Hversu vel erum við bændur tryggðir?
Veðurfar er síbreytilegt eins og við vitum en nú blasir við okkur nýr raunveruleiki óstöðugs veðurfars, t.d. með hamfaraveðrum eins og því sem skall á í lok árs 2019 með tilheyrandi rafmagnsleysi og öllu því veseni sem því fylgir í tæknivæddum búskap.
Því fylgdi líka ófærð og fannfergi þar sem meðal annars gripir fenntu inni og drápust. Það er okkur líka ennþá í fersku minni aurskriðurnar sem að féllu bæði á Seyðisfirði og í Kinninni, eftir ofsarigningar sem að skildu eftir sig berar hlíðar og aur út um allar koppagrundir.
Á Íslandi reka náttúruhamfarir hverjar aðrar, ef það er ekki nýafstaðið eldgos eins og í Geldingadal, þá eigum við bara von á öðru úr Heklu eða jafnvel Grímsvötnum. Við vitum reyndar aldrei við hverju má búast í þeim efnum, hvernig þær hitta okkur bændur sem og aðra fyrir. Auk þess eru annars konar hamfarir sem geta orðið gripum okkar að fjörtjóni eða afurðamissi svo sem veikindi hjá bústofninum. Við könnumst við veiruskitu en hún hefur einmitt verið hér á ferðinni norðanlands með veikindum – og í verstu tilfellum dauða – hjá kúm með tilheyrandi afurðatapi og missi.
En svo eru líka þarna úti í heimi, landlægir alls kyns dýra- og plöntusjúkdómar sem við þekkjum hvorki haus né sporð á, sem gætu dúkkað hér upp hvenær sem er ef ekki er varlega farið. Alls þess vegna vilja bændur tryggja sig og vera vel tryggðir, en erum við það?
Tryggingar í boði fyrir bændur
Það fyrsta sem kom upp í hugann við þessi skrif var Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) sem var stofnuð árið 1975, hét að vísu þá Viðlagatrygging Íslands. Var NTÍ sett á laggirnar í kjölfar eldgossins á Heimaey árið 1973, og mannskæðs snjóflóðs í Neskaupstað árið 1974. Helsta hlutverk NTÍ er að vátryggja húseignir og lausafé á Íslandi gegn náttúruhamförum sem eru þá eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð. Allar húseignir eru tryggðar og það lausafé sem er brunatryggt hjá almennum tryggingafyrirtækjum. Það er ekki tryggt gegn afleiddu tjóni eða tjóni af völdum truflana sem verða í kjölfarið á náttúruhamförum. Iðgjaldið er 0,25% af vátryggingarfjárhæð sem er jafn há brunatryggingarfjárhæð á húseignum, innbúi og lausafé. Almenn vátryggingafélög innheimta iðgjöld fyrir NTÍ samhliða innheimtu á iðgjöldum á brunatryggingum. Þannig er allt sem er brunatryggt, tryggt fyrir þessum hamförum beint en allar óbeinar afleiðingar ekki.
Almenn tryggingafélög bjóða upp á landbúnaðartryggingar fyrir þá sem stunda hefðbundinn búskap svo sem sauðfjár- og nautgriparækt, aðrar greinar þurfa að láta tryggja hjá sér sérstaklega. Í landbúnaðartryggingunni er tryggt hið svokallaða lausafé sem er þá í þessu tilviki búfé, hey, fóður, áhöld og tæki fyrir bruna. Einnig er bústofn tryggður fyrir raflosti og umferðaróhöppum. Þar er líka rekstrarstöðvunartrygging ef rekstur stöðvast vegna bruna. Þarna er lykilorðið brunatryggðir, þar með er lausaféð (búfé, hey, fóður, áhöld og tæki) tryggt hjá NTÍ. Sem þýðir að lausaféð er tryggt fyrir hamförum ýmiss konar.
En þá þarf viðkomandi auðvitað að vera með landbúnaðartryggingu, sem ekki er skylda.
