Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kotlaugar og Skipholt, Jarlhettur og Langjökull í baksýn.
Kotlaugar og Skipholt, Jarlhettur og Langjökull í baksýn.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 6. nóvember 2019

Hvað er byggð án fólks?

Höfundur: Kristófer Tómasson sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Ég vil þakka Guðríði Baldvins­dóttur í Lóni í Kelduhverfi fyrir athyglisverða grein í Bænda­blaðinu á liðnu sumri. Ég staldraði við eftir lestur hennar. Búsetan veikist við hvern þann bæ sem fer úr ábúð. Að horfa upp á jarðir sem ekki sést mann­vera á nema í örfáar vikur á ári er dapurlegt. Það munar um hverja jörð sem fer úr fastri ábúð. Því strjálli sem byggðin er, þeim mun þyngra vegur föst búseta á hverju býli. Þar sem ekki er fólk, þar er ekki aðlaðandi að búa. Ekki nema fyrir skrítna einfara. 
 
Eldri borgarar eru nauðsynlegir hverju samfélagi og allra góðra gjalda verðir, en að búa í byggð þar sem eingöngu er eldra fólk, þar er ekki spennandi fyrir barnafólk að setjast að. Eldra fólk til sveita þarf að skynja sinn vitjunartíma, sumt af því gerir það, en þekkt eru dæmi þar sem unga fólkið er tilbúið til að taka við, en fær ekki svigrúm fyrir eldri kynslóðinni. 
 
Kristófer Tómasson.
Ættliðaskipti er reyndar almennt flókið úrlausnarefni. Þar sem bú eru í rekstri þurfa þeir sem eldri eru reyndar ekki bara að stíga til hliðar. Þegar ungt fólk knýr á um það. Fjárhagslegan flöt á að yfirfæra eignir á yngra fólkið þarf að finna í hverju slíku tilviki. Þar getur verið um val að ræða milli hárra boða frá peningamönnum, erlendum sem innlendum annars vegar og hinsvegar mun lægra boð frá barni bændanna á jörðinni, ef þau eru fleiri en eitt þá er ekki óeðlilegt að hin börnin vilji taka hærra boði. Ef svo fer, þá er líklegast að fastri búsetu ljúki. Margir bæir til sveita eiga sögu af þessu tagi. Vissulega eru þó dæmi um það að efnaðir menn sem eignast jarðir leggi mikla fjármuni í uppbyggingu og skapi störf til frambúðar, þó hefðbundinn búskapur líði undir lok. 
 
Hvað þarf til?
 
Brauðstritið eða á aðeins fægðara máli, tekjuöflunin og möguleikar til að draga fram lífið ræður sennilega í flestum tilfellum ferðinni um hvar fólk velur sér búsetu. Dæmi eru auðvitað um að átthagatryggð komi þar einnig til. En það er ekki nóg að tóra á skammlausan hátt. Þjónusta við íbúa þarf að vera samkeppnishæf í dreifbýli við það sem gerist í fjölmennari byggðarlögum. Það þarf að vera gaman að búa á þeim stað sem heimili fólks er. 
 
Maður er manns gaman. Hvort sem er í þéttbýli eða dreif­býli. Það þurfa að vera til staðar afþreyingamöguleikar sem fólk finnur sig í, svo sem kórar, leiklistar­starf, kvenfélög, Lionsklúbbar og ekki síður íþróttastarf fyrir börnin. Það er gaman að líta til þeirra sveita þar sem ungt fólk hefur kosið að setjast að og það er smitandi og á hinn bóginn smitar það líka útfrá sér þegar fólki fækkar. Ef ein barnafjölskylda í fámennu samfélagi kýs að flytjast úr byggðarlaginu þá er hætt við að það komi los á fleiri og fólk hugsi sér til hreyfings í framhaldinu.
 
Þegar sá sem þetta ritar var ungur, fyrir um það bil aldarfjórðungi, voru hefðbundnar búgreinar, mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt undirstaðan í mjög mörgum sveitum landsins. Ef fólk reyndi fyrir sér í búgreinum sem ekki flokkuðust sem hefðbundnar, voru þeir sem lítt höfðu kynnst öðru en því ,,hefðbundna“ margir hverjir fullir efasemda um slíkar tilraunir. Það var allavega mín upplifun. Sumir hverjir uppfullir af úrtölum. Þeir sem óhjákvæmilega þurftu að vinna útá við til að eiga fyrir salti í grautinn nutu ekki alltaf skilnings þeirra sem voru grónir í gömlu hefðbundnu gildin. Það fyrirgafst sennilega ef konur á bæjunum voru kennarar eða hjúkrunarfræðingar. Sennilega hafa prestar sem stunduðu búskap sloppið við dóma af þessu tagi. Mér virðist þetta vera ger­breytt sem betur fer. Mjög víða stundar annað hjóna vinnu utan bús og jafnvel bæði. Þar koma ekki síður til tækniframfarir sem draga úr bindingu heima fyrir sem og bættar samgöngur og auknar kröfur um lífsgæði. Víða hefur fólk komið auga á möguleika til atvinnusköpunar heima á bæjunum. Þar fer ferðaþjónusta með stórt hlutverk. Einnig heimvinnsla á búvörum. Fólk til sveita gerir ekkert minni kröfur til lífsins en fólk á mölinni nú til dags, annað væri óeðlilegt. Þar hefur orðið breyting frá fyrri tíð. Dreifbýlissveitarfélög sem ég þekki til eru að gera sitt besta til að mæta auknum kröfum íbúa, svo sem með snjómokstri og sorpþjónustu, að óefndum háhraðatengingum.
 
