Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Dýrasta smjör í heimi er líklega franska Echiré smjörið.
Dýrasta smjör í heimi er líklega franska Echiré smjörið.
Lesendarýni 28. janúar 2020

Smjör-klípa íslenskra kúabænda

Höfundur: Svavar Halldórsson
Dýrasta smjör í heimi er ellefu sinnum dýrara en íslenskt smjör. Og flest bendir til þess að íslenska smjörið sé jafn gott eða betra. En af hverju erum við eftirbátar Frakkanna?
 
Smjör er galdurinn
 
Svavar Halldórsson.
Ein frægasta smjörsósa heimsins er Beurre Blanc úr skalotlauk, hvítvíni og rjóma eða smjöri (sumir nota hvort tveggja). Þótt sósan sé frönsk að uppruna má án efa þakka Júlíu Child fyrir það hversu miklum vinsældum hún hefur náð. Júlía var heilluð af smjöri til matargerðar og þrátt fyrir ráðleggingar fyrri ára um að draga úr smjörneyslu hélt hún merki þessarar afbragðs afurðar á lofti. 
Júlía Child var bandarískur kokkur, matreiðslubókahöfundur og sjónvarpsstjarna sem hafði mikil áhrif á vestræna matarhefð og framlag hennar við að útbreiða franska eldhúsið er ómetanlegt. Haft er eftir henni að smjör og rjómi séu galdurinn á bak við franska matargerð. 
 
Smjör er fjölbreytt afurð
 
En smjör er þó ekki bara smjör. Það eru til óteljandi tegundir og vörumerki og þótt það sé oftast úr kúamjólk er víða um lönd líka hægt að finna smjör úr sauða- og geitamjólk. Smjör er eðlilega misjafnlega gott. Gæðin eru háð framleiðsluaðferðum, því dýrakyni sem leggur til mjólkina og eins skiptir máli á hverju dýrin nærast. 
 
Almennt þykir smjör úr kúamjólk betra ef kýrnar eru aldar á grasi en ekki korni og víða þykir það til bóta ef smjörið er úr mjólk sem ekki hefur verið gerilsneydd. 
 
Íslenskt smjör er í úrvalsflokki
 
Íslenska landnámskúakynið er einstakt á heimsvísu og er skráð í Bragðörk Slow Food samtakanna. Íslenskar kýr eru líka að mestu aldar á grasi eða heyi. Íslenska smjörið er fallega gult og bragðgæðin eru einstök. Orðspor íslenska smjörsins á meðal kokka og matgæðinga er gott. Frægir matarbloggarar vestanhafs fullyrða að besta smjörið sem fáanlegt er í Bandaríkjunum sé íslenskt. Samanburður óháðra aðila gefur sömu niðurstöðu. 
 
Sjálfur er ég mikill áhugamaður um smjör. Þar sem ég er búsettur á Ítalíu hef ég prófað fjölmargar tegundir af smjöri undanfarið og þótt sumt sé ágætt er ekkert sem jafnast á við íslenska smjörið. Smjör er líklega ein besta landbúnaðarafurð sem framleidd er á Íslandi og algerlega í heimsklassa – og mjög ódýrt miðað við gæði.
 
Hvers vegna er smjör ekki ein af helstu útflutningsvörum Íslands? 
 
Íslenskt smjör hefur vissulega verið flutt út til Hollands, Finnlands, Bretlands, Bandaríkjanna og fleiri landa. Verðið sem fengist hefur, að minnsta kosti á stundum, hefur verið talsvert hærra en heildsöluverðið hér heima. Þannig að þessi útflutningur hefur borgað sig. Þó bárust fréttir af því í haust að flytja eigi út umframbirgðir af smjöri á útsöluverði. 
 
Í Evrópusambandinu eru fram­leiddar meira en tvær milljónir tonna af smjöri á hverju ári. Vart þarf að taka fram að framleiðslan á Íslandi er ekki nema brotabrot af því, tæp 2.000 tonn á ári. Sumt af evrópska smjörinu er ódýrt afsláttarsmjör en annað er dýrt og einungis selt í fínustu verslunum eða notað á dýrustu veitingastöðum. 
 
