Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sauðfjárrækt og landnýting í fortíð og framtíð
Mynd / Halldóra Andrésdóttir
Lesendarýni 6. júní 2017

Sauðfjárrækt og landnýting í fortíð og framtíð

Höfundur: Egill Gautason Engihlíð, Vopnafirði
Erfið staða er hjá mörgum sauðfjár­bændum vegna lágs afurðaverðs. Þrátt fyrir það setti landsfundur Landssamtaka sauðfjárbænda nýlega metnaðarfulla stefnu til ársins 2027, meðal annars um kolefnisjöfnun og sjálfbærni til framtíðar. 
 
Stefnan er metnaðarfull og sauðfjárbændum til sóma. Við þessar aðstæður, metnaðarfulla umhverfisstefnu en slæma afkomu, tel ég nauðsynlegt fyrir sauðfjárbændur og annað sveitafólk að fara í vandlega naflaskoðun og gera grundvallarbreytingar, ekki síst á hugarfari.
 
Ég tel að tækifæri íslenskra sveita séu mikil. En því miður er það staðreynd að drjúgur fjöldi Mörlanda vill ekki vita sannleikann um sambýli manns og náttúru á Garðarshólma gegnum aldirnar. Því miður hefur það verið svo að það jafngildir nærri því ónýtu mannorði innan landbúnaðargeirans að fjalla af hreinskiptni um þessi mál.
 
Allir þekkja þá fullyrðingu Ara fróða að Ísland hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Rannsóknir bestu manna hníga að því að þetta sé rétt. Talið er að skógar hafi þakið fjórðung til þriðjung af flatarmáli landsins og tveir þriðju hlutar landsins verið grónir. Því miður er alþýða ekki nógu meðvituð um þessa staðreynd. En hver er staðan í dag? Eftir starf okkar í tólfhundruð sumur frá landnámi blasir við hryggðarmynd. Einungis rúmur þriðjungur lands er gróinn. Þar af er stærstur hluti, um fjórðungur landsins, rýrt mólendi, sem hefur ákaflega litla framleiðni og beitargildi. Tæpur helmingur lands er lítt gróinn, hálfgróinn eða mosavaxinn. Kjarr- og skóglendi þekur um 1% landsins. Graslendi, og ríkt mólendi nær ekki 10% þekju.
 
Við lestur fornsagna birtist manni gegnum línurnar mynd af öðru Íslandi en við þekkjum. Íslendingar stunduðu þá kornrækt og stórbúskap með kýr og svín. Skógurinn var hogginn og í trjálundum þessa tíma ríkti annað loftslag en við þekkjum úr íslenskum sveitum nútíðar.
 
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var hér ríkidæmi sem ól af sér þann arf sem skapaði sjálfsmynd okkar þjóðar. Höfuðskáld norðurlanda, Snorri Sturluson, var einn mesti höfðingi Íslands í sinni tíð og bjó stórbýli í Reykjaholti og átti bú víða um Vestur- og Suðurland. Handritin, einstakt framlag lítillar þjóðar til heimsmenningarinnar, urðu til í ríku samfélagi þjóðveldisaldarinnar. Sögurnar okkar sýna okkur mynd af landi sem var um margt ólíkt því sem við þekkjum. Byggðamörk voru hærri. Gróðurmörk voru hærri. Styttra var milli áfanga en síðar varð og auðveldara að ferðast milli landshluta.
 
Landgæðum hnignaði
 
Snemma fór landgæðum þó að hnigna. Í fornum sögum er greint frá hnignandi landgæðum strax á 12. og 13. öld. Skógurinn var felldur til smíða, kolagerðar og annarra nytja. Komið var í veg fyrir endurnýjun bjarkanna með peningsbeit. Fram á þennan dag má sjá birkiskóg vaxa upp af gamalli rót þar sem land er friðað fyrir beit, jafnvel þó ekki hafi sést bjarkarhrísla á svæðinu fyrir friðun. Öll rök hníga að því að skógar hafi eyðst vegna landnáms manna. 
 
