Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Laxar í landeldiskeri.
Laxar í landeldiskeri.
Lesendarýni 14. júlí 2022

Landeldi laxfiska

Höfundur: Rúnar Þór Þórarinsson, stjórnandi sjálfbærni- og nýsköpunar hjá Landeldi hf. og stjórnarformaður ELDÍS.

Nú stendur yfir undirbúningur hérlendis undir stóraukna framleiðslu á laxi sem alinn er á landi eingöngu, svonefnt landeldi.

Rúnar Þór Þórarinsson

Innan fárra ára munu hafa risið landeldisstöðvar á Íslandi sem framleiða umtalsvert magn af laxi, eða sem nemur ríflega 100.000 tonnum á ársgrundvelli. Hingað til hefur lax hér á landi nánast eingöngu verið alinn í sjókvíum, svo hvað veldur því að augu íslenskra laxeldisbænda beinast nú í auknum mæli upp á fast land?

Hvers vegna laxeldi?

Ýmsar ástæður liggja að baki því að laxeldi er talið fýsilegur kostur til matvælaframleiðslu. Fyrir það fyrsta má nefna að fóðurstuðull laxa og silunga, þ.e. það magn fóðurs sem þarf til að framleiða 1 kg af laxi, er um 1,2. Þannig þarf 1,2 kg af fóðri til að ala hvert kíló af laxi, og framangreint hlutfall er hvergi lægra í matvælaframleiðslu. Þetta skýrist af því að laxinn lifir í vatni og keppir því ekki við þyngdarlögmálið. Hann vinnur t.d. kalk, úr sjónum og eins er blóð hans kalt svo orkuþörfin er gríðarlega lítil. Til samanburðar má nefna að fóðurstuðull í kjúklingarækt er í kringum 2,5, í sauðfjárrækt frá um 5,5 og um tvöfalt það í nautgriparækt. Fóður eða hráefni til landeldis er hins vegar innflutt að miklu leyti og þar liggja talsverð sóknarfæri til framtíðar.

Fiskeldi er í örum vexti

Heildarmagn eldisafurða sem framleiddar voru hérlendis áttfaldaðist milli áranna 2010 og 2020, og munar þar langmestu um laxeldi. Á árinu 2021 komu 12% af heildar útflutningsverðmætum íslensks sjávarútvegs frá eldisafurðum, eða sem nam 36 milljörðum króna.

Var þar um að ræða 23% aukningu frá árinu á undan. Þá aukningu sem orðið hefur í greininni má að langstærstu leyti rekja til sjókvíaeldis, en á árinu 2021 var 44,5 þúsund tonnum slátrað úr sjókvíaeldisstöðvum og hefur sú tala aldrei verið hærri. Til samanburðar var einungis 2.000 tonnum af laxi slátrað úr landeldisstöðvum á sama ári, og kom það allt úr eldisstöð Samherja í Öxarfirði.

Nokkur stígandi var í bleikjueldi á síðasta áratug, fram til ársins 2019, en síðan hefur dregið aðeins úr. Á árinu 2021 var um 5,4 þúsund tonnum af bleikju slátrað.

Landeldi ryður sér til rúms

Hvað landeldi, sem þýðir fulleldi fiska á landi eingöngu, varðar hefur stærsti þröskuldurinn hingað til verið hár kostnaður við uppsetningu fulleldisstöðva á landi. Kostnaður við uppsetningu slíkrar stöðvar er um það bil tífaldur á við sjókvíaeldisstöð, svo þar munar um minna. Á síðustu árum hafa þó rannsóknir og niðurstöður framsýnna frumkvöðla bent eindregið til þess að með nýjustu tækni sé vel hægt að skapa arðbært laxeldi á landi, að því gefnu að nauðsynlegir landfræðilegir grunnþættir séu til staðar. Enn fremur eru möguleikar fyrir hendi til að nýta aukaafurðir sem til falla við landeldi.

Þannig má nýta fiskimykju í áburð, dauðfisk í vetnisframleiðslu og affallsvatn í gróðurhús og grænmetisrækt.

Í landeldi er jafnframt öllum aðstæðum stýrt, svo hættan á sjúkdómum og innrás sníkjudýra er lágmörkuð, og slysasleppingar afar hæpnar. Annar kostur við landeldi er sá að hægt er að svara kalli markaðarins með eins nákvæmum hætti og frekast má verða.

Landeldisfyrirtæki geta þannig stýrt því framboði sem þarf á hverjum tíma og slátrað jafnt og þétt, allt eftir þörfum markaðarins og eftirspurn á hverjum tíma.

Úrgangur – hráefni - áburður

Þá er ótalin sú staðreynd að landeldi hefur opnað á mikla möguleika á verðmætasköpun úr fiskimykju og dauðfiski úr landeldi þar eð unnt er að safna öllu sem til fellur úr kerjum á landi. Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing milli Bændasamtakanna og nýstofnaðra Landeldissamtaka Íslands um að vinna saman að nýtingu lífræns úrgangs, bæði fiskimykju og búfjárúrgangs, til framleiðslu áburðar hér landi.

Efnasamsetning hráefnanna veldur því að með samblöndun og áframvinnslu þeirra má búa til gríðarlegt magn kröftugs, fjölnota áburðar og draga úr því sem flytja þarf inn.

Aðstæður til uppbyggingar landeldis hvergi ákjósanlegri en hér á landi

Sigurður Pétursson, stofnandi Arctic Fish og framkvæmdastjóri fræðslumiðstöðvarinnar um laxeldi, Lax-inn, segist búast við mikilli framþróun í bæði sjóeldi og landeldi á komandi árum, en enn sem komið er komi yfir 99% af eldi á Atlantshafslaxi úr sjóeldi. Hann hefur tröllatrú á að landeldi muni aukast til muna en að sama skapi muni ryðja sér til rúms ný tækni við sjóeldi, svo sem úthafseldi. Eins séu möguleikar á svokölluðu fjöleldi, þar sem tengd er saman þararækt, skelfiskrækt og fiskeldi, og einnig komi lokuð kerfi til með að ryðja sér til rúms á komandi tímum. Staðreyndin sé þó sú að líklega sé ekkert landsvæði í heiminum jafn vel til landeldis á laxi fallið og Ísland. „Hér er aðgangur að nægu ferskvatni, hér er hægt að dæla upp borholusjó, við höfum græna raforku og jarðhita. Slíkar aðstæður er ekki að finna neins staðar í heiminum nema hér, og þá sérstaklega á suðurhorni landsins. Aðstæður til uppbyggingar landeldis eru því hvergi í heiminum ákjósanlegri en akkúrat hér,“ segir Sigurður Pétursson.

Það er því ljóst að mikið er fram undan í landeldismálum hérlendis og að um auðugan garð er að gresja í þeim efnum. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Skylt efni: lax | laxeldi | landeldi

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...