Dýrasta smjör í heimi
 
Dýrasta smjör í heimi er líklega franska Echiré smjörið. Á Amazon má panta franska smjörið fyrir jafnvirði um 11.000 íslenskra króna kílóið. Það er að sjálfsögðu með upprunavottun frá Evrópusambandinu. Íslenskt smjör kostar rúmlega 1.000 krónur kílóið í netverslun Nettó.
 
En hvers vegna hafa Íslendingar ekki náð að markaðssetja smjörið sitt á betri hluta markaðarins fyrir hærra verð? Svarið er einfalt – en þó í fimm liðum.
 
Það hefur aldrei verið gerð alvöru fagleg tilraun til þess, sem bæði kúabændur og afurðastöðvar hafa af heilindum stutt við bakið á.
 
Íslenskir kúabændur og afurðastöðvar þeirra hafa vanrækt að sækja nauðsynlegar alþjóðlegar vottanir. Enda hefur áherslan verið á innanlandsmarkað þar sem um 80% af íslenska smjörinu er selt.
 
Afurð úr mjólk úr dýrum sem alin eru á erfðabreyttu fóðri lendir yfirleitt í ódýrri markaðshillu. Samkvæmt bandarískri rannsókn greiða neytendur vestra 10%–62% hærra verð fyrir NON-GMO vörur. 
 
Farsæl markaðssetning tekur mörg ár og kostar peninga, en þó ekki síður að framleiðendur standi á bak við hana og hafi úthald og trú á verkefninu. 
 
Forystumenn bænda og stjórn­endur afurðastöðva verða að vera markaðslega þenkjandi og skilja markaðinn. Skammtímahugsun, græn­þvottur og ofuráhersla á hið opinbera stuðningskerfi skilar ekki auknum sölutekjum. 
 
Ónýtt tækifæri
 
Hér að lokum er smávægileg talna­leikfimi. Að því gefnu að heildsölu­verð á franska Echiré smjörinu sé helmingur af útsöluverði (það er líklega hærra), þá eru það um 5.500 krónur. Í frásögn Fréttablaðsins kemur fram að kílóverðið á útfluttu íslensku smjöri sé 490 krónur. Ekki kemur fram hvort þetta er CIF verð, en ef svo er kemur enn minna í hlut íslenskra bænda. Þarna munar um 4.000 krónum á hverju kílói eða um fjórum milljónum á hverju tonni. Miðað við 300 tonna útflutning (eins og til stóð samkvæmt fréttinni) er munurinn um 1,2 milljarðar króna. 
 
Vönduð markaðssetning skilar árangri
 
Færu öll 650 tonnin sem voru í umframbirgðum í haust á 5.500 krónur kílóið í stað 490 króna, fengjust 3,6 milljarðar í stað 318 milljóna. Auðvitað er þetta leikur að tölum og ekkert er að sjálfsögðu í hendi. En munurinn er samt 3,3 milljarðar. 
 
Til samanburðar þá fara um 6,5 milljarðar af skattfé til kúabænda á þessu ári í gegnum búvörusamninga.
Og svona til að hafa vaðið algerlega fyrir neðan sig, jafnvel þótt við deilum í talnaleikfimina með tíu, þá borgar sig samt að fara í faglega langtíma markaðssetningu á íslensku smjöri í útlöndum.
 
Til þess að svo verði þurfa framleiðendur samt að sjá tækifærin, læra af þeim sem best hefur gengið og tileinka sér nútímalega og faglega markaðshugsun. Það mun ekki gerast á meðan útflutningsskylda og afsetning eru hluti af orðaforða greinarinnar. Þetta er að hluta til spurning um að sjá skóginn fyrir trjánum. 
 
Áfram með smjörið
 
Og til að árétta það einu sinni enn. Íslenskt smjör er í úrvalsdeild á heimsvísu hvað varðar bragð, lit og áferð. Sjálfur bið ég alla gesti sem koma og heimsækja mig á Ítalíu að færa mér íslenskt smjör. 
 
Það er að sama skapi dapurt að horfa upp á metnaðar- og áhugaleysi varðandi þessa frábæru afurð. Ljósið í myrkrinu er samt það að við Íslendingar getum notið þess að fá eitt allra besta smjör í heimi á tombóluverði!
 
Það mætti jafnvel segja að íslenskir kúabændur séu í dálítilli smjör-klípu.
 
Svavar Halldórsson.
Höfundur er ráðgjafi
með MA í matarmenningu
og markaðssetningu.
www.svavar.info
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...