Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Við viljum komast örugg heim!
Mynd / Bbl
Lesendarýni 19. ágúst 2021

Við viljum komast örugg heim!

Höfundur: Jón Þór Benediktsson, varaoddviti Hörgársveitar

Á Eyjafjarðarsvæðinu búa nú liðlega 25.000 manns auk þess sem þar er víða rekin mjög öflug ferðaþjónusta. Umferð um þjóðvegi við Eyjafjörð er því oft með því mesta sem gerist hér á landi.

Tölur um umferðarfjölda má nálgast víða og sýna þetta glögglega, ætla ég því ekki að rekja það betur hér. Eyjafjörður skiptist í nokkur sveitarfélög. Ég þekki vel til Hörgársveitar þar sem ég hef alið manninn alla tíð auk þess sem ég hef verið þar sveitarstjórnarfulltrúi um alllangt skeið. Hörgársveitina ætla ég að nýta mér  í þessari stuttu grein minni til viðmiðunar þar sem ég þekki hana best á umræddu svæði.

Hörgársveit er öflugt samfélag þar sem nú er í gangi mikil uppbygging hvert sem litið er. Sveitin okkar er að fyllast af ungu kraftmiklu fólki sem vill una sínum hag þar, fjárfesta til framtíðar í bújörðum, bústofnum, vélum og tækjum. Búa þannig til góðan virðisauka á sitt ævistarf og skila af því dágóðum hluta til ríkis og sveitarfélagsins í gegnum sín gjöld og skatta. Við fögnum því öll að fólk hefur trú á því að lífið geti virkað svona áfram, við leggjum þannig öll eitthvað af mörkum, fyrir okkur öll, ekki satt? Við erum öflugt samfélag á fleiri sviðum, við byggjum upp og okkur fjölgar hratt, íbúum Hörgársveitar, ekki bara á bújörðunum, heldur einnig í þorpinu okkar Lónsbakka en þar hefur orðið umtalsverð fjölgun á íbúum síðustu ár. Eftir þessu er víða tekið og yfirleitt er það á góðu nótunum.

En við þurfum að komast heim að afloknum vinnudegi, við þurfum að koma afurðunum okkar til neytandans, ferðamaðurinn þarf að komast í gistinguna og eða í afþreyinguna til okkar, við þurfum að koma börnunum okkar í nýbyggða leikskólann, skólabíllinn þarf að komast með börnin í skólann, amma þarf að komast í endurhæfingu á hjúkrunarheimilinu o.s.frv. Til þess þurfum við vegi. Við þurfum að treysta á að við séum þokkalega óhult á vegum ríkisins um sveitarfélagið, við þurfum öll að komast örugg heim. Ég endurtek þetta, við þurfum öll að komast örugg á áfangastað.

Hörgársveitin er víðfeðm og stór, dalirnir okkar djúpir, fjöllin há og brött en vegirnir um Hörgársveit eru tiltölulega mikið á flatlendi og ættu því að vera nokkuð auðveldir í uppbyggingu og viðhaldi. Við búum við það að þjóðvegur 1 liggur í gegnum sveitarfélagið frá Öxnadalsheiði og inn til Akureyrar. Hann liggur meðfram Þelamerkurskólanum okkar, þar er hann breiður og góður vegur sem skilar sér í því að þar er umferðarhraði með því mesta sem gerist hér. Enginn slær af er þeir aka framhjá barnaskólanum okkar enda eru allir á miklu spani. Við höfum um áratugaskeið beðið um úrbætur fyrir öryggi barna okkar við skólann, en fáum þau svör að ekki sé hægt að lækka þarna umferðarhraða, ekki sé hægt búa til að- eða fráreinar á gatnamót né að fá undirgöng fyrir börnin að fara um. Til dæmis til að komast í skóginn og útivistarsvæðið sem staðsett er hinum megin við þessa fjölförnu hraðbraut um hlaðið á skólanum okkar. Af hverju ekki?

Þjóðvegur eitt heldur áfram að Þórustaðargili, þar eru ein hættulegustu þjóðvegagatnamót landsins, gatnamót þjóðvegar nr. 1 og Ólafsfjarðarvegar. Það verða umferðarslys og mörg alvarleg á hverju einasta ári. Þar er sama sagan, við fáum ekki að- eða fráreinar, þær kosta of mikið! Kosta þessi slys ekki neitt?