Bjargráðasjóður fyrr og nú
Þannig er að Bjargráðasjóður er á föstum fjárlögum en um er að ræða lága upphæð. Sem skýrist af því að ekki er vilji af hálfu ríkisins til að safna háum fjárhæðum upp í sjóði. Hins vegar hefur ríkið lagt til auka fjármagn í sjóðinn þegar mikið tjón hefur orðið. Þegar til tjóns kemur af náttúruhamförum sem heyrir undir Bjargráðasjóð þá er tjónið metið en svo ræðst það af stöðu sjóðsins hverju sinni hversu hátt hlutfall af metnu tjóni tjónþoli fær bætt, með styrk. Svo ef bændur lenda í mjög svipuðum tjónum sem sjóðurinn bætir, t.d kal í túnum, með nokkurra ára millibili, þá er alls ekki víst að þeir fái sama hlutfall af tjóni bætt, þar sem úthlutun byggir á því hvernig sjóðurinn stendur hverju sinni. Ekki mikið jafnræði þar. Þær breytingar hafa orðið á högum Bjargráðasjóðs að í byrjun mars 2022 tók NTÍ yfir umsýslu sjóðsins. Engar breytingar urðu á stjórn sjóðsins, en vonandi meiri formfesta á úthlutun.
Í hamförum af stórum skala, t.d. öskufallið í Eyjafjallajökulsgosinu og þegar mikil kaltjón hafa orðið, þá hefur ríkið gripið inn í og aukið framlag í sjóðinn. En hvað bætir Bjargráðasjóðurinn eiginlega?
Í megindráttum skiptist það í þrennt:
- Gjaldskyldar fasteignir, girðingar, tún og rafmagnslínur tengdar landbúnaði.
- Hey sem notað er í landbúnaðarframleiðslu.
- Uppskerubrest af völdum kals, þurrka, óþurrka og óvenjulegra kulda.
Svona lítur þá Bjargráðasjóður út í dag, í stuttu máli, en þetta var ekki alltaf svona. Bjargráðasjóður hinn forni var nefnilega með A-almenna deild og B-búnaðardeild. A-deildin sá um að styrkja einstaklinga, félög og sveitarfélög sem höfðu lent í meiriháttar beinu tjóni af völdum náttúruhamfara. B-deildin hins vegar bætti meiriháttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa á búfé þegar ekki var hægt að kenna gáleysi eða ásetningi eigenda eða umráðamanna um og allar eðlilegar varnir við hafðar. Ekki var bætt tjón sem hægt var að tryggja annars staðar. A-deildin var fjármögnuð með ríki og sveitarfélögunum en núna er það aðeins ríkið sem sér um fjármögnunina og sveitarfélögin geta ekki sótt í sjóðinn. B-deildin var hins vegar fjármögnuð af búnaðargjaldinu sáluga og hvarf þegar það var afnumið og er því ekki til í dag.
En þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Við bændur erum ekki tryggðir og virðumst ekki geta tryggt okkur á sama hátt og gert var með B-deildinni. Jafnframt vantar að hægt sé að tryggja tjón af völdum plöntusjúkdóma og afurðatjóns, já og öflugri rekstrarstöðvunartryggingar. Hvað þá ef hörmulegir búfjársjúkdómar fara að herja meira á okkur? Hvað gera bændur þá?
En hvað er verið að gera í dag?
Það hefur verið vitað í langan tíma að þessi tryggingamál okkar bænda hafa verið í nokkrum ólestri eftir að Bjargráðasjóður var skilinn eftir með svo lítil fjárráð. Árið 2012 var skipaður starfshópur um þessi mál sem skilaði skýrslu 2013 sem virðist lítið hafa verið gert með, en þar var lagður til Hamfarasjóður en B-deild Bjargráðasjóðs ekki með. Aftur er svo skipaður hópur 2015 sem skilar skýrslu 2016 um Hamfarasjóð þar sem átti að sameina Ofanflóðasjóð og Bjargráðasjóð A-deild, en ekki B-deild. Um þetta leyti var búnaðargjaldið að leggjast af og því tilvist B-deildar að engu að verða. Það var nokkuð óljóst hver átti að taka við því hlutverki og síðan þá hefur ekkert gerst til að varpa ljósi á það. Nú er búið að stofna enn einn starfshópinn um sama mál og leyfi ég mér að vera bjartsýn, segir ekki máltækið allt er þegar þrennt er?
Ég hvet starfshópinn eindregið til að huga vel að fjármögnun á þeim tillögum sem þau koma fram með. Það er ljóst að bændur þurfa betri tryggingar sem meðal annars taka til alls þess sem B-deildin tók til. Einnig tryggingar fyrir uppskerubrest hvort sem er af völdum veðurs og/eða dýra. Við bændur megum ekki sætta okkur við að vera verr tryggð en kollegar okkar í þeim löndum sem við berum okkur saman við, hvorki að umfangi né fjárhæðum.
Vaka Sigurðardóttir,
bóndi Dagverðareyri,
stjórnarmaður hjá Nautgripabændum BÍ (NautBÍ)
og formaður Félags eyfirskra kúabænda (FEK).