Öskufall kæfir ekki skóga, botngróður getur kafnað í öskunni en hávaxinn trjá- og runnagróður lifir áfram. Askan getur raunar nært skóginn. Íslenskir skógar mynduðu verndarhjúp kringum eldfjöllin. Þegar þessarar verndunar naut ekki lengur við hófst landeyðingin fyrir alvöru. 
 
Skógarnir voru undirstaða velmegunar á fyrstu öldum Íslands­byggðar og við eyddum þeim, óafvitandi um afleiðingarnar. Þó er þeim ósannindum sífellt haldið fram að kólnandi veðurfari og eldgosum sé um að kenna. Fræðimönnum sem benda á gögn máli sínu til stuðnings eru útmálaðir „óvinir sauðkindarinnar“, en það er einhver versta einkunn sem hægt er að gefa fólki í íslenskum sveitum. Þar með hefst aldalöng niðurlægingarsaga Íslendinga, sem lýkur ekki fyrr en Íslendingar efnast á fiskveiðum á tuttugustu öld. Á öndverðri nítjándu öld var hér „hnípin þjóð í vanda“ í landi sem var á barmi tortímingar vegna gróðureyðingar.
 
Afleiðing hnignandi landkosta var aukin sauðfjárrækt
 
Svo óheppilega vildi til að í kjölfar á eyðingu skóganna kólnaði loftslag sem enn jók á hremmingar þjóðarinnar. Kornrækt lagðist af og um 1600 dó íslenski svínastofninn út. Afleiðing hnignandi landkosta var aukin sauðfjárrækt. Hún þolir vel óblítt veðurfar og er dugleg að hafa uppi á gróðursneplum og mynda afurðir á rýru landi. Sauðkindin er táknmynd óláns og niðurlægingar okkar þjóðar. Sauðkindin hefur gagnast okkur vel, en því miður jók hún einnig á hremmingar okkar.
 
Þess ber að geta að hnignandi landgæði vegna skógareyðingar og ofbeitar einskorðast ekki við Ísland. Ótalmargar þjóðir glíma og hafa glímt við sama vandamál og Íslendingar. Við Miðjarðarhaf og í Austurlöndum nær er ástand víða gríðarslæmt. Óvíða hafa hörmungarnar þó verið eins miklar og hér á landi. Víðast hjá siðuðum þjóðum hefur vörsluskylda búfjár orðið regla, eftir því sem ég best veit. Nefna má að í Bandaríkjunum hvarf starfstéttin „kábojar“ nærri algjörlega þegar landeigendur þar vestra hófu að girða land sitt af með gaddavír, til að koma í veg fyrir átroðning annarra manna búfjár. 
En hvernig standa málin nú? Orðræða um sauðfé er öll hin undarlegasta hér í landi. Þess er iðulega krafist í umræðum um sauðfé að viðurkennd sé hin dygga þjónusta hennar við þjóðina gegnum aldirnar. Setninguna „ekki má gleyma því að sauðkindin hélt lífi í íslensku þjóðinni“ heyrir maður oft. Raunar virðist þessi viðurkenning vera nauðsynlegur inngangur að allri umræðu þar sem nokkuð er fundið þessum búpening til foráttu. Nokkurskonar ritningarlestur eða trúarjátning. Fyrirtaksaðferð til þess að ávinna sér hatur íslenskra sauðfjárbænda er að tala um kindina sem t.d. bitvarg eða meindýr. Slíkt er nærri því guðlast. 
 
Hugarfarsvandinn
 
Sjaldnar er talað um íslensku mjólkurkúnna á þennan andaktuga hátt, þó færa megi rök fyrir því að hennar þáttur hafi verið mikilvægari við að halda lífi í þjóðinni. Í hörðum árum var sauðfé skorið niður frekar en nautpeningur. Þetta íslenska óeðli birtist að nokkru leyti í dálæti okkar á Bjarti í Sumarhúsum. Illmennið Bjartur, sem elskaði sauðfé en var meinilla við kúna, hefur í augum margra Íslendinga orðið að hetju.
Talað er um kindina sem kórónu sköpunarverksins og sitthvað annað má til telja. Vera má að með skrumi þessu sé verið að fela minnimáttarkennd. Maður spyr sig.
 