Við skulum aka inn Kræklinga­hlíðina í huganum, verulega góður og breiður vegur inn Eyjafjörðinn en er við förum að nálgast þéttbýlið okkar, Lónsbakka, þá er sama sagan. Leikskólinn okkar, Álfasteinn, þar sem yngstu og einir verðmætustu íbúar Hörgársveitar byrja sitt ævistrit, þar er blindhæð á þjóðvegi 1. Þar er ekki afrein, þar er ekki beygjurein, engar yfirborðsmerkingar eða merki um að leikskóli sé í nágrenninu, þar er 70 km hámarkshraði!

 Eftir að við ökum framhjá Álfasteini eru um 500 metrar í innkeyrsluna í þorpið okkar á Lónsbakka. Þar er nákvæmlega sömu sögu að segja. Það er ekkert hugsað um umferðaröryggi og borið við að ekki sé til fjármagn. Ég er ekkert að gleyma heldur innkeyrslunni að Húsasmiðjunni og bendi á að jú það er þarna líka 70 km hámarkshraði!

Malarvegi er enn að finna í Hörgársveit. Þar má nefna hættulegan veg eins og veginn inn Hörgárdal frá Melum að Staðar­bakka. Þar upplifir fólk sig sem annars flokks þegna þegar kemur að vegabótum, auðvitað eru íbúarnir það ekkert og eiga rétt á sömu vegabótum og allir aðrir skattgreiðendur hvar sem er á landinu! Margumræddur vegur nr. 818 er í næsta nágrenni við höfuðstað Norðurlands. Stórhættulegur malarvegur með djúpum giljum hvort sínum megin hans, illa viðhaldið, fáar eða engar viðvaranir, vegrið eða neitt sem gæti á einhvern hátt aukið öryggi þeirra er þarna búa og fara um, þau vilja jú bara komast örugg heim eins og aðrir.

Ég get svo ekki orða bundist er kemur að heimreiðum hjá þessu kraftmikla fólki sem hér býr. Hvað er að?! Síðan 2008 hefur lítið sem ekkert fé verið sett í málaflokk þann hjá Vegagerðinni sem heitir „viðhald heimreiða“. Við þurfum að sætta okkur við að keyra á burðarlagi sem sett var í heimreiðarnar um miðja síðustu öld og engu verið bætt þar ofan á í áratugi. Við þurfum að sætta okkur við árið 2021 að Vegagerðin fái ekki fjármagn til að tryggja öryggi fólks hérna lengur.

Eða hvað? Við keyrum um landið, við ferðumst og við eigum öll erindi í höfuðborgina. Það vekur spurningar þegar maður fer að nálgast fjölmennið á suðvestanverðu horni landsins að Vegagerðin virðist vera með meira fjármagn þar. Tökum uppsveitir Borgarfjarðar, eða eigum við að ræða afleggjarann að Grundartanga, Grindavíkurveg, Hellis­heiði eða Suðurstrandarveg. Vitiði, kæra fólk, að ég samgleðst svo mjög þessum vegfarendum sem þurfa og eiga leið um þessa vegi að þarna sé vel haldið á málum. Ég upplifi mig þokkalega öruggan á ferð minni um þessar slóðir. Er það umdæmið okkar hér sem er bara svona slakt í að sækja fjármagn í nauðsynlegar vegabætur? Eða er það pólitíkin á háa Alþingi sem er ekki að virka? Ég vil því gjarnan að þeir sem ætli sér að veiða atkvæðin okkar í Hörgársveit, Eyjafirði, Norðausturlandi öllu núna á næstu vikum, sýni okkur hvað þau ætli að gera meira en að búa til ferðamannastaði, flugvelli og hálendisvegi á næstu 4 árum. Við erum hérna til að halda byggðinni í landinu og við þurfum að sjá að ykkur sé alvara þegar þið talið til okkar á tyllidögum og í kosningagallanum.

Öryggi fólks snýr líka að öðrum þætti sem ég vil nefna hér að lokum. Þó svo að við búum í næsta nágrenni við Akureyri þá er nú svo að farsímasambandi er ábótavant hjá okkur, hvers vegna er það svo í nútímasamfélagi? Það er því í ofanálag lagt á íbúa og aðra vegfarendur að ef svo vildi til að slys yrði á illa viðhöldnum malarveginum, þá er því miður ekkert víst að við getum kallað á hjálp.

Eigum við þvi ekki bara að leggjast á árarnar öll saman, lögum þetta og vinnum að því að bæta vegakerfið og fjarskiptakerfið, og tryggjum þannig að við komumst nokkuð örugg alla leið.

 

Jón Þór Benediktsson,
varaoddviti Hörgársveitar

Skylt efni: umferð | Eyjafjörður | Vegamál

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...