláturhúsið á  Seglbúðum. Deilan tók marga mánuði með tilheyrandi seinkun á opnun hússins. Það hafðist að lokum þar sem engar reglur eru til um hvernig eigi að flá eins og eftirlitsaðilinn staðhæfði, aðeins að skrokkurinn skuli vera ómengaður eftir fláningu.

Bændur og smáframleiðendur sem hafa lent í því að eftirlitsaðili meini þeim að gera eitthvað sem þeir telja sig hafa leyfi til að gera samkvæmt reglugerð, hafa upplifað hversu erfitt það getur verið að kvarta yfir því.
Regluverkið fyrir „þá stóru“

Hluti af vandamálinu, bæði hérlendis og erlendis, hefur einnig falist í því að regluverkið er samið í kringum starfsemi „þeirra stóru“ og á því ýmislegt sem þar kemur fram ekki við í rekstri „þeirra litlu“.

Hagsmunir ráðandi aðilanna eru að halda nýliðunum frá markaðinum og hafa í krafti stærðar sinnar og áhrifa náð að halda regluverkinu þannig að það dragi úr nýliðun og möguleikum smáframleiðenda til að stunda sinn rekstur á arðbæran hátt. Staðfest dæmi eru um að þeir hafi á ósvífinn hátt beitt sér gegn breytingum sem eiga að auðvelda og gera smáframleiðslu arðbærari.

Þetta virðist þó sem betur fer vera að breytast innan ESB. Þar er mikil áhersla lögð á mikilvægi smáframleiðenda – meðal annars í gegnum „Farm to Fork“ verkefnið og „Green Deal“ áætlanirnar. Ráðherra málaflokksins hér á landi hefur sömuleiðis sýnt einföldun regluverks og auknu svigrúmi mikinn áhuga og hafa samtökin verið beðin um að koma með tillögur því tengdu.

Þau tvö mál sem hafa verið mest áberandi í tengslum við aukið frelsi heimavinnsluaðila til athafna er hið svokallaða „örsláturhúsamál“ sem eftirlitsstofnanir hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja og hindra. Hitt eru bleikjurnar í bæjarlæknum á Völlum, en þar var bóndinn krafinn um hálfa milljón fyrir rekstrarleyfi sem strangt eftirlit yrði svo með, ellegar skyldi hann farga bleikjunum. Samtökin sendu inn umsögn um frumvarp þar sem þau lögðu til að sé aðili á lögbýli með þúsund fiska eða færri í eigin tjörn, vatni eða læk, þurfi engin sérstök leyfi eða eftirlit og það falla undir smáræðisreglugerð. Því miður rataði sú tillaga ekki inn í lokaútgáfu reglugerðarinnar sem gerir allt að 20 tonna landeldi einungis skráningarskyld sem þó er sannarlega til bóta.

Margir bændur ala nokkra alifugla og kanínur meðfram öðrum búskap. Þeir geta þó ekki selt af þeim kjötið, því þeir mega ekki slátra sjálfir til sölu og sláturhúsin neita að taka við þeim, en væru það villiendur og kanínur sem veiddar hefðu verið væri það leyfilegt samkvæmt smáræðisreglugerðinni. Sama á við um svín sem ganga laus við bæ. Til að mega selja kjötið þarf að uppfylla kröfur aðbúnaðarreglugerðar sem eru miðaðar við hefðbundin svínabú.

Að lokum má geta þess að síðan lög um skeldýrarækt voru sett árið 2012 hefur engin nýliðun orðið í greininni og þeim sem stunduðu hana áður fækkað. Enda kallaði formaður SA þau í viðtali „lög um bann við skeldýrarækt“.

Ofangreint hefur valdið því að  neytendur hér á landi hafa einungis aðgang að innfluttum slíkum vörum sem er þyngra en tárum taki. 

Slow Food barist fyrir hagsmunum smáframleiðenda

Innan ESB hafa Slow Food samtökin verið einna öflugust í að berjast fyrir hagsmunum smáframleiðenda og hefur Slow Food á Íslandi beitt sér hér á landi.

Samtök smáframleiðenda matvæla hafa meðal annars það markmið að stuðla að auknum fjölbreytileika og verðmætasköpun og þann tilgang að vinna að því að löggjöfin og starfsumhverfi smáframleiðenda gefi þeim færi á að blómstra. Lykil verkefni samtakanna í ár er að vinna að málefnum tengdum löggjöfinni.

Það er mikill styrkur fyrir samtökin að Slow Food á Íslandi sé aukaaðili að samtökunum og helstu fulltrúar þess og formaður Slow Food Nordic í ráðgjafaráði, ásamt fjölda annarra einstaklinga með mikla reynslu og þekkingu á málefnum samtakanna.

Vilji allt sem þarf

Hægt er að skapa sama svigrúm og möguleika hér á landi með því að líta til þeirra tækifæra sem til staðar eru innan regluverks ESB, í stað hindrana sem þrengja óhóflega að athafnafrelsi smáframleiðenda. Í því felst vinna, ef vel á að vera, en ávinningurinn margfalt meiri.

Ef vilji er fyrir því að draga úr óþarfa kostnaði, íþyngjandi kröfum og hindrunum sem eru í vegi heimavinnsluaðila og annarra smáframleiðenda er mikilvægt að þeir sem vinna að innleiðingu regluverksins og framkvæmd þess, þ.m.t. lögfræðingar eftirlitsaðila, skipti um gleraugu; taki þröngsýnisgleraugun af sér og setji á sig lausnamiðuðu gleraugun.

Slík hugarfarsbreyting myndi stuðla að aukinni grósku í matvælaframleiðslu hér á landi og gefa neytendum aðgang að fjölbreyttara úrvali öruggra gæðamatvæla framleiddum hringinn í kringum landið. Samhliða því myndu ný störf skapast og þjóðartekjur aukast sem og líkur á jákvæðri byggðaþróun, enda stór hluti þessara starfa á landsbyggðinni.

Því er til mikils að vinna.

 

Oddný Anna Björnsdóttir,
framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...