Stundum fæ ég á tilfinninguna að bændur landsins séu að reyna að endurgreiða þessari skepnu þjónustu sem innt var af hendi á fyrri öldum. Því er oft tekið stirðlega af bændafólki ef bornar eru nokkrar brigður á meint gæði íslensks lambakjöts. Raunar slær menn iðulega hljóða að heyra slíka fullyrðingu. Því er oftlega haldið fram sem sérstökum rökum fyrir beit á örfoka landi að kjötið verði óætt ef sauðpeningur fær ekki að valsa frjáls um víð heiðalönd, oft að stærstu leyti auðnir. Það hefur nefnilega verið ákveðið að íslenska lambakjötið sé besta lambakjöt í heiminum, og jafnvel víðar. Það er í hróplegu ósamræmi við þann raunveruleika að nóg er til af óætu íslensku lambakjöti. Margar sögur hef ég heyrt af fólki sem hefur hent lambakjöti óétnu því það var varla bjóðandi hundum. Og ég hef lent í því sjálfur.
 
Viðkvæmni sauðfjárbænda kemur einnig í ljós ef vakið er máls á því að nokkur óþægindi séu af lausagöngu sauðfjár. Jafnvel ljáð máls á því að meiri sómi væri að kindinni innan girðingar heldur en utan. Það er þó ekkert miðað við viðbrögðin sem fást þegar minnst drepið er í hálfkæringi á því að enn tíðkist ofbeit á beitarsvæðum þessara loðnu vinkvenna okkar. Það hefur nefnilega verið ákveðið að þau mál séu öll komin í lag. Að þetta sé besti heimur allra heima. Að land sé í framför. Að bændur hafi skilning á vandamálinu, sem er samt í rauninni ekki til. Og því óþarfi að ræða það.
 
Viðurkenning vandans
 
Ég fæ ekki séð að mikið rými sé til þess að bæta sig þegar því er staðfastlega haldið fram að framleiðslukerfið sé fullkomið. Til þess að leysa vandamál eins og jarðvegseyðingu þarf fyrst að viðurkenna að vandamálið sé til staðar. Það er sjaldnast gert í þessari atvinnugrein. Frekar er talað um eitthvað annað, t.d. villta fuglastofna, hross og ágang ferðamanna. Það má ræða þau mál samhliða. En gæsir eru gæsir og kindur eru kindur, eins og Einar í Undirhlíð hefði orðað það. 
 
Hin síendurtekna fullyrðing um land í framför er áreiðanlega að nokkru leyti rétt. Sjálfur hef ég séð miklar breytingar á beittu og óbeittu landi frá því að ég fór að muna eftir mér. Fregnir herma að víða í léttbeittu landi sé birki og víðir í mikilli sókn, jafnvel svo að til (lúxus)vandræða horfi. Þó er það ekki tilfellið allsstaðar. Víða um land, í láglendi og á hálendi sér maður brúnar moldir og rofabörð sem annaðhvort fjúka eða skolast burt með fallvötnum. Á vorin sér fólk með opin augun víða um land miklar gróðurskemmdir vegna vatnsrofs. Víða um land sjást fjallshlíðar sem ekki halda jarðvegi, sem síðan rennur niður á láglendi. Eftir standa gróðurlausar hlíðar. Þetta gefur að líta um allt land.
 
Það má ekki skilja mig sem svo að ég telji að friðun lands sé eina lausnin. Vandamálið er mun djúpstæðara en svo. Víða er landeyðing svo mikil að friðun hefur engin áhrif, nema litið sé til árhundraða. Sérstæð jarðvegsgerð gerir það að verkum að frostlyfting heldur landi gróðurlausu árhundruðum saman ef ekki koma til inngrip önnur en friðun. Sums staðar skilar friðun þó ótrúlegum framförum á fáum árum. Köfnunarefnisbinding er lítil í íslenskum vistkerfum og því tekur það langan tíma að byggja upp frjósemi á auðnum án inngripa. Þó að íslenskur jarðvegur sé rofgjarn getur hann þó verið mjög frjósamur ef rétt er með hann farið. Náttúra Íslands er miskunnarlaus en gjöful. Þar er happ okkar fólgið.
 
