Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sauðfjárbyggðirnar hrópa á hjálp
Lesendarýni 5. júlí 2017

Sauðfjárbyggðirnar hrópa á hjálp

Við Íslendingar eigum að byggja landið allt og tryggja búsetu með margvíslegum leiðum, oft var þörf en nú er nauðsyn. 
 
Síðasti sauðfjársamningur kemur ekki til með að verða það haldreipi sem tryggir sauðfjárbúskap og líf í einhæfum sauðfjárbyggðum sem nú eiga reyndar marga viðbótarmöguleika,verði byggðastefna sett á dagskrá. Tvær mikilvægar ráðstefnur fóru fram á dögunum um byggðamál, önnur í Varmahlíð að frumkvæði Kaupfélags Skagfirðinga. Hin var íbúaþing sem Árneshreppur, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Byggðastofnun stóðu fyrir í félagsheimilinu Árnesi: „Þar sem vegurinn endar“. 
 
Á íbúaþinginu kom fram að ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða er hætta á því að heilsársbyggð í Árneshreppi á Ströndum leggist af.
 
Við skulum átta okkur á því að það er víða í þessu efni „Árneshreppur“, sem hnígur að þessu sólarlagi verði ekki mörkuð róttæk byggðastefna gagnvart heilu héruðunum víða um land. Flest eiga þessi héruð það sammerkt að sauðfjárbúskapur er þar aðalsmerki, að auki auðlindir í ám og vötnum og nú ný tækifæri í ferðamannaþjónustunni. Galið væri það af okkur sem þjóð að leggja landið nú í eyði eða selja það erlendum auðjöfrum sem greina framtíðarauðæfin einstök og milljarða virði, en kaupa á hrakvirði.
 
Á sama tíma koma milljónir ferðamanna hingað til að upplifa ósnortna náttúru og sjá bændabýlin smáu, dást að fágætum auðæfum, einstökum matvælum sem við Íslendingar eigum í deyjandi veröld spilliefnanna.  En á sama tíma er fólki ekki kleift að búa á þessum stöðum, þar ræður miklu fleira en afkoma sauðfjárbúanna, því er endurreisn byggðanna fjölþætt verkefni. Sorglegt ef eyðibýlin með tóma glugga taki nú við af gamalgróinni byggð sem fóstraði duglegt fólk í aldanna rás. 
 
Bretar eru nú að fara í öfluga byggðastefnu, ætla að reisa 17 þorp á landsbyggðinni hjá sér.  Þorp með allri mannlegri þjónustu, atvinnu og ódýrum íbúðum til að styrkja byggð og bjóða upp á aðra leið gegn hinu himinháa íbúðaverði í London. Kannast einhver við svipaðar aðstæður t.d. í höfuðborginni okkar? Getum við lært eitthvað af Bretum, jafnvel ljósritað þeirra hugmynd og yfirfært hana á Ísland?
 
Þetta er hraðskák, Bjarni Benediktsson
 
Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef ekkert verður gert í sumar í málefnum sauðfjárbænda og yfir þá skellur enn hrina lækkaðs verðs á lambakjöti  í haust verður fólksflótti út úr atvinnugreininni og það verður yngra fólkið sem fer. Þegar talað er um sauðfjárbændabyggðir þá eru stór landsvæði þar undir, það má segja að auk Strandasýslu sverfi að Húnavatnssýslunum báðum, Vestfjörðum og Dalasýslu, jafnvel Vesturlandi öllu. Skagafjörðurinn er sterkari, það gerir skagfirska efnahagssvæðið, og Eyjafjörðurinn er öflugasta svæðið á landsbyggðinni. Svo er það Norðausturlandið, bæði í Þingeyjarsýslum og Austurlandi, svo Öræfin og Vestur-Skaftafellssýsla, en þar kreppir að. Er það verjandi að ríkisstjórn og Alþingi horfi á þessi fallegu og mikilvægu landsvæði tapa frá sér unga fólkinu og verða auðninni að bráð, á sama tíma og við þurfum þarna ungt og öflugt fólk sem sinnir skapandi störfum og tekur m.a. á móti ferðamönnunum en ferðaþjónustan er nú orðinn stærsti atvinnuvegur landsins? 
 
Norðmenn kunna að byggja sitt land og eru nú að njóta þess að hafa haldið uppi byggð í landinu öllu. Við eigum að gera þá kröfu að ríkisstjórnin og Alþingi Íslendinga hlusti nú á kall nýs tíma og fari að úrræðum Norðmanna og Breta og spýti hressilega fjármagni og nýjum úrræðum inn í byggðamál. 
 
Eina byggðaaðgerðin sem ég hef séð í vor er samkomulag þriggja ráðherra við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um að færa honum og Reykjavík, ríkisins land á silfurfati, þar á meðal Keldnalandið. 
 
Bretarnir fara öðruvísi að, þeir horfa til sinnar landsbyggðar við sams konar aðstæður. Nú verður að grípa til aðgerða og efla sauðfjárbændur þessara svæða, efla þjónustu í þorpum þessara landsvæða, leggja fé í vegi og samgöngubætur. Meta hvort leiðir í skattamálum eða VSK-kerfinu gagnist hér eins og í Noregi, og fleira og fleira.
 
Best gæti ég trúað að um slíka stefnu ríkti þjóðarsamstaða, því fólkið í höfuðborginni vill sjá líf og kraft í landsbyggðunum. Þar eigum við öll rætur okkar og þar liggja tækifæri og verðmætasköpun sem skiptir okkur öll sem þjóð máli. Ríkisstjórnin á fyrsta leik og hefur hvítt í skákinni, þetta er hraðskák,  Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. 
 
Nú verður að bretta upp ermar
 
Nú verða bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávar­útvegs-, landbúnaðar- og byggðamála­ráðherra og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að bretta upp ermarnar, ég treysti þeim til þess. Enn fremur verða þeir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar og fyrrum foringi Bændasamtakanna, að koma af fullum krafti að mótun nýrrar byggðastefnu. Ég efast ekki um góðan vilja bæði framsóknar-­manna og Vinstri grænna í þessu efni eða annarra flokka á Alþingi. Þessi stefnumótun er brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir.
 
Guðni Ágústsson
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...