 
Búseta í framtíðinni
 
Það er umhugsunarefni hvernig búsetu verður háttað í sveitum landsins eftir 10 ár eða svo. Ekki er ætlunin að vera með hrakspár í þessum skrifum. Engu að síður er ekki minna tilefni nú til, en áður að reyna að horfa fram í tímann með búsetuþróun í huga. Hvað mun verða stundaðar eiginlegur búskapur á mörgum jörðum eftir 10-15 ár? Á þessari stundu er varla annað framundan en að þeim sem stunda búvöruframleiðslu fækki verulega og þau bú sem eftir verða stækki. Ekki síst í mjólkurframleiðslu. Sú þróun hófst fyrir nokkrum áratugum og mörgum kann að finnast hún sársaukafull. En hún er ekkert alslæm og verður varla umflúin, aðalatriðið í mínum huga er að föst búseta verði sem víðast.
Sauðfjárbúskapur stendur höllum fæti. Sú grein mun sennilega þróast enn meira sem aukabúgrein eða tómstundagaman, nema kraftaverk eigi sér stað. Pólitískar gjörðir skera að ég held með skarpari hætti úr um framtíð svína- og alifuglabúskapar en í öðrum greinum.  
 
Það væri afar miður ef þær greinar legðust af í landinu. Loðdýra­rækt er í mjög miklum þreng­ingum um þessar mundir og væri óskandi að úr rættist. Ytri aðstæður til að stunda þá grein eru mjög ákjósanlegar hér á landi. Eina grein á ég eftir að nefna. Það er garðyrkja - grænmetisframleiðsla, þar sem jarðhiti er til staðar, hef ég trú á að veruleg tækifæri séu til staðar til að auka framleiðslu og fjölga störfum. Ekki síst ef stjórnvöld hafa manndóm í sér að breyta verðlagningu á rafmagni til stórnotenda í garðyrkju. Fátt bendir til annars en neysla á grænmeti muni aukast á næstu áratugum.
 
Það var ætlun mín með þessu greinarkorni að beina sjónum að búsetu í dreifbýli. Ekki laust við að ég hafi farið eitthvað útaf því spori. En hvað um það, mikilvægt er að jarðir og smábýli sem og sveitaþorp séu setin af fólki með raunverulega fasta búsetu, ekki bara lögheimili, einnig næturstað. Fólk þarf að vera þátttakendur í samfélögunum þar sem það er með heimilisfesti. Það er ekki aðalatriðið að fólk sem situr jarðir stundi landbúnað. Ef verkefni eru til staðar á tilteknum svæðum eða aðstæður til að skapa sér viðurværi sem festa fólk þar til fastrar búsetu, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim byggðum. Það er víða meira af störfum í boði í dreifbýlinu en var fyrir einhverjum árum, en það þarf að bæta það framboð verulega. 
 
Hvað er  hægt að gera til úrbóta? 
 
Víða er búið að gera stórátak í nettengingum, það skapar vissulega mikil tækifæri sem ég held að eigi eftir að skila sér betur, til þess að vinna heima við svo sem bókhald, hönnunarstörf og önnur sérfræðistörf, sem og að stunda nám. En fólk þarf félagsskap eins og áður er getið. Ríkisvaldið þarf að gera betur í að flytja störf út á landsbyggðina og vera í fararbroddi hvað það varðar, störfum án staðsetningar hlýtur að mega fjölga. Þar eiga einkaaðilar auðvitað að koma einnig við sögu. Það er auðvitað misjafnlega ákjósanlegt, eftir aðstæðum, svo sem samgöngum, náttúruperlum og hlunnindum. Í 100-150 kílómetra radíus frá höfuðborgarsvæðinu og einhverri fjarlægð frá Akureyri er væntanlega minni ástæða til að hafa áhyggjur af búsetu en á öðrum svæðum. Það finnst mér reyndar ekki nóg. Ég er áhugamaður um að hafa byggð sem víðast um landið, en til eru svæði á landinu þar sem útilokað er annað en að búseta leggist af. En raunverulegur vilji fólksins sjálfs, til búsetu sem og framtakssemi ræður miklu um þróunina í byggðamálum á Íslandi.
 
Kristófer Tómasson
sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...