Hægt að umbylta loftslagi og ræktunarskilyrðum með trjárækt
 
Þörf er á inngripum. Með nýtingu belgjurta, áburðargjafar og trjágróðurs er hægt að búa til frjósamt land úr auðnum Íslands. En einungis ef við ákveðum að gera það. Komið hefur í ljós að hægt er að rækta timburskóg á Íslandi mun víðar en bjartsýnustu menn óraði fyrir. Rannsóknir hafa sýnt að með aukinni trjá- og skjólbeltarækt er hægt að umbylta loftslagi og ræktunarskilyrðum í heilum héruðum. Veðurfræðingar hafa bent á að með því að græða upp auðnir hálendisins megi gera út af við hina hvimleiðu hafgolu, sem svo víða spillir góðviðrisdögum sumars. 
 
Hvað þýðingu hefur þetta allt saman fyrir landbúnað dagsins í dag? Viljum við ekki endurheimta þau ræktunarskilyrði sem voru við landnám? Eða veljum við frekar að búa í köldu, vindasömu og harðbýlu landi? Bændum verður tíðrætt um matvælaöryggi. Hversu mikið matvælaöryggi væri fólgið í því að byggja upp gróðurauðlindina? Með vænlegri ræktunarskilyrðum gætum við margfaldað ræktun matvæla hérlendis. Neðan 200 metra hæðar yfir sjávarmáli eru um 5000 ferkílómetrar af auðnum. Milli 200 og 300 metra hæðar yfir sjávarmáli eru 5000 til viðbótar. Þetta eru einn tíundi af flatarmáli Íslands. Verulegan hluta þeirra mætti rækta upp. Eftir hverju bíðum við? Til hvers að beita snauða mela, einstaka holtasóleyjar og skriðnablóm, þegar hægt væri að koma í þá skógi á örfáum áratugum? Skógi sem gæfi skjól fyrir fólk, fénað og gróður auk timburs.
 
Bændum verður tíðrætt um gjaldeyrissparnað. Væri ekki mikinn gjaldeyrissparnað að sækja með því að framleiða eigið timbur og spara innflutning á því? Timburframleiðsla gæti orðið annar hornsteinn í dreifðum byggðum landsins. Þess má geta að víða í dreifhéruðum Skandinavíu er viðarhögg meginatvinnuvegur á sambærilegum breiddargráðum og hér. 
 
Bylting hugarfarsins
 
Hvert verður framlag landbúnaðar til baráttu gegn loftslagsbreytingum? Sennilega ekki lambakjöt. Raunar skilst mér að kolefnisfótspor lambakjötsframleiðslu sé algjörlega risavaxið hérlendis, þó líklega sé það mjög breytileg milli búa og landshluta.  Samkvæmt skýrslu Landbúnaðarháskólans um losun gróðurhúsalofttegunda úr landbúnaði er um 72% alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda hérlendis vegna landnýtingar. Landgræðsla með skógrækt, ásamt endurheimt votlendis, gæti orðið mikilvægasta framlag Íslands til baráttunnar við loftslagsbreytingar. Ef sauðfjárbændum er alvara með stefnu um kolefnisjöfnun er rétt að bretta upp ermarnar, en líka að taka upp reiknistokkinn.
 
Hvar stendur þá sauðfjárræktin? Er skynsamlegt, í ljósi sögunnar og ástands landsins, að leggja alla þessa orku í ræktun á sauðfé? Geta bændur haldið því kinnroðalaust fram að afurðir sauðkindarinnar séu vistvænar? Ég held ekki. En sauðfjárræktin og íslenskar sveitir eiga sér bjarta framtíð ef bændur sameinast um rétt markmið og hugsa stórt. Það er hagur allra Íslendinga að gera metnaðarfullar grundvallarbreytingar á land­nýtingar­málum hérlendis, og það þarf að byrja á sauðfjárræktinni. Fyrsta skrefið er bylting hugar­farsins.
 
Egill Gautason
Engihlíð, Vopnafirði
Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...